sunnudagur, september 25, 2005

Helgin og Hagkaup

Gátu þeir hjá Hagkaup ekki fundið einn ameríkana á Íslandi til að lesa þessar auglýsingar fyrir Ameríska daga. Mjög fyndið að hlusta á einhvern íslending að reyna að tala með amerískum hreim.

Er búin að liggja með ámusótt í allan dag og alls ekki búin að vera nógu hress. Er samt öll að koma til núna, búin að fá pítsu og leggja mig. Reynir og Katla komu til okkar í gær í mat og við skvísurnar skelltum okkur niður í bæ. Var voða gaman hjá okkur og við vorum ekki komnar heim fyrr en kl. 6. Vorum róleg á föstudaginn, borðuðum á Ban Thai sem var voða fínt og tókum okkur spólu. Tókum Hotel Rwanda sem er alveg ótrúlega góð. Algerlega mynd sem allir verða að sjá.

laugardagur, september 24, 2005

Karlrembingur


Ef það er eitthvað sem fer í taugarnar á mér þá eru það karlrembur. ...come on people það er 2005!! Það er nú samt svo slæmt að það leynast karlrembur alls staðar, meira að segja inna veggja Háskólans, og er ég svo ótrúlega óheppin að einn slíkur er að kenna mér þessa önnina. Mér fannst hann alveg fyndinn og skemmtilegur fyrst en núna er öldin önnur. Í síðasta tíma sló karlinn öll met, var endalaust að spyrja alla "brosmildu" strákana hvort þeir vissu hver lausnin væri en spurði okkur "syfjulegu" stelpurnar hvort við værum að skilja þetta. Allt sem hann sagði í tímanum mátt túlka sem stelpur=heimskar og strákar=klárir. Hann kom svo með ýmislegar aðrar óviðeigandi athugasemdir sem voru af sama sauðahúsi og þær fyrri. Á endanum ofbauð mér svo að ég gekk út, hreinlega gat ekki setið undir þessum sora lengur. Er svo búin að vera brjálæðislega pirruð út af þessu síðan.

Það er alls ekki líkt mér að spila mig sem eitthvað fórnarlamb og ég hef hreinlega alltaf gengið út frá því að konur hefðu sömu tækifæri og karlar. Kannski sumpart út af einfeldni í mér og sumpart út af reynsluleysi. En þetta er kannski raunveruleikinn sem blasir við manni þegar maður leggur út í eins stóra karlastétt og hagfræðin er? Kannski hefur maður ekki sömu forsendur og strákarnir, hreinlega af því að það vantar á mann tólið? En kannski verður maður bara að berjast gegn þessu á sínum forsendum, ekki láta svona gamla, úldna tippafílukalla fara í taugarnar á sér og sanna það að maður eigi fullt erindi hvort heldur maður sé karl eða kona.

miðvikudagur, september 21, 2005

Orðfæri


Það er nú alveg merkilegt hvað sum skrítin orð geta allt í einu orðið voða mikið í tísku og alveg tröllriðið öllum fjölmiðlum. Munið þið til dæmis fyrir kosningarnar þegar "brautargengi" var aðal málið? Allt í einu var voða hipp og kúl að segja brautargengi og allir voru að slá um sig með því að bæta því inn í allar mögulegar og ómögulegar setningar. Sem betur fer dó það fljótlega eftir kosningarnar en einhvern veginn hef ég grun um að það eigi eftir að skjóta aftur upp kollinum núna fyrir prófkjörin. Meiri steikin...

Annað svona orð er "gríðarlega". Ég legg mig í líma við að segja ekki gríðarlega því mér finnst það svo ó-töff. En hvert sem maður lítur og í hvert skipti sem maður kveikir á útvarpi eða sjónvarpi þá er einhver að segja "gríðarlega" hitt og "gríðarlega" þetta. Og svo síðast en ekki síst er þetta spúsu / spúsa tal. Mér finnst það ekki flott. Eru engir fleiri komnir með leið á þessu en ég?

Annars er ég búin að vera í skólanum í allan dag fyrir utan svona klukkutíma sem ég skaust heim til mín í hádeginu, fékk mér að borða og lagði mig aðeins. Mikið var það ósköp ljúft. Ég sit s.s. hérna á Þjóðarbókhlöðunni og er að rembast við að lesa fjármálabókina mína. Gengur ekkert allt of vel og er bara komin á 4. kafla (...og við erum að sleppa kafla 2 og 3). En batnandi fólki er best að lifa og ég er að leggja mig fram við að bæta frammistöðu mína í lærdómsmálunum.

Fer ekki alveg að koma tími á reunion-kaffihúsaferð á næstunni. Er alveg orðin þyrst í smá slúður frá skvísunum. Spurning samt að leyfa Steinunni að komast heim frá útlöndum svo hún fái að vera með? How about it stelpur? Hvenær eruð þið lausar?

Engin að gleyma Americas next top model í kvöld...
Var svo að bæta inn link hjá Katrínu sem er með mér í hagfræðinni, endilega að kíkja á hvað hún er að segja skvísan...

þriðjudagur, september 20, 2005

Veit einhver...

...um einhvern sem er að fara að koma til landsins og í gegnum fríhöfnina bráðum. Vantar svo að láta einhvern ná í nýju gleraugun mín nefninlega. Ef einhver á leið og nennir að pikka þetta upp fyrir mig þá endilega commenta...

sunnudagur, september 18, 2005

Klukk og Köben

Jæja ætli það sé ekki klukkið fyrst:

1. Ég er óendanlega löt að eðlisfari og finnst ekkert beta en að dunda mér við að gera ekki neitt daginn út og inn.

2. Ég er klofin persónuleiki. Annarsvegar er ég miðbæjarrotta og hinsvegar sveitavargur.

3. Ég er poppsjúk og finnst allt sem er salt voða gott.

4. Ég er mjög áhrifagjörn og hleyp mikið á eftir allskyns tískustraumum og myndi sjálfsagt gera meira af því ef ég ætti meiri peninga.

5. Ég er gift kona, ánægð og sátt við lífið og tilveruna, yfir mig ástfangin af manninum mínum og á leiðinni í heimsreisu ...júhú!!


Var annars líka að koma frá Köben þar sem atriði númer 4 var aðeins skoðað. Keypti mér fullt af fínum hlutum og þar á meðal hnött í gamalli og krúttlegri antíkbúð rétt hjá Laundromat. Verð að koma með söguna af Brynhildi sem fór með mér út og Friðrik Weisshappel, sjúklega fyndið og ótrúlega mikil Bibba eitthvað... Kemur seinna. Hittum hana Írisi sem býr á Gamel Kongevej og fengum að gista hjá henni. Þvílíkt gaman að kíkja aðeins með stelpunum, sjoppa fullt og drekka aðeins meira. Fundum þvílíkt góðan kokteilbar rétt hjá Strikinu sem heitir Peter Oxe´s vinkælder og var æðislegur. Bestu kokteilar sem ég hef á ævinni smakkað. Komst alveg að því að Köben fer mér frekar vel og ég er ennþá mega sleip í dönskunni. Spurning um að skella sér í skiptinám í CBS?

fimmtudagur, september 08, 2005

Tvennt ...eða kannski þrennt

Þau ykkar sem eruð búin að sjá nýja Séð og heyrt? Hvað finnst ykkur um berbrjósta gellurnar að þjóna í þessu PSP-partýi?
...mér persónulega finnst það OFUR hallærislegt og hefði aldrei dottið í hug að það væri einhver stelpa á Íslandi sem væru til í að þjóna berbrjósta. Reyndar er til allskonar hallærislegt lið ...I should know, kannast við nokkra. En aldrei hélt ég að fólk gæti orðið svona rosalega hallærislegt.

Langar einhvern að kaupa 99 árgerð af Golf sem er keyrður rúmlega 90.000 fyrir sanngjarnt verð? Já þið eruð að lesa rétt, gellan er að fara að selja gellu-tryllitækið og stefni að því ...já haldið ykkur fast ...að fara að ferðast um á rándýrum gulum kagga. Ekki alveg minn stíll. Verð að fara að gera all nokkrar lífstílsbreytingar í kjölfarið á því. Verð t.d. að kaupa mér skólatösku. Hef alltaf geymt bækurnar bara úti í bíl og haldið á þeim eins og ofurpæja... En það gengur víst ekki mikið lengur. Maður gæti lent í rigningu og allskyns veðrum á strætóinum og ekki vill maður eyðileggja allar bækur og glósur.

Í dag er ég búin að hlusta á Elliot Smith, Evu Cassidy og Emiliönnu Torrini. Allt eðal tónlistarmenn. Er búin að heyra mikið talað um bæði Smith og Cassidy en aldrei hlustað neitt á þau. Stefni að því að gera mikið meira af því í nálægri framtíð.

miðvikudagur, september 07, 2005

Reminder

Bara svo þið gleymið því örugglega ekki þá er fyrsti þátturinn af Americas next top model á dagskrá Skjás Eins í kvöld kl. 20:00. Engin að missa af því.

Smá innslag: ég hefði aldrei trúað því hvað það er geggjað að eiga ipod. Hvað þá heldur ipod sem er 60GB og búið að hrúga ca. 40GB af tónlist inná. Í tilefni af því ætla ég að fara að deila því meira með ykkur hvað ég er að hlusta á hverju sinni. Núna er það t.d. Zero7, sem ég hlusta reyndar svolítið mikið á. Alltaf skemmtilegt. Annars er það búið að vera Al Green, Norah Jones, Megas, Bob Dylan, Coldplay og margt fleira skemmtilegt. Djöfull er nýja Coldplay platan góð...

þriðjudagur, september 06, 2005

Góðu fréttirnar fyrst...

Góðu fréttir dagsins eru þær að ég er byrjuð að lesa þjóðhagfræðina og ég var að koma úr ræktinni. Vondu fréttir dagsins eru þær að ég er eiginlega ekki búin að gera neitt annað í dag. Held jafnvel að ég sé að verða veik, sem eru ekkert ofsalega góðar fréttir heldur.

Ég er með geggjaða stundatöflu þessa önnina, er alltaf á morgnanna í skólanum sem fer mér betur en að vera í skólanum seinnipartinn. Áfangarnir leggjast líka ágætlega í mig nema Tölfræði II, sem á að vera algert helvíti, en þegar maður er proffi.is eins og ég og fékk 8 í Tölfræði I þá vonandi hefst þetta ;o) ...nei ég er ekki montin. Var í fyrsta tímanum í stærðfræði III í dag, og finnst bytheway ofur-töff að vera í einhverjum kúrsi sem heitir eitthvað númer III. Kennarinn í þessum áfanga er brjálæðislega fyndinn, sem er frekar skrítið fyrir stærðfræðikennara. Ég átti bágt með mig allan tímann, endalausir taktar í karlinum, skellandi saman klossunum og segjandi brandara í gríð og erg. Þetta stefnir í fínan vetur allavegana í þessu fagi.

Svo er rosa busy helgi framundan, Guðrún systir að koma, við hagfræðistelpurnar ætlum að kíkja á nýnema-bjórkvöldið hjá Ökonomíu og svo er Ragga að halda upp á afmælið sitt á laugardaginn. Þetta verður s.s. frekar "blaut" helgi, eins og margar aðrar svo sem. Svo eftir helgina er "Sjöben" á dagskránni. Við ætlum að hafa upphitunarkvöld á mánudaginn á Tjörninni. Bryns ætlar að bjóða okkur út að borða og við ætlum að ákveða hin ýmsu themu, t.d. er búið að ákveða að það verður keppt um titilinn "Kokteildrottningin" og svo verða örugglega fleiri spennandi titlar í boði. Þetta verður s.s. allt ákveðið á mánudagskveldið.

Svo er skipulagning fyrir heimsreisuna miklu komin á fullt skrið. Erum nokkurnveginn búin að ákveða lönd sem við ætlum að fara til og búin að vera að lesa ferðablogg á fullu. Stefni að því að setja upp linkasafn hér á kantinum fyrir ferðaþyrsta að skoða. Margt brjálæðislega fyndið eins og t.d. hjá Hermaur sem kom svo í ljós að er Bogi sem er víst frændi minn. Frekar fyndið.

mánudagur, september 05, 2005

Helgin, skólinn og borgin

Já lífið er heldur betur að komast í réttar skorður aftur eftir ævintýri sumarsins. Skólinn byrjarður, ég búin að kaupa mér kort í ræktina og næstum því allar bækurnar. Ragga og Hörður eru svo að koma í mat til okkar í kvöld og Guðrún systir ætlar að vera hjá mér um helgina. Hlakka MEGA mikið til að fá hana til mín. Jafnvel að maður dragi hana með sér á háskóladjamm...

Annars vorum við fyrir norðan í réttum um helgina. Alltaf voða gott að komast aðeins í sveitasæluna. Kíkti líka á réttarball þar sem var mega stuð og fullt af fólki sem ég hef ekki hitt í áraraðir. Stína var mætt með allt klanið með sér í trylltu stuði og tjúttuðum við fram á nótt. Hún er svo farin aftur út og maður sér hana sennilega ekkert aftur fyrr en um jólin eða bara eftir áramótin þegar við strákurinn förum í ferðalagið.

Hvernig finnst mönnum annars að Gísli Marteinn vilji vera borgarstjóri? Ég er búin að vera aðeins að melta þetta og veit satt besta að segja ekki alveg hvernig manni á að finnast þetta. Hann er allavegana ágætlega myndarlegur annað en margir sem hafa setið í þessum stóli. Ég hef nú alla tíð verið hallari vinstri hlið stjórnmálanna þannig að ég er ósjálfrátt frekar svekkt yfir því að R-lista-dæmið sé búið. Fannst það frekar töff. En núna hafa s.s. Sjálfstæðismenn meiri líkur á því að vinna borgina og þess vegna verður maður aðeins að spá í það hvern af þessum jólasveinum maður vill helst fá sem borgarstjóra. Ekki það að ég sé eitthvað mega vel sett hérna í Kópavogi með Gunnar Birgisson. Ætli það sé ekki flest betra en hann ...allavegana svona útlitslega séð.