Jólin, jólin...
Jólin hérna í sveitinni hafa verið æðisleg. Rólegheit og afslöppun eins og best verður á kosið. Þorláksmessa var með svipuðu sniði og venjulega, síðustu þrifin voru kláruð, nokkrar smákökur bakaðar og svo var auðvitað skreytt. Ég og Guðrún systir erum sérlegir skreytingameistarar og höfum mjög ákveðnar skoðanir á jólatrésskrautinu. Einkunarorð okkar eru: More is more og stöndum við okkur eins og hetjur í því að troða eins miklu skrauti á blessað tréð og hugsast getur. Það getur nefninlega verið hálf tricky svona undir restina að finna lausar greinar undir síðustu kúlurnar því eina reglan okkar er að það má ekki vera meira en eitt skraut á grein. Við höfum allavegana einhverjar reglur. Síðan var farið um allt hús með gamla skrautið sem safnast hefur í gegnum áranna rás, misjafnlega fallegt en allt með endlausa sögu. Hver hlutur á sér sinn stað þótt við systur höfum verið kærulausari þessi jólin með það en oft áður.
Á aðfangadag var svo soðið og borðað hangikjöt, með bestu lyst að sjálfsögðu. Þegar loksins átti að fara að borða sofnaði Magnea Ósk og svaf eins og engill þar til pakkarnir voru allir horfnir undan trénu. Litla krúttið fékk náttúrulega endalaust mikið af gjöfum, þótt hún hafi nú misst af því þegar þær voru opnaðar. Það er svo fyndið að hugsa til þess að næstu jól þá verður hún farin að hlaupa um og rífa kúlurnar af trénu og örugglega farin að segja nokkur orð. Mikið hlakka ég til.
Dagurinn í dag er svo búin að fara í ennþá meiri rólegheit. Harðskafi Arnaldar var tekin úr plastinu og er ég komin inn í hálfa bók. Hún verður kláruð á morgun. Við fengum okkur svo göngutúr um búið með Magneu í vagninum og kíktum á kálfa og kindur. Litla krúttið svaf af sér þessa fyrstu vettvangsferð og sá þess vegna ekki mikið af stórbýlinu. Svo er búið að spila Sequence sem Óli bróðir fékk í jólagjöf. Það er voða skemmtilegt spil og er ég ekki frá því að við kaupum okkur svoleiðis þegar við komum aftur suður. Indriði er búin að vera að lesa undir prófið sem hann fer í eftir áramótin. Er með voða þykka bók, How to crack the GRE, sem hann les samviskusamlega hvenær sem færi gefst.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim