laugardagur, febrúar 16, 2008

Myndir og Mói litli


Vorum að setja inn nýjar myndir af litla englinum okkar. Allir að kíkja á þær. Ekkert ofsalega fjölbreyttar samt, skvísan okkar er uppáhaldsfyrirsætan hjá pabba sínum og nánast allar myndirnar af henni. Fórum með hana í 3ja mánaða skoðun á Valentínusardaginn. Hún fékk sprautu og góða einkunn hjá læknum og hjúkrunarfræðingum. Orðin 6,6 kg og 63 cm sem þýðir að hún er búin að þyngjast um rúm 3 kg og lengjast um 11cm á þremur mánuðum. Það er því ekki furða að þessi litlu skinn gráti stundum, það fylgja þessum ógurlega vexti örugglega einhverjir vaxtaverkir.

Ég hef annars alltaf hálf hlegið að foreldrum sem finnst barnið sitt það fullkomnasta, fallegasta og mest spennandi sem gerst hefur í heiminum síðan sneitt brauð. Alltaf bara glott út í annað og jánkað þegar foreldrarnir byrja lofræðurnar um börnin sín og hvað þau séu nú fullkomin og yndisleg og hálf lofað mér í hljóði að ég yrði nú ekki svoleiðis þegar mitt barn kæmi í heiminn. En getið nú bara... ég held að ég sé verst af öllum. Finnst í alvörunni ekkert barn fallegra en mitt barn og finnst hún í alvörunni yndislegust og klárust og skemmtilegust osfrv. Er alveg viss um að þetta á bara eftir að fara versnandi. Þið hafið þvi tolerance fyrir því þegar ég fer að tala um hvað hún sé nú örugglega klárust og gáfuðust og allt það. En eitt er víst að hún er alveg ofsalega sæt, finnst ykkur ekki?

Hef líka verið að velta fyrir mér hvað hún er í raun að koma til okkar á fullkomnum tíma. Þótt maður hefði nú viljað fá hana kannski aðeins fyrr þá passar þetta allt eitthvað svo vel núna. Við erum búin að gera nánast allt sem okkur langar til, allavegana það sem ekki er með góðu móti hægt að gera með barn, nánast búin með grunnnámið í Háskólanum og algerlega tilbúin í þetta. Kannski vorum við bara ekki tilbúin að takast á við þessa breytingu fyrr en núna. Eitt er þó víst að litla krúttið okkar var meira en velkomin í þennan heim.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim