fimmtudagur, desember 20, 2007

Lokaspretturinn

Já það er bæði lokaspretturinn á síðustu ritgerðinni í ár og lokaspretturinn fyrir jólin.

Á eftir að skrifa svona 500 orð í þessari blessuðu ritgerð. Beið með það alveg fram á síðustu stundu að byrja á henni. Það var allt of notalegt að vera í jólastússinu, baka og hafa það huggulegt með litla skottinu mínu. Það var þess vegna frekar erfitt að setjast aftur niður og byrja að skrifa þessa blessuðu ritgerð. Hún er samt langt komin núna og það ætti að hafast að skila henni í kvöld. Við ætlum svo að leggja í hann norður á bóginn á morgun þar sem það stendur til að gefa skvísunni nafn á laugardaginn. Mamma er búin að vera sveitt heima í sveitinni að prjóna skrínarkjól sem ég hlakka ótrúlega til að sjá.

Litli strumpurinn okkar búin að vera hálf pirruð eitthvað. Tók nokkrar nætur í röð þar sem hún orgaði frá miðnætti til svona fimm um morguninn. Erum búin að vera að mixa allskyns til að láta henni líða betur. Ég búin að taka fullt út af matseðlinum hjá mér, hún komin með dropa frá grasalækni og svo kom hérna höfuðbeina og spjaldhryggs-galdrakona í gær sem ég held að hafi gert útslagið. Allavegana var hún miklu betri í nótt heldur en í fyrrinótt og svaf bara eins og engill. Fórum með hana í skoðun í dag og hún er orðin 5,4 kíló, litli stubburinn alltaf að bæta á sig fleiri og fleiri fellingum.

Annars er jólaundirbúningurinn nokkurnveginn búin. Búin að skrifa jólakort og senda. Búin að kaupa flestar jólagjafirnar og pakka þeim inn. Búin að baka 3 smákökusortir og borða flestar kökurnar reyndar líka. Þannig að þetta er allt að smella.

Það eru svo komnar nýjar myndir inn á myndasíðuna.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim