þriðjudagur, júní 27, 2006

Mánudagur - Þriðjudagur


Hvernig getur Pepsi light verið fyrir alla þá sem láta sig dreyma um Manolo Blahnik? Ég t.d. drekk ekki Pepsi en læt mig dreyma oft og iðulega um að eignast par frá snillingnum Manolo. Þetta á s.s. að vera einhver snilldar auglýsingaherferð, en þar sem ég tilheyri bæði target markhópi og ekki, þá fer þetta í taugarnar á mér. Önnur frekar skrítin auglýsing er greyið Ósk Norðfjörð og lambalærin. Greynilegt að hennar stjarna fer hægt fallandi, fyrst með bikinimódelinu og svo Kjarnafæðis-útspilinu. Ekki það að stjarnan hafi einhverntímann farið hátt. Ég held að flestir geti verið sammála um það að nýjum lægðum (eða kannski lærum) hefur verið náð í markaðssetningu með þessari auglýsingu.

Í vikunni komst ég líka að því að það eru engin takmörk fyrir því hvað fólk getur verið leiðinlegt. Eins og ég sagði við eina vinkonu mína “Ef það væri hægt að deyja úr ofskammti af leiðinlegum samræðum þá væri ég dáin” og eftir enn fleiri daga í reynslu þá stend ég ennþá fast við orð mín. Spurning hvort maður getur komið upp óþoli fyrir þessu. Ég held að minnsta kosti fast í vonina að það gerist, allavegana vona ég að þetta hætti að fara svona rosalega í taugarnar á mér. Á svona tímum þakkar maður fyrir að eiga ótrúlega skemmtilegar og hressar vinkonur sem tala bara um skemmtilega hluti. Enda er ég búin að stóla á það að þær hangi með mér á kaffihúsum alla vikuna.

Á fyrstu önninni minni í Háskólanum lenti ég í frekar skrítinni atburðarrás sem ég er búin að vera að velta aðeins fyrir mér. Málið var að það var alltaf einhver frekar skrítinn gaur að glápa á mig. Mér fannst það nú frekar svona creepy og leið ekki vel með það þannig að ég fór ósjálfrátt að fylgjast með hvort hann væri að horfa. Svo í einhverri vísindaferðinni fóru fram orðaskipti á milli okkar, mín og creepy, og komst ég þá að því að hann hélt að ég væri rosa skotin í sér. Sem hefði ekki getað verið fjær sannleikanum. Ég, harðgifta konan, sem hafði ekki í hyggju að yngja neitt upp, allavegana ekki nærri strax og alveg örugglega ekki með einhverjum af hans sauðahúsi. Þess vegna er ég búin að vera að spá í þessu með augngoturnar. Ef að aðstæður hefðu verið öðruvísi, ég ekki verið lofuð, gaurinn sætari og svona, ætli hlutirnir hefði getað farið á annan veg? Ætli heilu ástarsamböndin hefjist á einhverjum svona misskilningi?

Fórum annars norður á föstudaginn og áttum yndislega helgi. Mjög mikil afslöppun, mikið grillað og spjallað. Næsta helgi stefnir líka í að verða frábær, allavegana miðað við plönin sem eru núna í bígerð. Fáum sennilega íbúðina ekki afhenta fyrr en eftir helgina þannig að nú er síðasti séns að vera í einhverju útsláelsi. Eftir að við fáum afhent er sko bara harkan og ekkert annað.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim