laugardagur, janúar 28, 2006

Æðislega Thailand

Dagurinn í gær verður í minnum hafður sem dekurdagurinn mikli.

Hérna í Thailandi er yndislegt að vera. Hitinn er frábær, fólkið er vingjarnlegt, það kostar ekkert að versla hérna, maturinn er geggjaður og það er bara allt yndislegt. Gærdagurinn var t.d. mesti prinsessudagur sem ég hef upplifað. Byrjaði um morguninn á því að fara í vax og klukkutíma heilnudd sem var GEGGJAÐ. Fórum svo í rosa stórt moll, strákarnir vildu strax fara að skoða einhverjar græjur og hvað var þá fyrir okkur stelpurnar að gera á meðan? Það er ekki hægt að versla því þá verður bakpokinn svo þungur þannig að hvað gerir maður þá annað en að fara í handsnyrtingu, fótsnyrtingu og andlitsbað? Maður spyr sig bara... og krakkar þetta var geggjað!! Puttarnir og tásurnar eru mjúkir sem silki og andltsbaðið var æðislegt. Klukkutími af allskyns dekri, skrúbb og maskar og allskyns allskyns fínerí. Og hvað ætli allt dekrið hafi svo kostað? Það er sko það besta við þetta allt, þetta kostaði sama sem ekki neitt, fyrir allan pakkann borgaði ég 1.900 bath sem er uþb 3.000 kr. Dagurinn var svo kórónaður með því að við hjónin keyptum okkur voða fínar Diesel gallabuxur á 1.300 bath samtals. Alveg hreint voða fínar.

Fórum í fyrradag á slóðir ferðalanga á Kao San, sem er svona helsta túristahverfið hérna í Bangkok. Hostel úti um allt og litlar krúttaðar búðir, á hverju götuhorni hægt að fá afrófléttur eða dredda, kaupa thai-buxur og flotta boli og fleira fínt. Við töpuðum okkur líka aðeins í búðunum. Keyptum okkur bæði thai-buxur og þunna boli. Greinilegt samt að það er frekar auðvelt að tapa sér í því að vera túristi. Margir frekar gamlir og þreyttir þarna, komnir með leðurhúð, úrsérvaxna dredda og aðeins of mörg tattoo. Þannig að ef þetta kemur fyrir mig, ég verð orðin 50 ára, með hálft hárið bleikt og hinn helminginn í dreddum og krakkarnir mínir verða allir með dredda vill þá einhver pikka í mig. Því þetta er örugglega miklu auðveldara en það sýnist. Allavegana ELSKA ég að vera túristi. Og við Indriði erum strax farin að plana næstu ferð í huganum. Líka allir sem eru að spá að fara til Spánar í pakkaferð í sumar, miklu betra að koma hingað, kostar ekkert að vera hérna, miklu betra að versla og miklu betri matur. Dýrara að fljúga en allt annað ódýrara.

Erum að fara í kvöld með lest upp í norðurhluta Thailands alveg við landamærin við Laos. Erum búin að panta okkur second class sleeper vagn þar sem við ætlum að hanga í 11 tíma í svefnvagni með 40 öðrum. Verður spennandi að sjá hvernig það fer. Allir að kíkja á nýju myndirnar frá Kína sem Indriði setti inn í gær. Ætla að láta þetta duga í bili. Skrifa meira seinna.

Kop kun ka
Laufey

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim