Ó Christmastree
Það eru 3 dagar eftir þar til prófunum líkur en ég er löngu komin í andlegt frí. Metnaðurinn er horfinn, hræðslan er engin og ég er rólyndið uppmálað. "Þetta fer eins og þetta fer" er mottóið sem er búið að einkenna síðustu daga og kemur vonandi til með að ríkja þangað til á miðvikudag. Eina sem ég virðist hafa metnað fyrir þessa dagana er að skrifa eins og vindurinn inn á þess blessaða síðu. Verst að þetta er farið að þynnast aðeins út og umfjöllunarefnin farin að dala í gæðum. Þið hafið vonandi þolinmæði með mér og hættið ekki að fylgjast með þessu rausi mínu.
Helstu fréttir af Grettisgötunni eru þær að fallegasta jólatré á öllu Íslandi skreytir nú heimilið. Fyrsta jólatréð mitt og stráksins. Þrátt fyrir að hafa verið saman allan þennan tíma og haldið saman heimili síðustu 7 árin þá höfum við aldrei lagt í það að fá okkur jólatré fyrr en núna. Og þetta er fallegasta jólatré sem ég hef séð. Það er örugglega minnst stíliseraða jólatré í heimi samt og alls ekkert í tísku, Arnar Gauti myndi örugglega ekki gefa því neina toppeinkunn og Vala Matt myndi örugglega kalla það "sérstakt". Það er ekki eitt einasta svarta skraut á því, serían er marglit og skrautið er samansafn af dóti sem ég viðaði að mér á Hagkaupsárunum. Það er bara svona einhvern veginn. En ómægod hvað það er fallegt. Ég gæti eitt heilu og hálfu kvöldunum bara í að stara á það. Set örugglega inn myndir af því á næstu dögum. Því jólin eru að koma...
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim