miðvikudagur, febrúar 07, 2007

28+8

Það er þannig þessa fyrstu daga febrúar að það er skammt stórra högga á milli í hátíðis- og tillidögum hjá Grettisgötu hjúunum. Helst ber að nefna afmæli hjá húsbóndanum, 28 ár hvorki meira né minna, og þar sem ég var svo sniðug að næla mér í hann viku áður en hann átti tvítugsafmæli þá helst sambandsárafjöldin í hendur við afmælisaldurinn. 28 ár þýða 8 ára afmæli sambandsins. Við erum búin að vera hlið við hlið nánast þriðjung ævinnar. Sem mér finnst ótrúlegt. Í tilefni af tillidögunum þá er planið að fara út að borða á laugardagskvöldið, frúin er búin að panta borð á afskaplega leynilegum stað.

Það sem ber hæst þessa daga í skólanum er náttúrulega þessar blessuðu kosningar til SHÍ. Ég er búin að kjósa og átti í nokkrum vandræðum með hvar ég ætti að setja krossana minn. Held samt að þeir hafi ratað á rétta staði. Ég er annars frekar ósátt við fyrirkomulagið á þessu.
Finnst ekki heillandi til þess að hugsa að einhver fylkinganna nái meirihluta.
Finnst ekki heillandi þessi barátta innan skólans.
Finnst ekki heillandi að allt púðrið fari í það að ná völdum en minna púður í aðgerðir eftir kosningar.
Ég vildi óska að staðan gæti verið óbreytt eftir kosningarnar, að stóru fylkingarnar tvær vinni saman að skipulagningu mála og að bættum hag stúdenta. Ég dáist þó að fólkinu sem nennir að standa í þessari hagsmunabaráttu, ég er einfaldlega allt of löt til að nenna einhverju svona. Vonandi heldur eldmóðurinn áfram eftir kosningarnar og vonandi halda frambjóðendur áfram að berjast fyrir hagsmunum stúdenta af jafn miklum krafti og þeir berjast fyrir eigin yfirráðum og völdum innan Stúdentaráðs.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim