Sólarfréttir
Það er alveg merkilegt hvað borgin okkar hefur lifnað við síðustu daga. Hvert sem maður fer er fólk úti að spóka sig. Allir eru búnir að dusta rykið af hjólunum, línuskautunum, stafgöngustöfunum (ég ætla samt ekki að ræða það neitt meira hérna hvað það er hallærislegt) og konur með barnavagna hafa aldrei verið meira áberandi en nú. Það er líka alveg æðislegt hvað maður getur séð aðra hlið á borginni þegar maður er á hjóli. Ég og strákurinn erum búin að vera aðeins að hjóla undanfarna daga, þrátt fyrir mikið annríki, og erum bæði held ég orðin alveg ennþá meira hrifin af borg óttans. Það eru göngu og hjólaleiðir út um allt bókstaflega. Um daginn fórum við heiman frá okkur og hjóluðum allan Fossvoginn og sem leiði liggur í Elliðaárdalinn. Þangað hafði ég aldrei komið áður og þvílík paradís. Þið ykkar sem hafið ekki komið þangað verðið endilega að skella ykkur. Fólk er líka einhvern veginn léttara í lundu þegar veðrið er svona gott, allir eru léttklæddir og í léttu skapi. Ég held að ég hafi á þessum rúmu tveimur vikum sem ég er búin að vinna í bankanum lent á einum erfðum viðskiptavini og vil ég halda því fram að það sé vegna veðurs.
Ég er annars búin að fá allar einkunnirnar mínar og er bara sæmilega sátt við þær. Í raun betri árangur en fyrir áramót svona raðlægt séð og svipuð meðaleinkunn. Ég er bara ofsalega glöð að vera búin að fá út úr öllum prófunum og vera búin að ná þeim öllum. Ég bjóst líka ekki við að þetta hefði gengið svona vel því mörg prófin voru herfilega erfið.
Helstu fréttirnar eru samt mikil afmælisalda sem er að dynja yfir okkur núna. Pabbi varð 50 ára 29. Maí, Ísak varð 25 ára sama dag og svo átti tengdó afmæli 2. Júní. Eyrún systir á svo afmæli 6. Júní og Stína vinkona 7. Júní þannig að það er allt að gerast í afmælisdeildinni. Ég ætla því að nota tækifærið og senda síðbúnar / snemmbúnar afmæliskveðjur til ykkar allra.
Núna er ég stödd á Kirkjustétt að passa lítinn orm sem heitir Veigar Már. Hann situr stjarfur yfir Stubbunum á meðan barnapían hangir í tölvunni :o) ...ekki gott. Hann er svo mikil rúsína að það er varla hægt að lýsa því. Þið getið kíkt á myndir af litla dýrinu og familyunni hans á síðunni hjá Röggu.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim