fimmtudagur, desember 27, 2007

Komnar inn nýjar myndir

Jólamyndirnar eru komnar inn á myndaalbúmið.
Allir að kíkja á það.

miðvikudagur, desember 26, 2007

Jólin, jólin...

Jólin hérna í sveitinni hafa verið æðisleg. Rólegheit og afslöppun eins og best verður á kosið. Þorláksmessa var með svipuðu sniði og venjulega, síðustu þrifin voru kláruð, nokkrar smákökur bakaðar og svo var auðvitað skreytt. Ég og Guðrún systir erum sérlegir skreytingameistarar og höfum mjög ákveðnar skoðanir á jólatrésskrautinu. Einkunarorð okkar eru: More is more og stöndum við okkur eins og hetjur í því að troða eins miklu skrauti á blessað tréð og hugsast getur. Það getur nefninlega verið hálf tricky svona undir restina að finna lausar greinar undir síðustu kúlurnar því eina reglan okkar er að það má ekki vera meira en eitt skraut á grein. Við höfum allavegana einhverjar reglur. Síðan var farið um allt hús með gamla skrautið sem safnast hefur í gegnum áranna rás, misjafnlega fallegt en allt með endlausa sögu. Hver hlutur á sér sinn stað þótt við systur höfum verið kærulausari þessi jólin með það en oft áður.

Á aðfangadag var svo soðið og borðað hangikjöt, með bestu lyst að sjálfsögðu. Þegar loksins átti að fara að borða sofnaði Magnea Ósk og svaf eins og engill þar til pakkarnir voru allir horfnir undan trénu. Litla krúttið fékk náttúrulega endalaust mikið af gjöfum, þótt hún hafi nú misst af því þegar þær voru opnaðar. Það er svo fyndið að hugsa til þess að næstu jól þá verður hún farin að hlaupa um og rífa kúlurnar af trénu og örugglega farin að segja nokkur orð. Mikið hlakka ég til.

Dagurinn í dag er svo búin að fara í ennþá meiri rólegheit. Harðskafi Arnaldar var tekin úr plastinu og er ég komin inn í hálfa bók. Hún verður kláruð á morgun. Við fengum okkur svo göngutúr um búið með Magneu í vagninum og kíktum á kálfa og kindur. Litla krúttið svaf af sér þessa fyrstu vettvangsferð og sá þess vegna ekki mikið af stórbýlinu. Svo er búið að spila Sequence sem Óli bróðir fékk í jólagjöf. Það er voða skemmtilegt spil og er ég ekki frá því að við kaupum okkur svoleiðis þegar við komum aftur suður. Indriði er búin að vera að lesa undir prófið sem hann fer í eftir áramótin. Er með voða þykka bók, How to crack the GRE, sem hann les samviskusamlega hvenær sem færi gefst.

sunnudagur, desember 23, 2007

Og daman fékk loksins nafn

MAGNEA óSK

...var nafnið sem varð fyrir valinu á prinsessuna. Erum búin að eiga yndislegan skírnardag í faðmi fjölskyldunnar. Litla prinsessan er búin að haga sér eins og engill, svaf eiginlega í gegnum alla athöfnina og brosti bara þegar hún opnaði augun. Hún mótmælti nafninu ekkert, virkaði ofsa sátt og glöð með það, enda svo sem ekki við öðru að búast. Foreldrarnir voru nú búnir að máta það á hana undanfarna daga. Að sjálfsögðu var dagurinn myndaður í bak og fyrir og erum við búin að setja inn brot af því besta á myndasíðuna. Allir að kíkja á það!

Kveðja úr sveitinni
Laufey, Indriði og Magnea Ósk

fimmtudagur, desember 20, 2007

Lokaspretturinn

Já það er bæði lokaspretturinn á síðustu ritgerðinni í ár og lokaspretturinn fyrir jólin.

Á eftir að skrifa svona 500 orð í þessari blessuðu ritgerð. Beið með það alveg fram á síðustu stundu að byrja á henni. Það var allt of notalegt að vera í jólastússinu, baka og hafa það huggulegt með litla skottinu mínu. Það var þess vegna frekar erfitt að setjast aftur niður og byrja að skrifa þessa blessuðu ritgerð. Hún er samt langt komin núna og það ætti að hafast að skila henni í kvöld. Við ætlum svo að leggja í hann norður á bóginn á morgun þar sem það stendur til að gefa skvísunni nafn á laugardaginn. Mamma er búin að vera sveitt heima í sveitinni að prjóna skrínarkjól sem ég hlakka ótrúlega til að sjá.

Litli strumpurinn okkar búin að vera hálf pirruð eitthvað. Tók nokkrar nætur í röð þar sem hún orgaði frá miðnætti til svona fimm um morguninn. Erum búin að vera að mixa allskyns til að láta henni líða betur. Ég búin að taka fullt út af matseðlinum hjá mér, hún komin með dropa frá grasalækni og svo kom hérna höfuðbeina og spjaldhryggs-galdrakona í gær sem ég held að hafi gert útslagið. Allavegana var hún miklu betri í nótt heldur en í fyrrinótt og svaf bara eins og engill. Fórum með hana í skoðun í dag og hún er orðin 5,4 kíló, litli stubburinn alltaf að bæta á sig fleiri og fleiri fellingum.

Annars er jólaundirbúningurinn nokkurnveginn búin. Búin að skrifa jólakort og senda. Búin að kaupa flestar jólagjafirnar og pakka þeim inn. Búin að baka 3 smákökusortir og borða flestar kökurnar reyndar líka. Þannig að þetta er allt að smella.

Það eru svo komnar nýjar myndir inn á myndasíðuna.

laugardagur, desember 08, 2007

...

Skólastaðan:
2 ritgerðir af 3 tilbúnar.
Próf á mánudag og miðvikudag.

* Búin að komast að því að það er meira mál en maður heldur að eiga lítið barn og vera í skóla.
* Er ekki búin að vera að standa mig eins vel og ég hefði viljað.
* Sem er bæði vegna leti og anna í ummönnun ungans.
* Ég hlakka mega til jólanna.
* Get varla beðið heldur eftir að það komi 21. des og þetta allt verði búið.
* Við keyptum okkur græjur um daginn.
* Búin að blasta jólalögin nánast á hverjum degi í tilefni af því.
* Við erum búin að setja upp jólaseríur inni og úti og orðið voða jólalegt hjá okkur.
* Litla skottan okkar verður mánaðargömul á morgun.
* Sem er afskaplega merkilegt finnst mér.
* Hún dafnar ótrúlega vel.
* Er búin að þyngast um rúmt kíló á þessum mánuði sem hún er búin að vera til.
* Sem er pínu mikið fyrir svona lítinn böggul sem var bara 3,5 kíló fyrir.

Ég er alveg orðin sjúk í að laumulesa blogg og ætla því að deila með ykkur hérna tveimur uppáhalds:

Tvíburamamman hún Ragnhildur finnst mér afskaplega skemmtileg. Skrifar aðallega skemmtilegar sögur af dætrum sínum tveim og gullkornum sem falla af vörum þeirra, stafablöðum úr skólanum og fleira. Afspyrnu skemmtilegt allt saman.

Matgæðingurinn Nanna er nágranni minn hérna á þessum hluta Grettisgötunnar og afskaplega skemmtilegur penni. Skrifar um mat, dægurmálin og barnabörnin sín, Boltastelpuna og Sauðagæruna.

Endilega skoðið þetta.

sunnudagur, desember 02, 2007

Fleiri myndir

Komnar aðeins fleiri inn á myndasíðuna. Erum svo að reyna að setja inn video af prinsessunni á Youtube. Kemur í ljós hvort okkur takist það seinna í kvöld.

Erum annars búin að eiga voða fína helgi. Guðrún og Óskar komu í heimsókn í gær og í dag og svo var stórfjölskyldan frá Króknum og mamma hérna fyrir helgina þannig að það er búið að vera voða mikið stuð hjá okkur. Lillan búin að vera frekar stillt bara fyrir utan gærkvöldið, skældi smá þá. Erum að vona að þessi magapína sé að verða búin. Svo er hún öll að steypast út í hormónabólum þessa dagana, voða rauðflekkótt greyið. Vonum að það fari aftur fljótlega.