Back to normal
Já það má nú segja að lífið sé komið aftur í sinn vanagang. Ég farin að vinna, Indriði náttúrulega löngu farin aftur að vinna og ég búin að taka nokkrar vaktir á tjarnarbakkanum. Eina sem er ekki eins og áður er að Rauða Þruman er hætt að flytja píuna milli borgarhluta og í staðinn er komin ennþá stærri gulur kaggi sem er aðeins hægari í förum. Já ég veit að þetta er skrítin tilhugsun en þið verðið að sætta ykkur við þetta. Heimsreisan er búin að pumpa úr mér nánast allt lífsgæðakapphlaup og mér finnst bara allt í lagi að taka strætóinn góða í vinnuna. Það tekur mig reyndar uþb 50 mínútur að komast hingað á skrifstofuna í Holtagörðum með viðkomu í Lækjargötunni en það er bara fínt. Maður fær að keyra um borgina okkar á hverjum morgni og virða fyrir sér mannlífið í leiðinni. Verst þegar maður lendir i situation eins og í morgun þegar ég var orðin allt of sein. Mín tók sprettinn upp í Hamraborg og rétt náði kagganum en sat svo kófsveitt, með móðu á gleraugunum og að rembast við að ná andanum alla leiðina niður í Lækjargötu. Ég er ekki frá því að útsýnið hafi aðeins farið framhjá mér þennan morguninn.
Ég er samt alveg í losti yfir ástandinu hérna á þessu blessaða skeri. Það eru allir orðnir svo upptjúnnaðir í tryllingi að kaupa sér allskyns óþarfa hluti. Einbýlishús og jeppar eru sennilega þar efst á listanum. Svo núna er bensínverðið komið upp í hæstu hæðir og verðbólgan að tryllst af stað. Það er því kannski ekki það sniðugasta að eiga 40 milljón króna skuld í bankanum eða bíl sem eyðir 25 á hundraðið. Þetta er einmitt hluti ástæðunnar fyrir því að ég er á strætóinum en ekki á bíl. Við ætluðum að taka bíl á rekstrarleigu fyrir mig þegar við kæmum heim en ég tók það ekki í mál. (Þar skaut vinstri-rebellinn upp kollinum) Ég ætla sko ekki að taka þátt í þessu brjálæði og borga 130 kr. fyrir bensínlíterinn ofaná allan annan kostnað sem fylgir því að reka bíl. Þess vegna kaus ég að fá mér frekar staðkvæmdarvöruna grænakortið. Sem kostar bara 5.100, sem er ca. eins og 40 bensínlítrar, sem duga ekkert ofsalega langt.
Annars langar mig að minna á stórkostlega tónleika sem verða í kvöld niðri í Iðnó á vegum Vinstri-Grænna. (Ég er ekkert gengin í flokkinn) Það er frítt inn og rosa flottar hljómsveitir í boði.
Ung vinstri græn standa fyrir tónleikum í IÐNÓ fimmtudaginn 4. maí klukkan 20:00.
Kynnir er engin önnur en Andrea Jónsdóttir
Frítt inn og allir velkomnir.
Fram koma m.a.
Benny Crespo's Gang
Rósa Guðmundsdóttir
Helgi Valur
Byssupiss
Mammút
Múgsefjun
Jan Mayen
Hraun
Nortón
Ég vil líka minnast svona í lokinn á ROSALEG miðvikudagskvöld á Skjá einum. Uppáhaldsþættirnir mínir Americas Next Top Model og The L word eru komnir aftur á dagskrá og á sama kvöldinu hvorki meira né minna. Og ekki nóg með það heldur er SATC endursýnt strax á eftir. Alger sjónvarps-heaven. Eina sem skemmir aðeins þetta frábæra sjónvarpskvöld er þátturinn um Fegurðarsamkeppnina sem mér finnst minna en spes. Hvað er hægt að mjólka eina keppni mikið? Það eina góða sem hægt er að segja um þáttinn er að hún Sigrún Bender er með betri fegurðardrottninga-sjónvarpskonum sem eru á sjánum. Ekki það að það sé einhver brjáluð keppni, flestar eru frekar óhæfar og stamandi. Og svo er hún líka svo svakalega sæt.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim