laugardagur, desember 10, 2005

Áfall dagsins...


Já það er spurning hvort titillinn hennar Unnar Birnu gæti flokkast sem áfall dagsins en það er nú ekki svo. Ég veit ekki hvort þið munið eftir því um daginn þegar ég sagði frá því að það hefði verið næstum því keyrt á bílinn minn. Fullur karl var að keyra í götunni minni og klessti á bílinn hjá manninum á efri hæðinni. Og viti menn. Í morgun heyrði ég frekar kunnuglegan dynk og ég þorði því ekki annað en að kíkja út og athuga hvað hafði gerst. Heyrðu þá hefði annar fullur karl, eða sá sami ég veit það ekki alveg, verið að keyra aftur í götunni minni og klesst á bílinn hans Indriða. Meira hvað þetta er allt að verða dramatískt. En allavegana þá stakk þessi af eins og hinn og lögreglan þurfti að fara um hverfið til að leita að honum. Held nú að hann hafi fundist á endanum samt. Eins gott að maður fái góða þjónustu hjá blessuðu tryggingafélaginu. Vorum fyrir helgina að borga allan tryggingapakkan okkar, kaskó á 2 bílum, líftryggingu og hústryggingu og var það samtals uþb 200.000. Þannig að núna reynir á hvort maður fái eitthvað fyrir peninginn.

Erum að fara í kveðju-partý til Margrétar og Róberts í kvöld, þrátt fyrir dapurt ástand á hjónunum. Ég að fara í stæ-próf á mánudaginn og er farin að fá hraðan hjartslátt út af því og Indriði er lasinn. Greyið strákurinn er búin að liggja í rúminu í allan dag með hor og hósta. Og á meðan er ég búin að sitja hérna frammi og læra stærðfræði með stelpunum. Ég hlakka svoooo mikið til að vera búin með þessa stærðfræði...

Svo eru bara 50 ár síðan Halldór Laxnes fékk Nóbelinn. Til hamingju með það allir. Ég væri alveg til í að fá Nóbelsverðlaun. Ætli ég þurfi ekki að læra helling meiri stærðfræði til að eiga möguleika á því. Kannski ég rannsaki kvennahagfræði og reyni að veiða Nóbelinn út á það. Það væri nú frekar flott.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim