Fréttir af frúnni...
Já núna er maður orðin ráðsett frú... Efast reyndar um að ég geti nokkurn tímann orðið mjög ráðsett frú, allt of drykkfelld til þess held ég. En ég er allavegana komin í hóp giftra kvenna og það er eitt skref í áttina. Við strákurinn gengum í það heilaga dýrðardaginn 20. Ágúst í blíðskaparveðrið í Skagafirðinum. Dagurinn var í einu orði sagt fullkominn. Hefði bara ekki getað heppnast betur og allt var yndislegt. Þið getið kíkt á einhverjar myndir hjá Kollu. Núna er maður bara að nota tímann í fríinu langþráða til að slappa af og hafa það huggulegt með eiginmanninum. ...ætli ég verði að hætta að kalla hann strákinn núna? Fórum í fyrradag á Snæfellsnesið og lékum ferðamenn í sólarhring eða svo. Fórum á Búðir og fengum okkur að borða þar í góðu yfirlæti yndislegan mat. Keyrðum svo á Arnarstapa þar sem við gistum við rætur Snæfellsjökuls. Alveg yndislegt að ferðast þarna um og ekkert smá fallegt allt nesið. Ætlum sko að fara aftur þarna fljótlega og skella okkur upp á jökulinn og kannski út í Flatey og vera þar í einhvern tíma. Hugmynd fyrir næstu verslunarmanna helgi kannski...
Annars er það helst að frétta að skólinn er að fara að byrja og lífið er allt að komast í sinn vanagang. Hlakka rosa mikið til að byrja aftur í skólanum. Er alveg búin að komast að því í sumar að það fer mér ekki að vinna. Er orðin allt of vön því að ráða mér sjálf og passa því ekki mjög vel í fyrirtækis-kaffitíma-matartíma-mynstrið. Ætla að vera miklu duglegri þessa önnina að hanga á kaffihúsum en ég var í fyrra. Eiginlega allt of samviskusöm allt síðasta ár. En ætli þetta sé ekki komið gott í bili. Fáið frekari fréttir af giftu konunni von bráðar. Stefni að því að vera miklu duglegri að tjá mig um hina ýmsu menn og málefni þegar skólatörnin byrjar. Þar til síðar...
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim