fimmtudagur, apríl 19, 2007

Gleðilegt sumar

Það var sko aldeilis viðburðarríkur síðasti vetrardagur hérna í miðbænum. Fyrst þessi rosalegi bruni sem er hræðilegt áfall fyrir okkur öll, sérstaklega okkur sem búum hérna og eigum leið framhjá þessu horni á hverjum degi. Það verður ekki skemmtilegt að labba þarna framhjá núna þegar þessi sögufrægu hús eru horfin og brunnin til kaldra kola. Svo um kvöldið sprakk hitavatnsleiðsla hérna örstutt frá okkur og heitt vatnið flæddi yfir allt sem fyrir varð. Þá var ég búin að fara 2x að horfa á baráttuna við eldinn niðri í Lækjargötu, nennti ekki meira actioni og lét duga að horfa á flóðið í sjónvarpinu. Það var ekkert smá óhugnalegt að sjá eldtungurnar leika um þessi hús og ég verð nú bara að segja það að eftir þetta alltsaman ber ég ennþá meiri virðingu fyrir slökkvuliðsmönnum. Þetta var ótrúlegt þrekvirki sem þeir unnu þarna við mjög erfiðar aðstæður og frábært að þeim tókst að bjarga þessum húsum sem eru þarna til beggja hliða.

Ég er annars búin að vera að velta fyrir mér hnýsni upp á síðkastið. Það er svo ótrúlegt hvað fólki dettur í hug að spyrja mann um. Ég hef fengið spurningar frá fólki sem ég þekki lítið sem ekki neitt sem ég myndi ekki einu sinni spyrja vinkonur mínar að. Ég er reyndar frekar lokuð manneskja svona út á við en þegar ég hleypi fólki að þá fær það sennilega að vita flest ef ekki allt. En svo er líka til fólk sem spyr mann aldrei að neinu. Það getur líka verið slæmt. Stundum þarf maður smá forvitni til að koma því að sem brennur í brjóstinu. Það er því ótrúlega fín lína á milli þess að vera hnýsinn og að vera afskiptalaus og kannski frekar erfitt að finna réttu leiðina. Vill samt fólk vinsamlegast hætta að spyrja óviðeigandi spurninga.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim