föstudagur, desember 15, 2006

Hvað getur maður sagt?


Ég er yfirleitt síðasta manneskjan í heiminum til að viðurkenna mín ljósku-móment en þetta var einfaldlega of fyndið til að sleppa því. Er ennþá flissandi yfir þessu mörgum dögum seinna. Here goes:

Ég tel mig ekki vera lélega í landafræði. Hef ferðast og alltaf haft nokkuð góða hugmynd um heimsmyndina. Vitað hverjar helstu heimsálfurnar eru og hvaða lönd liggja saman og svona. Um daginn vorum við strákurinn að prufukeyra nýja Te og kaffi-kaffihúsið niðri í Austurstræti og fletta í gegnum ferðabækur í leiðinni. Við sátum þarna og létum okkur dreyma um fjarlæg lönd og var Suður-Ameríka áfangastaðurinn að þessu sinni. Lásum okkur til um Costa Rica, Belize, Honduras og síðast en ekki síst Nicaragua. Indriði kom með eitthvað gullið comment um það fallega land og hvað það væri nú gaman að fara þangað. Ég samsinnti honum í því og bætti því svo við að svo gæti maður náttúrulega líka skoðað fossana. "Hvaða fossa?" "Jú auðvitað Nicaragua-falls". Hann var týndur á svipinn í svona hálfa sekúndu og svo var eins og hann trúði ekki hvað var að gerast. "Þú meinar Niagra-falls, ...sem eru í Bandaríkjunum". Þá missti ég mig og dó úr hlátri. Og er ennþá að tryllast úr hlátri yfir þessu. Við rifjuðum þetta upp í gærkvöldi við hjónin og dóum aftur úr hlátri. Hvernig er hægt að láta svona út úr sér og vera MEST að meina það. Ég á mér náttúrulega ekki viðreisnar von. Hvernig er þetta hægt?

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim