Annáll ársins 2007
Janúar
Eftir að hafa skálað ótæpilega mikið og oft fyrir nýju ári var komið að skuldadögum. Detoxið tók við og heilbrigðari lífshættir voru settir á dagskrá. Maður byrjaði aftur í skólanum, var að vinna á Primavera aðra hverja helgi og skrifa í Stúdentablaðið. Svo var auðvitað kíkt á nokkrar útsölur, haldin matarboð og vinkonurnar hittar. Annars var Janúar half tíðindalítill mánuður. Það var kalt og þá á maður að halda sig inni í hlýjunni.
Febrúar
Í febrúar gerðist það helst að ég tók Greys maraþon, Anna Nicole Smith dó og Britney Spears varð geðveik. Indriði varð 28 og við fórum í tilefni af því í helgartripp á Búðir sem var mega rómó. Ég fékk sumarvinnu hjá HF Verðbréfum eftir stutta leit og fór í miðannarpróf. Svo gerðist nú ekki mikið meira enda var þetta nú frekar stuttur mánuður.
Mars
Hápunktur mánaðarins er án efa að komast að því að ég væri orðin ólétt. Fátt sem toppar það. Fór samt í skvísuferð til Köben með Margréti sem var mega stemmari. Fyrir utan að ég gat ekki drukkið eins marga kokteila og ég hefði viljað. Við Indriði fórum á Forma tónleikana á Nasa og ég táraðist við að sjá Björk og hlusta á hana syngja. Svo komst maður ekki hjá því að sinna skólanum aðeins.
Apríl
Við hjónin fórum norður um páskana og sögðum foreldrunum tíðindin af barnabarninu sem væri á leiðinni. Það var afskaplega skemmtilegt. Skólinn tók ennþá meiri tíma enda prófin að nálgast óðfluga. Ég skellti mér á Bjarkar tónleikana í Höllinni með Katrínu og táraðist meira og fékk gæsahúð. Mér tókst að týna símanum mínum þegar ég fór að hitta ljósmóðurina í fyrsta skiptið og þurfti þess vegna að fá mér þennan nýja gullfallega síma. Miðbæjarbruninn var án efa einn stærsta frétt mánaðarins en svo lenti Guðrún systir líka í bílslysi sem var líka stór frétt. Prófin byrjuðu og við fórum sáum Hjónabandsglæpi í Þjóðleikhúsinu.
Maí
Var brjálaður mánuður. Það voru kosningar, Eurovision, próf, ný vinna og rosa gott veður. Bumban fór sístækkandi og tókst mér að fá starfsmaður ársins verðlaunin þegar ég mætti fyrsta daginn í nýju vinnunni og tilkynnti að ég væri ólétt, ójá! Stemmari í því! Allt kosningastússið fór í taugarnar á mér, mania á hæsta stigi og eurovision kom manni svo sem ekkert á óvart. Við hjónin fórum í mega kosninga/euro partý hjá Binna og Birtu sem var stemmari.
Júní
Við komumst að því að við áttum von á lítilli prinsessu og vorum við að sjálfsögðu alveg á bleiku skýji með það. Ég, Christína og Ragga fórum með familyurnar í bústaðarferð, borðuðum og spiluðum og höfðum gaman. Bumban fór sístækkandi, sólin skein og lífið var ljúft.
Júlí
Það sem bar hæst í þeim mánuði var helgarferðin okkar á Snæfellsnesið. Það var voða gaman hjá okkur. Annars leið tíminn í sól og sumaryl í miðbænum. Ég hitti vinkonurnar, það var drukkið fullt af kaffi, slúðrað og hlegið.
Ágúst
Mánuðurinn leið með sól og sprelli. Um verslunarmannahelgina vorum við fyrir norðan í dekri hjá fjölskyldunum. Indriði var í Varsjá á menningarnótt og ég var heima með bumbuna og gerði ekki margt. Undir lok mánaðarins fórum við til Barcelona í sumarfríið okkar. Það var algert æði, margt skoðað, borðaður góður matur og haft það huggulegt.
September
Árni Þóroddur kom í heimsókn og fékk að gista hjá okkur og Stefán vinur hans. Við fórum norður í réttirnar og skólinn byrjaði.
Október
Rei málið stóra, borgarstjóraskiptin, undirbúningur fyrir komu skvísunnar og skólastússið voru helstu málin í mánuðinum. Dagarnir fóru að líðar hægar og hægar eftir því sem styttist í settan dag.
Nóvember
Hápunktur ársins var án efa í þessum mánuði, nánar tiltekið þann 09. Þá lét litla skvísan okkar loksins sjá sig eftir uþb 40 klst puð við að koma henni í heiminn. Magnea Ósk er gullmolinn okkar og algerlega fallegasta barn í heimi. Skólinn spilaði svo smá aukarullu, samt afskaplega litla.
Desember
Skólinn, próf, jólinn og endalaust knús hjá okkur í fjölskyldunni var það sem einkenndi Desember. Lítið stress, nema rétt í kringum ritgerðaskilin, rölt á Laugarveginum og svo bara dútl og dund hérna heima. Hvað er líka annað hægt að gera þegar maður á svona sæta fjölskyldu til að dunda sér með?
Áramótaheitin eru í vinnslu. Skelli þeim vonandi inn á morgun eða hinn…
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim