Kurt, Árni og Ómar
Núna þegar Rockstarið er búið eru allir farnir að sofa vel á nóttunni aftur. Magni komin heim í faðm fjölskyldunnar og fólk hætt að tala saman á kaffistofum bæjarins. Það var nú samt fleira gott sem fylgdi Supernova heldur en stóra tækifærið hans Magna. Ég er t.d. búin að enduruppgötva gamla nostalgíu tónlistina. Er búin að vera með Nirvana og Pearl Jam á hæsta styrk undanfarna daga á power-walkinu mínu á leiðinni í skólann. Mikið er þetta skemmtilegt allt saman, enda hef ég oftar en einu sinni virkilega þurft að taka á mínum stóra til að taka ekki undir með honum Cobain heitnum.
Heyrði fyndið hugtak um daginn sem ég hef ekki heyrt frekar lengi. Hugtakið var BORARALEG ÓHLÝÐNI. Og mér datt strax einn vinur minn í hug. Þessi strákur er núna í London að læra að vera sálfræðingur og heitir Árni Þóroddur. Hann er eini maðurinn sem ég hef heyrt nota þetta orð áður en ég heyrði það í tíma um daginn. Og fór næstum því að hlæja af tilhugsuninni um þennan ágæta dreng. Enda er hann með afbrigðum skemmtilegur og fyndinn og notar ótrúlega fyndin orð.
Fór í gönguna í fyrradag. Mótmælti og klappaði og fagnaði og var einn af dropunum í ánni hans Ómars Ragnarssonar. Og ég er ótrúlega stolt af því. Ég hef í raun og veru verið að mynda mér skoðun á þessu máli frekar lengi. Búin að sveiflast á milli skoðana, búin að skoða málið og er komin á niðurstöðu. Kannski eins og Ómar. Þetta er meiri vitleysan. Fannst ótrúlega gaman að hlusta á alla sem töluðu á Austurvelli og fannst sérstaklega góð ræðan hjá prestinum, fannst hún frábær. Það er í raun og veru fáránlegt að ríkisstjórnin sé að leggja svona stóra framkvæmd á hagkerfið okkar, sem var ofþanið fyrir. Gott og gilt að framleiða umhverfisvæna orku, ég vil það mikið frekar en kjarnorkuver eða eitthvað í þá áttina. En að búa til svona stóra stíflu, svona stórt lón, stórt mannvirki fyrir eitt álver í viðbót finnst mér fáránlegt. Er ekkert til annað en álver? Maður spyr sig. Ég segi bara ÁFRAM ÓMAR og vonandi hlusta þessir blessuðu ráðamenn á það sem hann hefur fram að færa.
Í tíma í dag sagði ein konan þegar hún var spurð af hverju hún væri svona fín til fara. Klædd í svart frá toppi til táar. "Þetta er jarðarfara dressið mitt". En hún var ekki á leiðinni í neina jarðarför aðra en þá sem er þegar hafin fyrir austan þar sem hún var í anda.