þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Helgin og helgarnar framundan


Mjög skemmtileg helgi að baki. Sem var ólíkt venju eytt í höfuðborginni okkar fínu en með hefðbundinni skemmtun samt sem áður. Vorum innipúkar á föstudagkvöldið. Hittumst gellurnar heima hjá Guðnýju og Silju í einn drykk, fórum þaðan niður á Salt þar sem var teigaður annar drykkur, (og húkkaðir upp nokkrir ameríkanar ...fyrir stelpurnar sko, ekki fyrir mig) og svo var þaðan tekin stefnan á Nasa. Þar sem var tjúttað eins og djöfullinn væri á hælunum á okkur með hápunkti í ofur-skemmtilegu hljómsveitinni Jeff Who? Sem akkúrat hljómar í mínum eyrum í þessum töluðu orðum. Þeir eru náttúrulega alveg skemmtilegastir.


Laugardeginum var svo eytt í miklar framkvæmdir þar sem foreldrarnir heiðruðu okkur með nærveru sinni og hjálpuðu okkur að festa niður sturtubotn og setja saman nokkra skápa. Þetta er sko allt að potast áfram hjá okkur. Þegar það var yfirstaðið þá var stefnan tekin upp í Grafarholt þar sem 6 vinir hittust, slúðruðu og borðuðu saman í góðu yfirlæti. Takk æðislega fyrir mig krakkar, þetta var algert æði.

Sunnudeginum var eytt í mikla afslöppun og rólegheit, enda vikan og dagarnir áður búnir að vera annsi strembnir og þétt skipaðir. Eiginmaðurinn var of þreyttur til að fara út þriðja kvöldið í röð þannig að ég þurfti að halda uppi djamm-heiðri familyunnar og fórna mér út á lífið. Var um kvöldið hjá Christínu vinkonu og fékk þennan voða fína mat hjá henni og manninum hennar. Við skelltum okkur svo niður í bæ þar sem nokkrir barir voru heimsóttir. Skakklappaðist pían loksins heim um kl. 4 þegar var búið að dansa frá sér allt vit og sporðrenna eins og 2 pítsasneiðum.

Mánudagurinn var ofur-rólegur og ekki mikið sem var afrekað. Tókst samt að rífa okkur upp og skella okkur í bíó á Sentinel sem var mjög fín. Michael Douglas stendur sig bara vel í hlutverki sínu þótt hann sé að verða aðeins of gamall fyrir svona hasarmynd.


Næstu helgar eru svo þétt skipaðar. Brúðkaup og afmæli næstu helgi að ónefndri Gay pride hátíðinni sem ég hef aldrei gerst svo fræg að sjá. Alltaf verið að vinna eða ekki verið í bænum. Helgi eftir það verður vonandi innflutningspartý hjá okkur hjúum. Stefnum að því að vera búin að koma okkur fyrir þá sem vonandi gengur eftir. Og svo er auðvitað líka þarna menningarnótt. Merkilegasti atburður þeirrar helgar er samt án nokkurs efa eins árs brúðkaupsafmæli hjá okkur hjónum. Við erum bráðum búin að vera gift í eitt ár. Spurning hvað skal gera í tilefni dagsins?

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim