miðvikudagur, október 24, 2007

Statusinn

* Ég er ekki búin að eiga
* Á skv. áætlun 12 daga eftir
* Sem er nú voða lítið
* Er búin að vera mega dugleg í skólanum undanfarið
* Skila einu stóru verkefni og fara í próf
* Sem gekk allt bara ljómandi vel
* Er orðin áskrifandi af Gestgjafanum
* Fékk kökublaðið í dag og er búin að vera með stöðugt slefrennsli af græðgi síðan það kom inn um lúguna
* Hlakka til að byrja að baka
* Stefnir strax í allavegana svona 2-3 kíló hjá okkur stráknum í kjölfarið á þessu
* Skil ekki alla þessa umræðu um greyið Eyjólf landsliðsþjálfara
* Finnst að það ætti frekar að reka leikmennina en hann
* Nýju Parket og Gólf auglýsingarnar fara mega í taugarnar á mér
* Er bara alls ekkert að skilja þær
* Er búin að prjóna mega mikið undanfarið
* Var að klára að prjóna kjól og er núna byrjuð á poka fyrir barnið
* Er ekki að fíla veðurfarið hérna á höfuðborgarsvæðinu
* Er samt pínu farin að hlakka til að fá snjó
* Og líka pínu farin að hlakka til jólanna
* Hlakka náttúrulega mest til að fá monsuna mína í hendurnar
* Fórum í skoðun í dag og allt leit vel út
* Ljósmóðurin var að hrista skvísuna eitthvað til og athuga hvort hún væri skorðuð
* Sem hún fílaði engan veginn
* Og sparkaði í blessaða konuna í kjölfarið
* Strax orðin ákveðin litla daman

sunnudagur, október 14, 2007

Brasið

Já ég er núna að brasa við að lesa undir próf sem er á dagskránni kl. 10 í fyrramálið. Það gengur ekkert allt of vel, er búin að komast að því að það er alveg satt sem þeir segja með sellurnar í ófrískum, þær verða eitthvað hægari en venjulega. Er s.s. búin að sitja hérna við í dag, með góðum hléum, og reyna að einbeita mér án þess að það gangi neitt. Kannski út af sellunum, kannski út af því að hugurinn vill reika eitthvað annað. Stjórnmálaheimspekin ekki alveg eins heillandi dagdraumaefni og væntanleg koma frumburðarins.

Við fengum vagninn í gær, þvílíkt bónaðan og flottan, ekki að sjá á honum að hann hafi nokkurn tímann verið notaður. Fórum svo líka í gær í innkaupaleiðangur og keyptum það sem uppá vantaði, fjárfestum t.d. í þessum forláta bílstól sem mér finnst afskaplega fínn. Það má því segja að það sé allt tilbúið og bíður maður þess vegna bara enn spenntari en áður eftir að það gerist eitthvað. Vonandi verður biðin 3 vikur frekar en 5.

Var annars að lesa bakþankana hjá Davíð Þór Jónssyni í Fréttablaðinu áðan og fannst næstum eins og ég hefði getað skrifað þetta sjálf. Svo algerlega talað úr mínu hjarta. Þessi blessaða pólitík er náttúrulega með því fyndnara sem gerist. Ég skora á alla að lesa þennan pistil hjá honum, hann er snilld.

föstudagur, október 12, 2007

Sitt lítið af hverju


Já það er aldeilis margt búið að ganga á í borgarpólitíkinni á síðasta sólarhring. Komin nýr borgarstjóri og allt, sá nýji reyndar mun myndarlegri en sá gamli og er ég bara frekar ánægð með það. Hafði ekki mikið álit á Vilhjálmi, finnst hann alveg búin að spila rassinn úr buxunum í þessu REI máli og fleiri málum. Frekar skrítið og pirrandi samt að Björn Ingi sé eftir sem áður einhver lykilmaður í atburðarrásinni eins og hann var í myndun gamla meirihlutans. Það er bara vonandi að þetta 4ra flokka samstarf gangi upp.

Ég er brjálaður aðdáandi Velvakanda í Mogganum (sem ég er að sjálfsögðu áskrifandi að eins og allir góðir borgarar). Ég get skemmt mér við að lesa þessi litlu innsendu bréf endalaust. Fyndnast fannst mér um daginn þegar allavegana í tvígang var auglýst eftir ketti sem hafði týnst frá Kattholti, maður hélt að kettirnir sem týndust ættu að vera nokkuð öruggir þar. Svo er búið að vera vinsælt að senda inn bréf sem mælir með nýju kvikmyndinni Veðramótum sem ég er reyndar ekki ennþá búin að sjá. Um daginn þá var líka einhver sem skrifaði til að kvarta yfir því að þingmönnunum hefði verið boðið áfengi eftir þingsetningarathöfnina á Alþingi. Fannst það ekki við hæfi að skattpeningarnir færu í áfengi eða eitthvað þannig. Skömmu seinna kom svo svar frá Skrifstofu Alþingis þar sem sagði að þingmennirnir hefðu ekki fengið neitt brennivín heldur bara kaffi og bakkelsi. Þannig að það er greinilegt að það lesa þetta fleiri en ég.

Skólinn er alveg komin á fullt og önnin nánast hálfnuð. Skil á lítilli ritgerð í dag og próf á mánudaginn þannig að um helgina verður maður að halda vel á spöðunum. Svo á náttúrulega væntanleg koma frumburðarins hug manns allan og undirbúningur fyrir það alveg á fullu. Barnaföt á snúrunni og mikið farið í búðir sem selja nauðsynlegan varning fyrir barnið. Ætlum einmitt að fara um helgina og kaupa bílstól, sem er víst nauðsynlegur til að koma krílinu heim, og fleira dót. Með hverjum hlut sem keyptur er þá verður maður líka smám saman æstari og æstari yfir þessu. Tilhlökkunin hér á bænum er þess vegna komin á nokkuð hátt stig enda er flest sem okkur vantar að verða komið í hús og krílið okkar má þess vegna bara fara að koma.

laugardagur, október 06, 2007

Hland-drama

Hérna á Grettisgötunni gerist nú oftast ekki margt krassandi. Fólk fer venjulega leiðar sinnar nánast hljóðlaust og það er ekki mikið um slagsmál eða uppþot hérna. Það var þó um daginn sem það heyrðust voða skrítin hljóð sem urðu þess valdandi að maður skellti sér í gluggann til að tékka hvað væri á seyði. Ég reyndar sá ekki hvað var að gerast því atburðirnir voru mín megin í götunni og of nálægt. Nágranni minn hún Nanna sá hins vegar betur en ég hvað gerðist og kom með mjög skemmtilega lýsingu á atburðunum á síðunni hjá sér sem ég er búin að stela og ætla að birta hérna:

Pissudrama á Grettisgötunni

Megadrama í gangi hér úti á götu áðan.

Einhverjum róna verður mál og hann ákveður að pissa þar sem hann er kominn. (Þótt það sé alveg rétt sem Lilló segir um okkur venjulega miðbæjarfólkið, við ælum og pissum heima hjá okkur svo að það er yfirleitt úthverfafólkið og utanbæjarmennirnir sem gera svoleiðis úti á götu hér í miðbænum, þá eru rónarnir undanskildir. Þótt þeir búi í miðbænum.)

Einn nágranni minn er ekkert sáttur við þetta og kemur út með forláta myndavél og fer að mynda rónann við að pissa. Ekki veit ég hvers vegna. Kannski til að setja myndina á bloggið sitt eða eitthvað, nema ég gerði nú ekkert ráð fyrir að róninn mundi kippa sér upp við það.

En róninn er kannski eitthvað spéhræddari eða siðvandari en fara gerir um róna almennt (þótt val hans á pissustað, hér á miðri Grettisgötu, geti bent í aðra átt) og fer að mótmæla myndatökunum. Úr þessu verður hávaðarifrildi sem lýkur með því að nágranninn hjólar í rónann og missir við það fínu myndavélina sína í götuna.

Hann verður náttúrlega ekkert mjög glaður við það og kennir rónanum um allt saman. En róninn er þá akkúrat búinn að pissa og gengur í burtu. Nágranninn reynir eitthvað að elta og hefur hátt. En svo sér hann að sér, snýr við og fer að bogra undir bíla til að safna saman pörtum úr myndavélinni.

Mórall: Ef maður ætlar að sitja um róna, úthverfabúa og utanbæjarmenn að pissa í hverfinu sínu er best að hafa einnota myndavél til taks. Eða allavega gera upp við sig hvort maður ætlar að mynda pissarann eða berja hann.

Smáöppdeit: Róninn var víst að spræna inn um gluggann hjá nágrannanum þannig að það er vel skiljanlegt að fyki í hann - en ég hefði samt ekki tekið myndavélina með út.

Þetta fannst mér voða fyndið... fyrir utan þetta með að hann var að pissa inn um gluggann hjá manninum.