mánudagur, maí 24, 2004

Hverfið mitt góða..

Ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu að hverfið mitt sé það rólegasta og besta í öllum Kópavoginum. Það hefur alltaf verið svona pínu sveita-fílingur á þessu litla nesi og aldrei verið neitt sem raskar ró manns. Atburðið undanfarna daga hafa samt valdið þess að ég hef þurft að endurskoða þessa meiningu mína.

Á fimmtudaginn eftir Sex and the city datt nágranna okkar sú snilld í hug að þetta væri besti tíminn til að láta reyna á trúbadorahæfileikana. Hann spilaði og söng hina ýmsu slagara með Bubba Mortenns, sem eru reyndar flestir ágætir, lagið sem fyllti hinsvegar mælinn var La Bamba sem var á dagskránni í kringum eitt eftir miðnætti. Þá reis minn yndislegi sambýlismaður úr rekkju og stöðvaði prógramið.

Hitt atvikið sem kallaði á þessa endurskoðun mína gerðist í morgun. Ég var vakin kl. nákvæmlega 7:15 í morgun þegar þjófavörn í bíl fór í gang. Ekki nóg með það að bíllinn hafi verið á bílaplani sem er við hliðina á húsinu mínu heldur flautaði þessi þjófavörn í svona 15 mínútur áður en slökkt var á henni. Ég varð ofsa glöð þegar þetta hætti og lagðist aftur á mitt græna eyra. Svona 10 mínútum seinna fór hún aftur í gang við lítinn fögnuð. Þjófavörnin pípti í aðrar 10 mínútur í þetta skiptið. Þá var ég orðin svo afskaplega geðvond að ég hugsaði með mér að ég hlyti að eiga það skilið að leggja mig aðeins lengur. Það var þess vegna ekkert svo ofsalega glöð Laufey sem mætti í vinnuna í morgun, allt of seint, ómáluð og með hárið út í loftið.

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim