föstudagur, apríl 23, 2004

Því það er komið sumar...

Voðalega hef ég verið ódugleg við að skrifa hérna inn að undanförnu. Það er búið að vera tryllt að gera í vinnunni hjá mér, þótt ferðirnar séu búnar þá er öll úrvinnslan mikið til eftir. Gleðifréttir vikunnar eru:
no.1 Ég er orðin nettengd heima hjá mér
no.2 Það er komið sumar...
no.3 Ég er loksins búin að ákveða hvað ég ætla að gera næsta haust
no.4 Vinnuvikan var bara 3 dagar
no.5 Byrjuðum á tiltekt í fjármálunum
Þetta eru allt svo góðar fréttir að ég næ næstum því að hætta að pirra mig á Sex and the city sem var í gær. Hvað er málið með þennan gamla, krumpaða rússa? Ég er alls ekki nógu ánægð með þetta. Carrie er hægt og hægt að hætta að verða uppáhaldspersónan mín og Charlotte er alltaf að vinna meira og meira á. Vá hvað atriðið með Elisabeth Taylor var t.d. fyndið í gær!! Það eru svo bara 2 þættir eftir og ég vil ekki vera farin að hætta að fíla þættina áður en þeir hætta.

Gærdagurinn var annars afskaplega ljúfur. Indriði fór snemma í vinnuna og svefnpurkan ég svaf til hálf 11. Skellti mér þá með Chris Rock í ræktina og svo fórum við smá í pottinn á eftir. Ég held meira að segja að
ég hafi fengið smá lit. Veðrið var náttúrulega ÆÐISLEGT í gær, ekta veður fyrir sumardaginn fyrsta. Ég fór svo og sótti Dagnýju Björk, 3 ára skvísuna, og við fórum í bæjarferð. Gáfum öndunum niðri á Tjörn, fórum á kaffihús og spókuðum okkur í sólinni. Ég skilaði henni svo heim til sín svona um kl. fimm og fór og hitti Indriða minn og við fórum niður í bæ og fengum okkur ís í góða veðrinu. Það voru svo bara rosa mikil rólegheit hjá okkur í gærkvöldi, allir frekar þreyttir eftir alla útiveruna.

Í kvöld stendur svo til að fara í bíó á Kill Bill II. Maður verður held ég að sjá hana fyrst maður sá mynd 1. Ég er í fríi í dag og ætlaði að vera rosa dugleg og þrífa en er ekki byrjuð ennþá að taka almennilega til hendinni. Ég er samt búin að taka slatta til, en ekki búin að þrífa neitt. Búin að skoða svolítið mikið á netinu og held að ég sé búin að greina mig með sama sjúkdóm og Ragnhildur Berta, þ.e. Netsýki á háu stigi. Ef einhver veit um góð lyf eða lausnir við þessum hræðilega sjúkdómi vinsamlegast hafið samband.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim