miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Ferðalagið og "fjölskyldan"

Þótt ég hafi aðallega verið að lista upp í huganum undanfarið hvers ég kem ekki til með að sakna hérna á klakanum þegar við förum út, þá fattað ég allt í einu að það eru alveg hlutir og kannski aðallega fólk sem ég á eftir að sakna. Þær sem ég kem til með að sakna örugglega hvað mest eru bestu vinkonur mínar og "fjölskyldan" mín þær Ragga og Christína. Þær eru búnar að vera mín stoð og stytta í gegnum súrt og sætt síðan ég flutti til borgarinnar og ég á eftir að sakna þeirra fullt þegar ég fer í burtu enda eru þær alveg frábærar. Það verður örugglega smá sjokk að geta ekki hringt og spjallað um allt og ekkert, tímunum saman, þegar maður er komin til Asíu. Ég kem líka til með að sakna litlu krílanna þeirra fullt enda finnst mér ég eiga smá part í þeim öllum, allavegana eina tá á hverju. Vona bara að litlu ormarnir gleymi mér ekki á meðan ég er í burtu ;o)

mánudagur, nóvember 28, 2005

Kemur svo sem ekki a ovart


Skáldajötunn

Þú ert nýjungagjarn, tilfinningaríkur innipúki.
Skáldajötunninn er svo opinn fyrir nýjungum á sviði lista og menningar að honum tekst að sjá list út úr óbreyttri skranhrúgu eða einmana slettu á striga. Skáldajötunninn tekur til í herberginu sínu og kallar það listrænan gjörning. Hann er mjög líklega með óskrifaða skáldsögu í hausnum eða óútgefna bók í skrifborðsskúffunni, þ.e. ef hann hefur ekki þegar fengið bók sína útgefna.

Skáldajötunninn lifir fyrir listina og myndi frekar kaupa blek fyrir fjaðurstafinn sinn heldur en brauðhleif þótt hann hefði farið án matar svo dögum skipti. Hann unir sér vel einn með eigin hyldjúpu hugsunum.

Hvaða tröll ert þú?

Óráðið...


Klukkan er 7:30 og hérna sit ég heima hjá mér með kaffibollan minn yfir hagrannsóknabókunum og er byrjuð að læra. Þvílíkur dugnaður í manni eftir heila helgi af því að liggja í rúminu. Maður er einhvern veginn svo fullur af ónotaðri orku sem verður einhvern veginn að fá útrás. Í veikindunum tókst mér að horfa á alla síðustu seríuna af Sex and the city sem besti maðurinn minn keypti handa mér í Noregi og sofa í allt of marga klukkutíma.

Ég er eirðarlaus. Mig langar að flytja eitthvað langt, langt í burtu. Get ekki beðið eftir að prófin séu búin og ég geti drifið mig af stað í ferðalagið. Í óráðinu á laugardaginn fékk ég þá flugu í höfuðið að það væri smartast að flytja til Parísar og meira að segja nefndi það við Indriða. Það hefur mögulega eitthvað með maraþon-áhorf mitt á Sex and the city að gera. Fattaði samt í gær að ég kann ekki frönsku og myndi sennilega ekki geta gert neitt í París nema sitja á kaffihúsum. Ég tala nú samt smá dönsku þannig að núna langar mig að flytja til Kaupmannahafnar og helst fara þangað í skiptinám næsta haust. Góð hugmynd? Indriði sagði mér nú reyndar að bíða aðeins með þetta. Eftir að við kæmum heim úr ferðalaginu myndi mig kannski langa til að flytja til Víetnam. Hann vill meina að ég sé svolítið hrifnæm. Sem er e.t.v. ekki fjarri lagi.

sunnudagur, nóvember 27, 2005

Timasetningar...

Já á ögurstundu þá er ég orðin lasin. Sit hérna heima hjá mér með hor, hóstandi og hnerrandi og lít vægast sagt illa út. Búin að vera í dúnsokkunum mínum, tveimur flíspeysum og með trefil í tvo daga og er ekki að meika það. Þetta áttu að vera hagrannsóknar-lærdóms-dagar skv. masterplaninu... pirringur.

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Próf, próf...

Jæja núna eru sko prófin að skella á og ég hef einhvern veginn aldrei verið eins illa undirbúin og aldrei eins slök á því... ekki alveg að skilja það. Ætti með réttu að vera á barmi taugaáfalls en er einhvern veginn of stressuð og á eftir að gera of mikið til að byrja á þessu. Sit hérna heima hjá mér að læra stærðfræði, hlutapróf á morgun og er EKKERT stressuð... meira hvað maður er steiktur.

Maðurinn er annars að fara að yfirgefa mig í fyrramálið og fram á föstudag. Hann er að fara til "tjúttlandsins" Noregs (hehehe) á ráðstefnu tengda vinnunni. Ætla samt að vona að það séu einhverjar búðir þarna því hann verður að kaupa eitthvað fallegt handa mér áður en hann kemur heim. Langar mest af öllu í eitthvað glitrandi en veit ekki alveg hvort hann sé maður í að kaupa svoleiðis ...eða falleg jólaföt, en hann myndi aldrei leggja í að kaupa þannig handa mér. Kannski ég óski mér bara einhvers geisladisks eða dvd myndar... svo hann fái ekki heilablóðfall af áhyggjum við að finna gjöf handa mér.

Var áðan hjá húðsjúkdómalækni og hann langar voða mikið til að skera af mér fleiri fæðingabletti. Ég er nú ekkert ofsa mikið til í það en ætli maður verði ekki að gera það sem hann segir. Hann er nú einu sinni frekar klár karl. Hann bókaði mig 21. desember þannig að ég verð öll sundur-skorin og saumuð á jólunum. Ekki alveg mesta stuðið, ég verð nú að viðurkenna það. En ég nær próflokadjamminu áður en ég þarf að leggjast undir hnífinn sem er gott. Er eiginlega strax farin að hlakka til að fagna próflokum. Þá er líka svo svakalega stutt í jólin og stutt í að við förum út. Jibbý jibbý...

sunnudagur, nóvember 20, 2005

Kjanahrollurinn

Eru ekki fleiri en ég sem fá BRJÁLAÐAN kjánahroll þegar þeir sjá auglýsingarnar fyrir glataða þáttinn hennar Sirrýjar? Maður hefur nú svo sem séð þær margar vondar, stressþáttinn, læknaþáttinn og margar margar fleiri. Mér finnst nú samt þessi síðasta sú ALLRA versta. Þegar hún situr á umferðarmiðstöðinni, jarmar og kyssir sviðakjamman gefur manni þann allra versta kjána-aumingja-hroll niður hryggsúluna sem hefur nokkurn tímann fundist. Þetta er alveg hræðilegt. Hverjum í ósköpunum finnst þetta sniðugt, smart eða töff? Hefur enginn séð þetta eiginlega? Þetta er alveg hræðilegt. Þetta er svo hræðilegt að ég get varla horft á þetta.

Annars er allt fínt að frétta hjá frúnni, það styttist alltaf í ferðina okkar. Prófin alveg að koma og ég að fara í síðasta hlutaprófið á miðvikudaginn. Þannig að það er allt á fullu eins og venjulega. Við erum svo að reyna að plana jólin og hvernig við ætlum að hafa þetta. Stefnan er tekin á að reyna að halda kveðjupartý áður en við förum, ná að pakka öllu niður, ganga frá íbúðinni, fara aðeins norður, jafnvel vera hérna fyrir sunna um áramótin og fara út 3. janúar. En Nota bene samt reyna að vera í fríi eitthvað... veit ekki alveg hvernig.

Jæja, Maria full of grace er loksins komin í tækið og ég ætla að fara að horfa...

þriðjudagur, nóvember 15, 2005

Kitl

Já það er víst... Hérna kemur þetta:

Sjö hlutir sem ég ætla að gera áður en ég dey:
1. Eignast barn
2. Mennta mig rosa mikið
3. Kaupa mér undurfallegt heimili
4. Ferðast um heiminn þveran og endilangan
5. Láta gott af mér leiða
6. Búa erlendis
7. Verða forstjóri

Sjö hlutir sem ég get gert:
1. Hangið endalaust á netinu
2. Verið góð við manninn minn
3. Unnið
4. Borðað rosa mikið popp
5. Eldað góðan mat
6. Prjónað og heklað
7. Eytt peningum og verslað

Sjö hlutir sem ég get alls ekki gert:
1. Safnað peningum
2. Skipulagt mig
3. Mætt á réttum tíma
4. Staðist freistingar
5. Hætt að elska manninn minn
6. Hætt að vera tapsár
7. Hætt að borða popp

Sjö hlutir sem heilla mig við hitt kynið:
1. Augun
2. Persónuleikinn
3. Brosið
4. Röddin
5. Hendur
6. Axlir
7. Hárið

Sjö frægir menn sem heilla:
1. George Clooney
2. Orlando Bloom
3. Jude Law
4. Vin Diesel
5. Chris Noth
6. Viggo Mortensen
7. Johnny Depp
- Brad Pitt er viljandi ekki á listanum.

Sjö orð eða setningar sem ég nota mikið:
1. Töff
2. Kúl
3. Djók
4. Right
5. Glætan
6. Hæ
7. Ég elska þig
- hljómar ekkert voðalega gáfulega neit...

Sjö hlutir sem ég sé eimmitt núna:
1. Tölvuna
2. Símann minn
3. Töskuna mína
4. Stelpuna á næstu tölvu
5. Lopahúfuna mína
6. Hagrannsókna bókina
7. Vettlingana mína

Jæja þá er þetta komið. Tók brjálað langan tíma og var erfitt í fæðingu, enda varð ég að fá inspiration frá nokkrum öðrum til að ná að fylla í öll sjö atriðin alls staðar.

laugardagur, nóvember 12, 2005

Fjölmiðlar og fleira

Var að horfa á Silvíu Nótt endursýnda í gær og réð mér hreinlega ekki fyrir kæti. Þessi stelpa er náttúrulega bara brjálæðislega fyndin. Þegar hún var að rífast við Gillzenegger, kærastann sinn, og segja honum að hætta að kyssa strákana og fór svo á "rómantískt deit" með Páli Óskari sem var nú alveg toppurinn. Ég er eiginlega hálf svekkt að hafa ekki uppgötvað hana fyrr en núna. Annars hefði ég örugglega lagt mig frekar í líma við að sjá þáttinn hennar. En alveg eins og Silvía Nótt er frábær þá er hún Ragga Guðna í Ísland í bítið hræðileg. Greyið stelpan, hún kann bara ekkert á neitt og veit ekki neitt heldur. Ég veit ekki hvað oft ég hef fengið kjánahroll niður bakið á að þurfa að hlusta á hana og mis-gáfulegu commentin hennar. Svo verða þeir sem hún er að taka viðtal við svo vandræðalegir, skilja kannski ekki spurninguna eða eitthvað þaðan af verra og allt verður kjánalegt. Ég tek ofan fyrir Heimi Karlssyni að leggja út í að bera uppi heilan þátt einn, því ekki er hún að gera honum lífið auðveldara. Mest-vandræðalegast var samt innslagið hennar þegar hún fór til New York. Greyið. Það var svo hræðilegt að ég þurfti að slökkva á sjónvarpinu mér leið svo illa.

Er annars að fara í fönk-partý í kvöld hjá Sverri vini hans Indriða, og smá vini mínum líka. Hann á afmæli og allir verða að mæta í fönk-búning, sem er atriði sem búið er að valda mér ómældum heilabrotum. Hvað í ósköpunum er fönk-búningur fyrir stelpur?? Anyone!! Þegar ég bað um nánari útskýringu þá fékk ég svarið: James Brown. Sem hjálpaði mér frekar takmarkað. Leiðin lá samt sem áður niður í Kolaport og á Kílóamarkaðinn hjá Spútnik þar sem var splæst í forláta kjól sem verður "fönkí" í kvöld ...eða vonandi. Annars verður aðal-áherslan hjá mér bara að vera "hair-and-makeup".

Fór á Boot-camp útiæfingu í morgun sem var mjög gaman. Ég held að ég sé að verða hooked á þessu öllu saman. Mér langar allavegana ekki neitt til að kaupa mér kort í WC eftir þetta. Þetta var svona pínu eins fílingur og þegar maður var lítil og var úti í Eina krónu eða Yfir eða eitthvað þannig. Brjálað gaman. Ég er allavegana alveg búin að ákveða að þegar ég kem heim að utan í vor þá ætla ég að skrá mig í Boot-campið strax aftur.

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Ferðin mikla...

Vegna fjölda áskorana er hérna komið innlegg frá mér. Ástæðan fyrir döpru uppihaldi á þessari síðu er einfaldlega meiriháttar pirringur sem hefur setið um mig og sökum þess hef ég ekki haft neitt skemmtilegt að segja. En nú er öldin önnur, komin betri tíð með blóm í haga, eins og þeir segja þeir spöku og stelpan er komin á flug aftur. Ástæðan gott fólk er örugg vissa um það að ég er að fara í FERÐALAG í Janúar. Já þið lásuð rétt krakkar, það er búið að bóka flugmiðana í reisuna miklu!!! ...og ég er að fara.....

Ferðaplanið er sem hér segir:
5. janúar London - Frankfurt
6. janúar Frankfurt - Delhi Indlandi
16. janúar Delhi - Bangkok Thailandi
17. janúar Bangkok - Peking Kína
25. janúar Peking - Bangkok
1. mars Bangkok - Singapore Malasía
6. mars Singapore - Sydney Ástralía
10. mars Sidney - Aukland Nýja Sjáland
10. mars Aukland - Raratonga Cook Islands
21. mars Raratonga - Los Angeles USA
24. mars Los Angeles - Seattle USA
30. mars Seattle - New York USA
6. apríl New York - London

Hvernig líst ykkur á þetta? Ef þið voruð að spá í bilinu á milli 25. janúar og 1. mars þá er planið að fara "by land" um suðaustur Asíu á þessum tíma. Og þá helst skoða Kambodíu, Laos, Thailand og Víetnam. Ég er hreinlega að fara yfir um af spenningi yfir þessu öllu, þetta eiga eftir að verða ROSALEG ævintýri og eitthvað sem maður á eftir að lifa á alla ævina.

Annars er ég búin að vera svo rosalega busy að ég hef varla getað andað. Er loksins farin að sjá fyrir endan á því núna. IceMUN er búið og ég farin að vinna aðeins minna, sem er eins gott því prófin eru að koma... ég trúi ekki að sé að segja þetta. Mér finnst önnin hafa byrjað í gær og ég er ekki byrjuð að læra fyrir alvöru... alveg búin að vera í ruglinu. Þannig að það er ekki seinna vænna og byrja bara að nota tímann sem maður hefur til að læra allt þetta blessaða námsefni. Verst hvað það er auðvelt að gleyma sér í dagdrauma um ferðina okkar góðu... Hvernig líst ykkur á ferðaáætlunina?