Wochenende
Helgin er búin að vera í einu orði sagt frábær. Við hjónin höfðum það náðugt á föstudagskvöldið, vorum bara hérna heima og horfðum á video. Á laugardaginn pökkuðum við svo í bílinn smá dóti og lögðum í hann á Snæfellsnesið. Á leiðinni á nesið komum við við bæði á Akranesi og Borgarnesi, dóluðum okkur áfram og virtum fyrir okkur útsýnið. Keyrðum svo fyrir Snæfellsnesið og túristuðumst eins og við gátum. Stoppuðum allsstaðar þar sem eitthvað áhugavert bar fyrir sjónir og skoðuðum landið. Enduðum svo rúntinn á Ólafsvík þar sem við fengum okkur að borða, keyrðum svo á Arnarstapa þar sem við gistum. Í dag er svo búin að vera álíka dagskrá. Sofið út, lunch á Búðum, sólbað og sæla, sund í Skorradal, rúntur í blíðunni og svo enduðum við daginn með humarsúpu á Sægreifanum. Hefði ekki getað verið betra.
Annars er allt með kyrrum kjörum á Grettisgötunni. Við erum undanfarið búin að dunda okkur við að setja fataskáp í hjónaherbergið (kannski komin tími til), búin að gera pláss í aukaherberginu fyrir rúm af minnigerðinni fyrir litlu manneskjuna sem er á leiðinni og stefnum að því að kaupa fataskáp þangað inn líka. Það gengur annars allt sinn vanagang. Indriði komin með nýtt risastórt verk sem hann kemur til með að hafa yfirumsjón með í Kópavoginum. Verður mikil tilbreyting fyrir hann að komast úr Hafnarfirði. Ég er alltaf bara í vinnunni og líkar afskapalega vel. Sumarið spænist áfram og fyrr en varir verður það búið og skólinn byrjaður aftur.
Svo verður maður aðeins að monta sig af afrekskonunni og frænku minni henni Helgu Margréti. Hún er búin að standa sig svo ótrúlega vel og sýndi það og sannaði um helgina með frábærum árangri á Heimsmeistaramóti Unglinga. Innilega til hamingju með árangurinn Helga !! Svo er systir hennar hún Stína alveg að fara að koma til landsins og hlakka ég mikið til að hitta hana.
Það verður annars örugglega ekkert mikið um fréttir hérna á síðunni, maður er að reyna að nota tímann í vinnunni til að vinna og reynir svo að vera úti í góða veðrinu þegar vinnudegi líkur.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim