fimmtudagur, desember 15, 2005

Lifsgæðakapphlaupið

Þeir sem þekkja mig vita að það er fátt sem æsir mig meira upp en þetta blessaða lífsgæðakapphlaup. Það eru allir eitthvað svo svakalega fastir í einhverjum gildum sem mér finnst vera kolröng og ég skil ekki af hverju fólk er ekki að fatta hvað þetta er heimskulegt. Það eru allir að drífa sig svo mikið að fá "fullkomnu" vinnuna og kaupa "fullkomna" einbýlishúsið að fólk gleymir að lifa í deginum í dag. Allir eru að tapa sér í CV-inu og eignamyndun og starfsframanum. Fólk á mínum aldri er s.s. að drífa sig eins og það getur að verða miðaldra, sem mér finnst fáránlegt, það hefur alla ævina til að vera miðaldra. Af hverju ekki að vera ungur þegar maður er ungur? Fólk vinnur myrkranna á milli til að geta keypt sér nógu mikið af dóti og gleymir að hafa gaman. Nú finnst kannski einhverjum ég vera komin á hálan ís: Laufey mín ert þú ekki búin að vera að vinna tvær vinnur í sumar og vera líka í skóla og vinna? Sem er reyndar rétt en ég tel mína stöðu vera frábrugna flestum á tvennan hátt.

1. Ég er búin að vera að vinna með skólanum núna til að geta verið í fríi næstu 4 mánuðina.
2. Ég á ekki börn.

Því það er einmitt það sem mér finnst vera hræðilegast við allt þetta brjálæði í fólki. Allir svo sjúkir í nýja jeppan, flatskjáinn eða einbýlið, að fólk gleymir kannski að það á börn. Það er svo brjálað að gera að græða alla peningana til að geta keypt allt dótið og farið í fínu sumarfríin, að fólk missir af uppvexti barnanna sinna, af því það er alltaf í vinnunni. Svo kannski vaknar það upp einn góðan veðurdag, kannski orðið 50 ára og það þekkir hvorki makann sinn eða börnin. Allt í einu er lífið hálfnað og þú ert búin að missa af því og gleyma að kynnast fjölskyldunni þinni af því þú hélst að peningar væru málið.

Þess vegna finnst mér mikilvægast af öllu að njóta lífsins og hætta að hugsa alltaf um þessa blessuðu peninga endalaust. Auðvitað er nauðsynlegt að eiga einhverja peninga til að geta keypt sér svona það helsta en þeir eru sko alls ekki aðal-málið. Hættum að vera peningasjúk, förum að átta okkur á því að við lifum bara einu sinni og við fáum ekki að taka allt draslið með okkur þegar við drepumst.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim