miðvikudagur, október 18, 2006

Netfíknin, nýji nágraninn og nýtt viðhorf

Það er merkilegt hvað maður getur verið mikill netfíkill. Og þá helst bloggfíkill. Ég er alveg búin að taka nokkra daga í það að fara link eftir link á milli fólks og njósna. Búin að komast að ýmislegu um fólk sem maður sér á göngum skólans, skoða myndir og lesa hugleiðingar bláókunnugra. Er til dæmis búin að komast að því að það er mikill matgæðingur og blogg-snillingur að flytja í götuna mína. Minn hluta meira að segja. Þetta er snillingurinn hún Nanna, sem Guðný þekkir og er með link á hjá sér. Ég er búin að vera að fylgjast með ævintýrum hennar hjá Fróða, lesa frásagnir hennar af Sauðagærunni og Gagnlega barninu og skemmta mér konunglega. Ég er yfir mig ánægð að þessi góða kona sé að fara að vera nágranni minn.

Í fyrirlestri í eignastýringu um daginn var sálfræðingur að tala við okkur um hjarðhneigð. Eitt af þeim atriðum sem hann minntist á var sú staðreynd að lang flest okkar eru haldin miklum ranghugmyndum um sjálf okkur. Flest teljum við að við séum yfir meðaltali greind, yfir meðaltali lagleg og yfir meðaltali með lang flest sem spurt var um. Sem mér finnst frekar fyndið því að flestir eru svo afskaplega duglegir við að gagnrýna allt og alla, greinilega algerlega ómeðvitaðir um sjálfan sig. (Undirrituð algerlega ekki undanskilin) Svo til að koma í veg fyrir þetta klassíska flís-í-auga-náungans en ekki bjálkann-í-manns-eigin kind of situation þá held ég að það sé best fyrir fólk að hætta bara að velta sér upp úr málefnum náungans. Hætta að gangrýna allt og alla og líta aðeins í eigin barm áður en byrjað er á að leggja öðrum lífsreglurnar eða agnúast út í aðra. Ég er allavegana búin að ákveða að fara að gera það.

Annars bara fínt að frétta. Er farin að sjá fram úr verkefnunum, þetta hlýtur að vera gerlegt. Erum að fara í bústað hjónin um helgina og ætlum að hafa það kósý. Þarf bara að rumpa af þessu blessaða prófi fyrst og skila inn. Mikið verður gaman þegar það er búið…

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim