sunnudagur, janúar 27, 2008

Yes I am alive...


Jæja núna erum við á Sauðárkróki í sælunni hjá tengdó. Búin að eiga frábæra undanfarna daga. Fórum á miðvikudaginn í sumarbústað í Húsafelli og kúrðum þar í snjónum og huggulegheitum fram á laugardag. Brunuðum þá í sveitina og svo hingað á Krók. Verðum sennilega hérna fram á þriðjudag. M litla er búin að vera eiturhress undanfarna daga og hlær og skríkir eins og hún fái borgað fyrir það. Alveg merkilegt hvað þessi dúlla er sæt og vel heppnuð hjá okkur. Furða mig á þessu á hverjum degi. Svo margt búið að gerast undanfarna daga að ég ætla að taka punktana á þetta.

* Við erum skítléleg í handbolta.
* Ég horfði samtals á svona einn leik í allri keppninni.
* Ég var með svo mikla strengi um daginn að ég hélt að ég væri að verða veik.
* Fékk mér ibufen og lagaðist.
* Blessaðir fimleikarnir eru alveg að gera góða hluti.
* Ætla að mæta aftur á þriðjudaginn eftir viku pásu.
* Er líka búin að mæta nokkrum sinnum í Kramhúsið.
* Pólitíkin í borginni er gott efni í farsa.
* Finnst þetta næstum of steikt til að skrifa um.
* Er samt ýkt ánægð með mótmælin í Ráðhúsinu.
* Hefði mætt sjálf með M á handleggnum ef ég hefði ekki verið í vetrarríkinu í Húsafelli.
* Er ýkt óánægð með nýja borgarstjórann.
* Finnst DayB. svona milljón sinnum sætari en þessi bauga-taugahrúgu-kóngur.
* Greyið Heath Ledge bara dáinn.
* Britney Spears algerlega löngu búin að missa það.
* Fer ekki einhver að sprauta hana niður og loka hana inni?
* Brangelina kannski að fara að fjölga í international family um 2.
* Katrín vinkona er aftur farin af landinu og núna til Sviss.
* Guðný vinkona er ennþá hjá Pilsunum.
* Ragga er líka ennþá hjá Spanjólunum.
* Farið þið nú að skjótast heim stelpur og skella ykkur í kaffi á Grettisgötunni.
* Og svo er Bubbi Kóngur á leiðinni til Ameríku.
* Svo fáum við svar í apríl hvort við family séum á leiðinni til höfuðborgar Gruggsins.
* Mér langar rosalega til að fara og sjá Brúðgumann.
* Er búin með bókina mína, Það er staður í helvíti fyrir konur sem hjálpa ekki hver annarri
* Mæli með henni, hún er ýkt skemmtileg, áhugaverð og eiguleg.
* Er strax farin að hlakka til að hitta leshópinn minn.
* Við erum búin að kaupa okkur webcam.
* Og erum ýkt til í að spjalla við fólkið okkar í útlöndum á skype.
* Ég heiti laufey.skuladottir, endilega addið mér.

Luv L

fimmtudagur, janúar 17, 2008

Loksins eitthvað að gerast

Já það er hálfgerð ládeyða stundum hérna hjá okkur á Grettisgötunni og ekki frá mörgu öðru að segja en bleyjuskiptum, dúrum og gönguferðum. En nú er annað hljóð komið í strokkinn og aldeilis margt búið að gerast.

Ég er loksins búin að ákveða hvað ég ætla að skrifa um í blessaðri BA rigerðinni og búin að finna mér leiðbeinanda. Er reyndar ekkert búin að gera meira en það en þetta er allavegana byrjunin. Ætla að fara að gera alvöru úr því að byrja á þessu strax í byrjun næsta mánaðar. Þá er nefninlega Indriði búin í fæðingarorlofi og við píur verðum tvær eftir heima. Við ætlum því að nota þennan hálfa mánuð sem við eigum eftir saman í orlofinu og njóta lífsins og gera helst ekkert annað.

Ég er líka byrjuð í leikfimi. Fór í Kramhúsið og keypti kort og er búin að fara í einn jóga tíma. Fór svo líka í fimleikatíma uppi í Salahverfi með Sólveigu og fleiri hressum píum. Það var tekið svo hressilega á því að dagurinn í gær var undirlagður af einum rosalegustu strengjum sem ég hef haft lengi. Næsti tími er á laugardaginn og ég ætla að mæta aftur og vona að ég verði hressari eftir það. Það er líka fyndið að sjá hvað maður er orðin ryðgaður í trampolínhoppi og þess háttar. Var alltaf frekar hress og klár í því back in the days en þeir dagar eru liðnir. Vonandi var þetta bara eitthvað sem þurfti að rifja aðeins upp og ég verði sprækari á laugardaginn.

Þetta eru ekki einu fréttirnar af mömmunni heldur er hún líka komin í þennan líka kröftuga feminíska leshring. Hittumst í gær og vorum búnar að lesa grein eftir Sigríði Þorgeirs sem heitir ""Eðli" kvenna". Næst ætlum við að lesa bók og hittast svo og spjalla um hana. Hún hljómar og lítur ýkt spennandi út og heitir "Það er staður í helvíti fyrir konur sem hjálpa ekki hver annarri". Er mjög spennt að byrja á henni.

Litla daman dafnar voða vel. Orðin 5,850 gr, hjalar og hlær og er alveg farin að halda haus. Hún er líka farin að sofa úti 2 blunda á dag. Annað hvort förum við með hana út í göngutúr eða að hún leggur sig í vagninum á svölunum. Hún verður alltaf fallegri og fallegri með hverjum deginum. Þótt okkur finnist það varla hægt að verða sætari þá tekst henni það einhvern veginn. Við erum endalaust að knúsa hana og kyssa og fáum ekki nóg af litla krúttinu okkar.

Svo eru komnar nýjar myndir á myndasíðuna.

fimmtudagur, janúar 10, 2008

Daglega lifið

Núna þegar jólin eru búin og við komin aftur heim á Grettisgötuna þá er lífið aftur farið að taka á sig sína fyrri mynd. Markmið næstu vikna er að reyna að koma svefninum hjá M í einhverja rútínu. Pían hefur verið að sofa bara einhvern veginn hingað til. Stundum verið vælandi fram undir morgun og stundum sofið eins og engill. Það stefnir nú í að þetta verði ekkert ofsalega erfitt, skvísan er að verða svo rosalega vel upp alin. Annað sem er á todo-listanum er að koma sér af stað í einhverja hreyfingu. Er jafnvel að spá að skella mér í Kramhúsið, það er boðið upp á allavegana 3 gerðir af jóga sem mér finnst svolítið spennandi að prófa.

Indriði skellti sér til London um daginn, hitti Árna Þórodd og tók eitt próf fyrir umsóknina í háskólann úti. Við skvísur vorum á meðan í sveitinni hjá mömmu sem var afskaplega ljúft. Ég er búin að fá út úr báðum áföngunum sem ég kláraði núna fyrir jólin og er ég vægast sagt ánægð með útkomuna úr þeim. Svo er ég líka afskaplega ánægð með að vera búin að endurheimta tvær vinkonur mínar aftur frá útlöndum, er búin að hitta bæði Katrínu og Sólveigu síðustu daga. Ekki alveg eins ánægð með að vera búin að missa hana Guðnýju mína úr landi. Skvísan ákvað að rífa sig upp með allt sitt hafurtask og flytja búferlum til Skotlands eða Pilsalands eins og hún kallar það sjálf.

sunnudagur, janúar 06, 2008

Annáll ársins 2007

Janúar
Eftir að hafa skálað ótæpilega mikið og oft fyrir nýju ári var komið að skuldadögum. Detoxið tók við og heilbrigðari lífshættir voru settir á dagskrá. Maður byrjaði aftur í skólanum, var að vinna á Primavera aðra hverja helgi og skrifa í Stúdentablaðið. Svo var auðvitað kíkt á nokkrar útsölur, haldin matarboð og vinkonurnar hittar. Annars var Janúar half tíðindalítill mánuður. Það var kalt og þá á maður að halda sig inni í hlýjunni.

Febrúar
Í febrúar gerðist það helst að ég tók Greys maraþon, Anna Nicole Smith dó og Britney Spears varð geðveik. Indriði varð 28 og við fórum í tilefni af því í helgartripp á Búðir sem var mega rómó. Ég fékk sumarvinnu hjá HF Verðbréfum eftir stutta leit og fór í miðannarpróf. Svo gerðist nú ekki mikið meira enda var þetta nú frekar stuttur mánuður.

Mars
Hápunktur mánaðarins er án efa að komast að því að ég væri orðin ólétt. Fátt sem toppar það. Fór samt í skvísuferð til Köben með Margréti sem var mega stemmari. Fyrir utan að ég gat ekki drukkið eins marga kokteila og ég hefði viljað. Við Indriði fórum á Forma tónleikana á Nasa og ég táraðist við að sjá Björk og hlusta á hana syngja. Svo komst maður ekki hjá því að sinna skólanum aðeins.

Apríl
Við hjónin fórum norður um páskana og sögðum foreldrunum tíðindin af barnabarninu sem væri á leiðinni. Það var afskaplega skemmtilegt. Skólinn tók ennþá meiri tíma enda prófin að nálgast óðfluga. Ég skellti mér á Bjarkar tónleikana í Höllinni með Katrínu og táraðist meira og fékk gæsahúð. Mér tókst að týna símanum mínum þegar ég fór að hitta ljósmóðurina í fyrsta skiptið og þurfti þess vegna að fá mér þennan nýja gullfallega síma. Miðbæjarbruninn var án efa einn stærsta frétt mánaðarins en svo lenti Guðrún systir líka í bílslysi sem var líka stór frétt. Prófin byrjuðu og við fórum sáum Hjónabandsglæpi í Þjóðleikhúsinu.

Maí
Var brjálaður mánuður. Það voru kosningar, Eurovision, próf, ný vinna og rosa gott veður. Bumban fór sístækkandi og tókst mér að fá starfsmaður ársins verðlaunin þegar ég mætti fyrsta daginn í nýju vinnunni og tilkynnti að ég væri ólétt, ójá! Stemmari í því! Allt kosningastússið fór í taugarnar á mér, mania á hæsta stigi og eurovision kom manni svo sem ekkert á óvart. Við hjónin fórum í mega kosninga/euro partý hjá Binna og Birtu sem var stemmari.

Júní
Við komumst að því að við áttum von á lítilli prinsessu og vorum við að sjálfsögðu alveg á bleiku skýji með það. Ég, Christína og Ragga fórum með familyurnar í bústaðarferð, borðuðum og spiluðum og höfðum gaman. Bumban fór sístækkandi, sólin skein og lífið var ljúft.

Júlí
Það sem bar hæst í þeim mánuði var helgarferðin okkar á Snæfellsnesið. Það var voða gaman hjá okkur. Annars leið tíminn í sól og sumaryl í miðbænum. Ég hitti vinkonurnar, það var drukkið fullt af kaffi, slúðrað og hlegið.

Ágúst
Mánuðurinn leið með sól og sprelli. Um verslunarmannahelgina vorum við fyrir norðan í dekri hjá fjölskyldunum. Indriði var í Varsjá á menningarnótt og ég var heima með bumbuna og gerði ekki margt. Undir lok mánaðarins fórum við til Barcelona í sumarfríið okkar. Það var algert æði, margt skoðað, borðaður góður matur og haft það huggulegt.

September
Árni Þóroddur kom í heimsókn og fékk að gista hjá okkur og Stefán vinur hans. Við fórum norður í réttirnar og skólinn byrjaði.

Október
Rei málið stóra, borgarstjóraskiptin, undirbúningur fyrir komu skvísunnar og skólastússið voru helstu málin í mánuðinum. Dagarnir fóru að líðar hægar og hægar eftir því sem styttist í settan dag.

Nóvember
Hápunktur ársins var án efa í þessum mánuði, nánar tiltekið þann 09. Þá lét litla skvísan okkar loksins sjá sig eftir uþb 40 klst puð við að koma henni í heiminn. Magnea Ósk er gullmolinn okkar og algerlega fallegasta barn í heimi. Skólinn spilaði svo smá aukarullu, samt afskaplega litla.

Desember
Skólinn, próf, jólinn og endalaust knús hjá okkur í fjölskyldunni var það sem einkenndi Desember. Lítið stress, nema rétt í kringum ritgerðaskilin, rölt á Laugarveginum og svo bara dútl og dund hérna heima. Hvað er líka annað hægt að gera þegar maður á svona sæta fjölskyldu til að dunda sér með?

Áramótaheitin eru í vinnslu. Skelli þeim vonandi inn á morgun eða hinn…

miðvikudagur, janúar 02, 2008

Yfirferð yfir áramótaheit ársins 2007

Í Janúar 2007 setti ég niður 10 atriði sem ég ætlaði að hafa sem leiðarljós á nýju ári og reyna eftir bestu getu að uppfylla. Það er nú ekki alveg víst að mér hafi tekist að uppfylla þau öll. Það gekk allavegana mun betur með sum en önnur.

1. Ég ætla að vera duglegri að læra
Veit ekki alveg hvort þetta tókst. Veit samt að mér tókst að ná 18 einingum á vorönninni og hækka meðaleinkunina. Hvort sem það hafi tekist með auknum lærdómi eða að ég hafi farið að fylgjast betur með í tímum veit ég ekki.

2. Ég ætla að vera ennþá betri við fólkið mitt
Ég vona að mér hafi tekist það.

3. Ég ætla að koma lagi á fjármálin
Veit nú ekki hvort það hafi tekist. Er allavegana með jafn háan yfirdrátt núna og fyrir ári síðan. Byrjaði reyndar að spara sem er skref í rétta átt.

4. Ég ætla að reyna að fara 2x til útlanda
Það tókst. Köben í febrúar með Margréti yfirskvísu og svo Barcelona í Ágúst með husbandinu.

5. Ég ætla að reyna að drekka minna kaffi og fá mér te í staðinn
Það tókst. Varð ólétt í febrúar og með sívaxandi brjóstsviða eftir sem leið á árið dró sjálfkrafa úr kaffidrykkjunni.

6. Ég ætla að reyna að drekka minna áfengi
Það tókst all hressilega.

7. Ég ætla að hætta að láta fólk fara í taugarnar á mér
Er alveg viss á því að það tókst ekki. Sumt fólk fer ennþá í taugarnar á mér

8. Ég ætla að hætta að taka nærri mér þegar fólk kemur illa fram við mig
Veit ekki hvort að það sé yfir höfuð hægt.

9. Ég ætla að lesa meira
Ætli ég hafi ekki lesið svona álíka mikið (lítið) í fyrra og oft áður.

10. Ég ætla að vera duglegri að hitta vini mína
Ég gerði allavegana mitt besta. Þreytan og slappleikinn sem fylgdi fyrstu og síðustu mánuðum óléttunnar settu þó örlítið strik í reikninginn.

Er svo að fara yfir bloggið og leggja drög að einhverskonar annál eða yfirferð yfir árið 2007. Svo er líka spurning að gera önnur áramótaheit... Stay tuned!