Helgin, pólitíkin og Tenderfoot
Jæja þá er þessi 4 daga helgi búin og alvaran tekin við. 5 daga vinnuvika framundan og því um að gera að spíta í lófana. Við hjónaleysin lágum með hor í rúminu eiginlega alla helgina, sem var fínt upp að vissu marki. Orðin samt pínu leið í gær og farið að langa að komast út. Okkur tókst allavegana að losna við flensuna með þessari inniveru okkar og erum ofsa glöð með það.
Það er búið að vera svolítið fyndið að fylgjast með öllu uppþotinu í kringum sjálfstæðis-plebbana um helgina. Allt brjálað út af Birni Bjarnasyni og jafnréttismálinu og Davíð og fjölmiðlafrumvarpinu. Það er greynilega komin pínu óróleiki í þá sjálfstæðissveina, Dabbi Kóngur að nota síðustu dagana í hásætinu til að lumbra á óvininum mikla og Bjössi Bjarna er nú bara eins og hann sé ekki uppi á réttri öld með þessa röksemdarfærslu sína. Það sem er gersamlega ofvaxið mínum skilningi er hvernig í ósköpunum fólk getur kosið þetta yfir sig ár eftir ár eftir ár. Ég get með engu móti skilið það hvernig sem ég reyni. Gleðifréttir helgarinnar í pólitíkinni finnst mér vera Kolbrún Halldórsdóttir og frumvarpið um bann við umskurði kvenna. Það er sjaldan sem þingmenn eru eins fyrirhyggjusamir og núna og mér finnst þetta alveg ótrúlega þarft og verðugt málefni.
Ég verð víst að viðurkenna það að í veikindunum um helgina var maður ekki mjög kræsin á sjónvarpsefni. Við sátum t.d. stjörf yfir Gísla Marteini á laugardagskvöldið, sem maður viðurkennir nú ekki á sig á hverjum degi. Ég verð samt að segja hvað mér fannst hljómsveitin Tenderfoot sem var í þættinum ótrúlega skemmtileg og hvað það kom mér ekki á óvart að hún væri "á barmi heimsfrægðar", eins og Gísli Marteinn sagði, hvað svo sem er til í því. Ég væri alveg vís til að kaupa með þeim plötu eða fara á tónleika með þeim væri það einhvern tíman í boði.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim