föstudagur, maí 26, 2006

Efst á baugi


Erum stödd á Sauðárkróki í snjónum, já ég sagði SNJÓNUM. Alveg eins og maður sé komin marga mánuði aftur í tímann. Í dag var útskrift hjá Rannveigu systur hans Indriða, í kvöld er matur í íþróttahúsinu af því tilefni og á morgun auðvitað kosningarnar. Þannig að það er allt að gerast hérna á Norðurlandinu.

Það sem hefur verið helst rætt á kaffihúsunum þessa vikuna eru skilnaðir og stelpur sem breytast í kærastana sín eftir að til sambands er stofnað. Fyrra umræðuefnið hefur verið tíðrætt sökum margra sambandsslita (Guðný mín er þetta ekki betra orð?) hjá fólki í kringum mig að undanförnu. Helst höfum við vinkonurnar verið að ræða mismunandi viðbrögð kynjana í þessum aðstæðum. Fyrstu viðbrögð eru sennilega þau að við stelpurnar verðum sorgmæddar en strákarnir detta í það. Eða er það ekki...? Síðan þegar við erum búnar að jafna okkur og hættar að vera sorgmæddar þá rennur loksins af strákunum, þeir verða leiðir og koma aftur til okkar með skottið á milli lappana. Og þá verðum við alveg ruglaðar í rýminu. Ég veit um fjölmörg dæmi um nákvæmlega þetta.


Hitt umræðuefnið og sennilega undanfari flestra skilnaða eru stelpurnar sem breytast í kærastana sína. Stelpur sem t.d. hafa alltaf hatað fótbolta og eru algerir djammarar eru allt í einu hættar að fara út á lífið en farnar að fylgjast með enska boltanum eins þær eiga lífið að leysa. Svo slitnar upp úr því sambandi. Gellan finnur sér nýjan kærasta sem hefur áhuga á mótorsporti og allt í einu er hún orðin sérfræðingur í Formúlunni og löngu búin að gleyma öllu um fótbolta. Allt í lagi að sýna áhugamálum makans smá áhuga en fyrr má nú vera. Enda held ég að þessi hegðun leiði nánast alltaf af sér skilnað. Enda ættu stelpur ekki að vera lengi að sjá út hvað myndi gerast ef kærastinn breyttist í þær. Ekki mjög sexy ef hann væri alltaf að horfa á Top Model og Housewifes, hanga með þér og vinkonunum á kaffihúsum eða að hann væri heima að föndra eða prjóna. Þær væru ekki lengi að forða sér eða að minnsta kosti spyrja hann áleitinna spurninga um kynhneigð hans.


Við hjónin fórum í morgun og kusum utankjörfundar áður en við fórum af stað norður. Ég er ekki ennþá búin að fá það uppgefið hjá eiginmanninum hvað hann kaus og hef ég heldur ekki gefið upp hvert mitt atkvæði fór. Hef ég þó sterkan grun um að hann hafi kosið eftir fjölskyldu línunni en ég er svo heppin að það er ekkert svoleiðis hjá minni fjölskyldu og geri ég þess vegna það sem ég vil. Ég er strax farin að hlakka til að fylgjst með kosningavökunni annað kvöld. Er samt búin að missa af meirihlutanum af umfjölluninni um Kópavog og veit því ekkert ofsalega mikið um það sem ég var að kjósa. Er spenntari fyir úrslitunum í Reykjavík, enda stefni ég á það að verða íbúi þar í borg, vonandi áður en árið er liðið.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim