föstudagur, október 12, 2007

Sitt lítið af hverju


Já það er aldeilis margt búið að ganga á í borgarpólitíkinni á síðasta sólarhring. Komin nýr borgarstjóri og allt, sá nýji reyndar mun myndarlegri en sá gamli og er ég bara frekar ánægð með það. Hafði ekki mikið álit á Vilhjálmi, finnst hann alveg búin að spila rassinn úr buxunum í þessu REI máli og fleiri málum. Frekar skrítið og pirrandi samt að Björn Ingi sé eftir sem áður einhver lykilmaður í atburðarrásinni eins og hann var í myndun gamla meirihlutans. Það er bara vonandi að þetta 4ra flokka samstarf gangi upp.

Ég er brjálaður aðdáandi Velvakanda í Mogganum (sem ég er að sjálfsögðu áskrifandi að eins og allir góðir borgarar). Ég get skemmt mér við að lesa þessi litlu innsendu bréf endalaust. Fyndnast fannst mér um daginn þegar allavegana í tvígang var auglýst eftir ketti sem hafði týnst frá Kattholti, maður hélt að kettirnir sem týndust ættu að vera nokkuð öruggir þar. Svo er búið að vera vinsælt að senda inn bréf sem mælir með nýju kvikmyndinni Veðramótum sem ég er reyndar ekki ennþá búin að sjá. Um daginn þá var líka einhver sem skrifaði til að kvarta yfir því að þingmönnunum hefði verið boðið áfengi eftir þingsetningarathöfnina á Alþingi. Fannst það ekki við hæfi að skattpeningarnir færu í áfengi eða eitthvað þannig. Skömmu seinna kom svo svar frá Skrifstofu Alþingis þar sem sagði að þingmennirnir hefðu ekki fengið neitt brennivín heldur bara kaffi og bakkelsi. Þannig að það er greinilegt að það lesa þetta fleiri en ég.

Skólinn er alveg komin á fullt og önnin nánast hálfnuð. Skil á lítilli ritgerð í dag og próf á mánudaginn þannig að um helgina verður maður að halda vel á spöðunum. Svo á náttúrulega væntanleg koma frumburðarins hug manns allan og undirbúningur fyrir það alveg á fullu. Barnaföt á snúrunni og mikið farið í búðir sem selja nauðsynlegan varning fyrir barnið. Ætlum einmitt að fara um helgina og kaupa bílstól, sem er víst nauðsynlegur til að koma krílinu heim, og fleira dót. Með hverjum hlut sem keyptur er þá verður maður líka smám saman æstari og æstari yfir þessu. Tilhlökkunin hér á bænum er þess vegna komin á nokkuð hátt stig enda er flest sem okkur vantar að verða komið í hús og krílið okkar má þess vegna bara fara að koma.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim