þriðjudagur, janúar 02, 2007

Annáll ársins 2006

Í tilefni af því að árið 2006 er á enda og nýtt að byrjað þá ætla ég að nota tækifærið og rita hér einhverskonar annál. Það er óhætt að segja að árið hafi verið viðburðaríkt og það sé af mörgu að taka. Er búin að vera að lesa yfir bloggið hægt og hægt, skoða commentin og endurlifa hverja stund síðustu daga, það virðist eitthvað svo stutt síðan það var janúar og frekar ótrúlegt að það sé komin janúar strax aftur.

Janúar:
Eftir nokkurn undirbúning var 3. Janúar lagt af stað í aftakaveðri suður í Leifsstöð þar sem ferðinni var heitið til London. Þar hittum við Stínu og Sissa og fengum að gista hjá þeim í nokkra daga áður en ferðinni var heitið til Delhi á Indlandi með stuttri viðkomu í Frankfurt. Indland heilsaði okkur heitt og rakt og tókst að koma okkur á óvart nánast hver dag sem við dvöldum þar. Við fórum hringferð og sáum Bleiku borgina, Taj Mahal, Agra og Jaipur að ógleymdri ferðinni okkar um Gömlu Delhi. Frá Delhi flugum við til Bangkok og þurftum að dvelja á flugvellinum þar yfir nótt sem fer seint í sögubækurnar sem besta nótt ferðarinnar. Seint og síðar meir flugum við svo til Beijing þar sem tók á móti okkur ískalt loftið. Dúðuð í öll okkar föt skoðuðum við Kínamúrinn, grafir Ming Keisaranna, Torg hins himneska friðar og Forboðnu borgina. Við fórum í ekta kínverskt tehús og borðuðum Pekingönd sem var alveg yndilega góð. Undir lok mánaðarins vorum við svo komin aftur til Bangkok í hitann, farin að borða yndislega thailenska matinn og hafa það gott. Dekur af bestu gerð og ferð á flottasta spítala í heimi. Undir lok mánaðarins vorum við svo komin til Laos, búin að fara yfir Mekong ána og eyða yndislegum dögum í pínulitla bænum Nong Khai.

Febrúar:
Skoðuðum höfuðborg Laos sem heitir Vientiane í nokkra daga áður en við tókum flugið yfir til Hanoi, Víetnam. Skelltum okkur í bátssiglingu á Halong Bay með fullt af skemmtilegu fólki. Smátt og smátt fikruðum við okkur svo neðar í landið sem er langt og mjótt. Stoppuðum í Hue, Hoi An og létum sauma á okkur heilan helling af fötum, Na Trang þar sem við héltum upp á afmælið hans Indriða og fórum svo þaðan til Saigon eða Ho Chi Minh City. Í þeirri merkilegu borg sáum við karlinn (HoChiMinh) uppstoppaðan í voða fínni grafhvelfingu sem var frekar steikt, hittum fullt af skemmtilegu fólki og skemmtum okkur konunglega. Síðustu dögunum í Víetnam var eytt í siglingu um Mekong Delta svæðið sem er vatnasvæðið í kringum Mekong ánna neðst í Víetnam. Við sigldum yfir til Kambodíu og eyddum nokkrum dögum í Phnom Penh við að skoða stríðsmynjarnar frá tímum Pol Pot. Kynntumst Toni og Janinu sem eru æðislegir finnskir krakkar sem við erum ennþá í sambandi við. Fórum svo með bát til Siem Reap til að skoða Angkor hofin sem voru æðisleg. Indriði fór á spítala og daginn eftir fórum við í verstu rútuferð ferðarinnar (en þær voru mjög margar vondar). Mánuðurinn endaði svo með heitri sturtu og grænu karrýi á Asha Guesthouse í Bangkok í Thailandi.

Mars:
Vorum örfáa daga í Thailandi og fórum svo þaðan til Singapore. Við vorum bæði mjög hrifin af því landi þó Indriða hafi fundist það aðeins of fullkomið til að vera satt. Skoðuðum dýragarð, sjávardýrasafn og fengum okkur Singapore Sling á 70. hæð á e-m skýjakljúfri. Flugum þaðan til Ástralíu, skoðuðum óperuhúsið, klöppuðum koalabjörnum og kengúrum, sáum ólympíuþorpið og höfðum það huggulegt. Frá Ástralíu flugum við aftur í tímann, yfir daglínuna til litlu eyjunnar Rarotonga þar sem við vorum í tvær vikur í sól og blíðu í góðu yfirlæti. Gerðum mest lítið nema spila, liggja í sólbaði og hafa það huggulegt. Frá Raro flugum við til LA með stuttu stoppi á Tahiti. Vorum í uþb viku í LA hjá Al og Nennu sem er frænka Indriða. Skoðuðum ótrúlega margt, fórum í Universal Studios, Six flags, Rodeo Drive, túristaferð til að sjá heimili stjarnanna og margt fleira. Það var æðislegt að vera í LA og ég væri meira en til í að fara þangað aftur.

Apríl:
Vorum viku í Seattle. Skoðuðum allskyns, fórum á íshokkíleik, á fiskmarkaðinn, leigðum okkur bíl og keyrðum um í einn dag, hittum Atla Levy og sáum húsið sem Indriði og family bjuggu í þegar þau voru þarna. Fórum svo þaðan til New York baby sem var æðislegt og ég ætla að fara aftur þangað á næsta ári. Central Park, Times Square, Rockefeller center, Brooklyn bruin, allar fínu búðirnar og bara allt þarna var svo æðislegt eitthvað. Langar að flytja þangað. Flugum til London og stoppuðum þar í nokkra daga og svo stefnan sett heim á leið. Komum heim um miðjan mánuðinn og fljótlega féll allt í ljúfan löð og varð eins og maður hefði aldrei farið neitt.

Maí:
Ég byrjaði að vinna hjá Húsasmiðjunni og tók strætóinn á hverjum morgni. Ekkert allt of skemmtilegt, hvorugt. Mamma varð 50 ára og fór fjölskyldan saman á Lækjarbrekku af því tilefni. Ég kaus og hélt áfram að agnúast út í menn og málefni og hafa skoðun á allt of mörgu.

Júní:
Við seldum íbúðina á Þinghólsbrautinni. Fórum á Reykjavík Tropic sem var alveg frábært og rosalega gaman. Ég fékk Lancerinn lánaðann hjá mömmu og varð sjúklega ástfangin af Jeff Who? Við keyptum okkar íbúðina á Grettisgötunni og byrjuðum strax að huga að endurbótum. Ég og Guðný Ebba eyddum ómældum tíma á kaffihúsum, aðallega Prikinu, í spjall, slúður og kaffiþamb.

Júlí:
Vorum öll kvöld og helgar í íbúðinni á milli þess sem við sinntum dagvinnunum og stöku kvöldvöktum. Mikið rifið út, margar ferðir í Sorpu, mikið ryk, margar ferðir í allskyns skrítnar búðir til að kaupa skrúfur. Maggan og Robbinn komu og hjálpuðu okkur að mála og ma og pa komu og hjálpuðu okkur smá í svona 3 klst annars gerðum við þetta allt sjálf. Finnst við vera ótrúlegar hetjur og hefði aldrei grunað að husbandið væri svona handlagið. Hann er alger snillingur þessi drengur. Ég drakk ennþá meira kaffi með Guðnýju.

Ágúst:
Fyrsta helgin var nýtt í það að flytja. Andrés, Auður og Guðný fengu hetjuverðlaunin fyrir að koma og hjálpa okkur að bera búslóðina hérna upp stigana. Fyrstu dagana var allt í rúst og í raun má segja að það sé ekki ennþá komið í fullkomið lag. Við áttum eins árs brúðkaupsafmæli og héldum upp á það. Flestum okkar stundum var samt sem áður varið í það að koma okkur fyrir í íbúðinni, smíða, laga, breyta og bæta. Rockstar æðið reið yfir og mörg kvöld fóru í það að vaka yfir honum Magna okkar.

September:
Skólinn byrjaði að krafti strax á fyrsta degi. Fögur fyrirheit um hangs á kaffihúsum urðu að engu og blessaðar skólabækurnar hrópuðu á athygli manns af einum of miklum krafti. Stína mín kom í heimsókn, ég kom mér í ritnefnd Stúdentablaðsins, Guðnýjin mín fékk loksins húsnæði og hélt að sjálfsögðu teiti af því tilefni, ég fór í gönguna hans Ómars.

Október:
Ég átti afmæli og að því tilefni héldum við strákurinn afmælis / innflutningsteiti sem var æðislegt. Við skelltum okkur í bústað eina helgi en annars var skólinn gersamlega að drepa mann með óendanlegum fjölda verkefna og prófa. Í raun átti maður sér ekkert líf. Fórum með Chris, Odda, Röggu og Herði að borða á Við tjörnina.

Nóvember:
Skólinn átti hug manns allan. Fórum í afmæli hjá Ístak í nýju Laugardalshöllinni. Ég var samt ótrúlega dugleg að hitta skemmtilegu vinkonur mínar sem eru alltaf í stuði. Á stærstu tónleikahelgi ársins þurfti ég endilega að vera lasin. Var með höfuðverk og nefrennsli á Sykurmolatónleikunum og Sufjan Stevens. Báðir tónleikarnir voru samt æði, maður lætur sig hafa ýmislegt. Þessi flensa var samt upphafið á miklu læknadrama hjá skvísunni, nenni ekki að fara yfir það aftur, mjög leiðinlegt.

Desember:
Prófamánuðurinn rann upp og þá færðist nú aldeilis líf í bloggið. Kaffi, ullarsokkar, ullarpeysa, piparkökur og Bókhlaðan er það sem helst einkenndi þessa prófatörn. Elsku vinkonur mínar þær Katrín og Auður voru duglegar að kippa mér með á Hlöðuna og við að æsa hvora aðra upp í lærdómnum. Svo komu jólin með tilheyrandi ferðum norður í land þar sem við eyddum góðum dögum í faðmi fjölskyldunnar. Núna er komin partý fílingurinn, áramótin að renna upp, steikin komin í ísskápinn og allt að verða ready.


Gæsahúð ársins:
Að sjá Taj Mahal

Skemmtun ársins:
Tropic er ofarlega á listanum en ég held að reisan í heild verði að flokkast sem skemmtun ársins.

Hláturskast ársins:
Vá þau eru sko mörg …uuu ég á svo skemmtilegar vinkonur að flestar stundir með þeim eru eitt stórt hláturskast

Pirringur ársins:
Að vera í leiðinlegri sumarvinnu og að láta leiðinlegt fólk fara í taugarnar á sér.

Par ársins:
Margrét og Róbert

Kona ársins:
Guðný Ebba ...en eiginlega líka allar hinar vinkonur mínar ...þið eruð búnar að standa ykkur á árinu

Maður ársins:
Hann Indriði minn að sjálfsögðu

Vonbrigði ársins:
Að það kom engin að ná í okkur í Leifsstöð þegar við komum til landsins

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim