þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Helgin og hommarnir


Já er það ekki venju samkvæmt skylda að fara hérna yfir það sem helst bar á góma yfir helgina?

Við skelltum okkur norður á föstudaginn þrátt fyrir vonda veðurspá. Við brunuðum á kagganum af stað og var fyrsta stoppið í sveitinni hjá m&p. Þau gömlu voru hress að vanda, vinnulúin og þreytt, en til í líflegar umræður. Við matarborðið var nefninlega rafvirki sem verður að teljast með fordómafyllri mönnum sem ég hef fyrir hitt. Hann byrjaði á hommum (og ekki einu sinni spyrja mig af hverju umræðurnar fóru út í þetta). Hann vildi meina það að samkynhneigðir væru kynlífssjúkir upp til hópa og notuðu hvert tækifæri sem gæfist til að troða sinni kynhneigð og sínu kynlífi framan í alla sem fyrir væru. Það er óþarft að taka það fram að í þessu var ég honum MJÖG ósammála. Hann kom með mörg gullkorn sem voru meðal annars sú að það ætti að "lækna þetta fólk" og það sem mér fannst best: "ég er ekkert á móti hommum, ég er bara á móti samkynhneigð og því sem hommarnir standa fyrir. Alveg eins og ég er á móti stríði en hef svo sem ekkert á móti hermönnun". Alveg eins og það er alþekkt og ótrúlega eðlilegt að hafa ekkert á móti ástföngnu fólki en hata samt ástina. Hann sagðist eiga fimm börn og vona ég svo sannarlega að fordómar hans og fáfræði erfist ekki til þeirra. Ég gerðist meira að segja svo kvikindisleg að segja við hann að ég vonaði að eitthvert af þessum börnum hans ætti eftir að koma út úr skápnum svo hann myndi neyðast til að verða víðsýnni. Meira fólkið...


Svo í bálviðrinu á sunnudaginn blossaði upp annað fordómabál og allt varð vitlaust í málefnum innflytjenda. Þessi blessaða ríkisstjórn er náttúrulega með skítinn upp á bak í þessum málaflokki. Það þýðir ekkert að búa svo um í hagkerfinu að hérna sé endalausa vinnu að fá þannig að það flykkjist hingað fólk og svo sé EKKERT gert til að taka vel á móti því. Það þarf að veita fé til þess að taka vel á móti fólki sem vill flytja hingað og setjast hér svo það aðlagist íslenskum veruleika og lífinu hér.

Ég hitti einn gamlan góðan vin minn um helgina sem ég hef hitt á fáránlegustu stöðum. Einu sinni t.d. á flugvellinum í Frankfurt og þá var ég ekki búin að hitta hann í mörg ár. Í þetta skiptið var hann á nýja Mælifelli á Sauðárkróki en maður varð náttúrulega að kíkja á nýja fína staðinn. Hann Egill er algert æði, sjúklega fyndinn og það var æðislegt að hitta hann aftur. Ég var líka með harðsperrur í andlitinu á sunnudaginn ég hló svo mikið.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim