Loksins eitthvað að gerast
Já það er hálfgerð ládeyða stundum hérna hjá okkur á Grettisgötunni og ekki frá mörgu öðru að segja en bleyjuskiptum, dúrum og gönguferðum. En nú er annað hljóð komið í strokkinn og aldeilis margt búið að gerast.
Ég er loksins búin að ákveða hvað ég ætla að skrifa um í blessaðri BA rigerðinni og búin að finna mér leiðbeinanda. Er reyndar ekkert búin að gera meira en það en þetta er allavegana byrjunin. Ætla að fara að gera alvöru úr því að byrja á þessu strax í byrjun næsta mánaðar. Þá er nefninlega Indriði búin í fæðingarorlofi og við píur verðum tvær eftir heima. Við ætlum því að nota þennan hálfa mánuð sem við eigum eftir saman í orlofinu og njóta lífsins og gera helst ekkert annað.
Ég er líka byrjuð í leikfimi. Fór í Kramhúsið og keypti kort og er búin að fara í einn jóga tíma. Fór svo líka í fimleikatíma uppi í Salahverfi með Sólveigu og fleiri hressum píum. Það var tekið svo hressilega á því að dagurinn í gær var undirlagður af einum rosalegustu strengjum sem ég hef haft lengi. Næsti tími er á laugardaginn og ég ætla að mæta aftur og vona að ég verði hressari eftir það. Það er líka fyndið að sjá hvað maður er orðin ryðgaður í trampolínhoppi og þess háttar. Var alltaf frekar hress og klár í því back in the days en þeir dagar eru liðnir. Vonandi var þetta bara eitthvað sem þurfti að rifja aðeins upp og ég verði sprækari á laugardaginn.
Þetta eru ekki einu fréttirnar af mömmunni heldur er hún líka komin í þennan líka kröftuga feminíska leshring. Hittumst í gær og vorum búnar að lesa grein eftir Sigríði Þorgeirs sem heitir ""Eðli" kvenna". Næst ætlum við að lesa bók og hittast svo og spjalla um hana. Hún hljómar og lítur ýkt spennandi út og heitir "Það er staður í helvíti fyrir konur sem hjálpa ekki hver annarri". Er mjög spennt að byrja á henni.
Litla daman dafnar voða vel. Orðin 5,850 gr, hjalar og hlær og er alveg farin að halda haus. Hún er líka farin að sofa úti 2 blunda á dag. Annað hvort förum við með hana út í göngutúr eða að hún leggur sig í vagninum á svölunum. Hún verður alltaf fallegri og fallegri með hverjum deginum. Þótt okkur finnist það varla hægt að verða sætari þá tekst henni það einhvern veginn. Við erum endalaust að knúsa hana og kyssa og fáum ekki nóg af litla krúttinu okkar.
Svo eru komnar nýjar myndir á myndasíðuna.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim