föstudagur, nóvember 30, 2007

3 vikur

Já litli molinn minn er þriggja vikna í dag. Þessir dagar eru búnir að líða svo hratt mér finnst eins og í gær að hún hafi komið í heiminn. Mér finnst líka stundum eins og ég sjái hana stækka. Hún dafnar s.s. mjög vel, er farin að safna undirhöku og fellingum eins og vindurinn og verður meiri bolla með hverjum deginum sem líður. Enda finnst henni hvergi betra að vera en hangandi á bringunni á mömmu sinni. Hún er búin að vera með pínu magapínu undnfarna daga og hefur grátið voða sárt í verstu krömpunum. Sem foreldrunum finnst alveg hræðilega erfitt að hlusta á.

Fyrsta ritgerðin af 3 var kláruð í gær með dyggri aðstoð mömmu minnar. Litla dúllan er pínu sjúk í að láta halda á sér á daginn og mamma sá um það á meðan ég sat og skrifaði. Ef hún hefði ekki hjálpað mér þá hefði þetta aldrei tekist. Sem betur fer er Indriði komin í fæðingarorlof í næstu viku þannig að þá verður auðveldara að mixa það sem eftir er af skólanum. Mikið verð eg glöð 12. des þegar þetta verður allt búið.

þriðjudagur, nóvember 27, 2007

Spenningurinn...

Í dag snýst um hvort að flotta e-label peysan mín láti sjá sig með póstinum. Pantaði mér um daginn og er að vona að hún komi í dag. Var heillengi að velja mér, þetta er allt svo mega fínt hjá þeim þarna, en endaði á að panta mér Bursted balloon og er að vona að hún komi vel út.

Project dagsins er svo að reyna að komast eitthvað aðeins meira áleiðis með ritgerðina sem ég á að skila á fimmtudaginn.

Var svo að fatta að það er að koma Desember eftir örfáa daga. Alveg spurning að fara að dusta rykið af jólaseríunum og ljósaskreytingunum og skella þeim í gluggann. Dagarnir fljúga svo fljótt frá manni þessa dagana, maður fattar varla hvað tíminn líður hratt.

föstudagur, nóvember 23, 2007

Komnar fleiri myndir

Annars bara fínt að frétta.
Lillan dafnar vel.
Er reyndar búin að vera með pínu magapínu.
Mamma og pabbi voru í heimsókn áðan.
Við kíktum saman út í smá göngutúr í dag.
Keyptum garn í skírnarkjól sem mamma ætlar að prjóna á barnabarnið.
Annars bara snýst dagurinn meira og minna í kringum litlu píuna.
Og maður hefur svo sem ekkert afskaplega margt að segja fyrir utan sögur af henni.
Bleyjuskipti, blundar og brjóstagjöf.
Kannski betur um það síðar.

sunnudagur, nóvember 18, 2007

Ljúfa lífið

Það er víst ábyggilegt að lífið verður aldrei eins og það var áður. Á einni nóttu kúventist allt og tók nýja og betri stefnu. Litla ljósið okkar dafnar ótrúlega vel, sefur og drekkur og lætur foreldrana snúast í kringum sig eins og hún lifandis getur. Sem er ekkert nema gott því okkur finnst ekkert skemmtilegra. Hún er samt ótrúlega vær og góð og vakir og spjallar á daginn og sefur nánast allar nætur inni á milli þess sem hún drekkur. Við fórum með hana í fyrsta skiptið út í vagninum þegar hún var vikugömul og tókum smá hring hérna í hverfinu. Vorum nú ekki lengi, þorðum því ekki ef hún færi nú að skæla og heimta að fá að drekka á miðjum Laugarveginum, en litla skottið svaf eins og engill og fílaði sig bara vel í fínu kerrunni. Svo er hún búin að fara tvisvar í sturtu með pabba sínum og fílaði það líka bara voða vel. Setjum örugglega inn fleiri myndir í kvöld eða á morgun.

þriðjudagur, nóvember 13, 2007

Fleiri myndir

Við erum búin að bæta inn aðeins fleiri myndum inn á myndasíðuna.
Albúmið er læst með lykilorði og þeir sem vilja aðgang vinsamlegast sendið póst á netfangið efst til vinstri á síðunni og við svörum um hæl.
Kveðja
Laufey, Indriði og litla skvís.

sunnudagur, nóvember 11, 2007

Myndir

Nokkrar myndir af litlu dömunni.... fleiri myndir síðar.Kraftaverkið okkar

Takk kærlega fyrir allar fallegu kveðjurnar og smsin frá ykkur krúttin mín.

Já hún er loksins, loksins komin til okkar.
Litla undurfallega, fullkomna dóttir okkar.
Við erum gersamlega búin að vera í sjöunda himni og sitja og stara á litla kraftaverkið okkar.
Hún er það allra fallegasta sem við höfum nokkurn tímann augum litið.
Það tók á að koma henni í heiminn, klukkutímarnir voru margir og mamman orðin örþreytt undir það síðasta.
Þetta tókst samt að lokum með mikilli hjálp góðra manna og kvenna og smá þrautseigju.
Sársaukinn er að mestu gleymdur þótt við séum alls ekki að fara að gera þetta aftur strax.
Næturnar voru nokkrar svefnlausar í röð og erum við svona smám saman að skríða saman og safna orku aftur eftir átökin. Litla daman var þó eins og engill í nótt og leyfði foreldrunum að lúlla pínu.
Við ætlum að taka nokkra daga í að læra á hvort annað og kynnast og ná að jafna okkur eftir þetta allt saman áður en við tökum á móti fólki. Ætlum þess vegna að setja inn eins og eina eða tvær myndir seinna í dag til að svala forvitninni hjá helstu aðdáendunum.

Aftur kærar þakkir fyrir allar kveðjurnar
Luv Litla fjölskyldan á Grettisgötunni

þriðjudagur, nóvember 06, 2007

+1

Já hún er ekki stundvís daman. Enda svo sem ekki hægt að gera ráð fyrir því, ekki eru foreldrarnir stundvísir heldur. Þetta hlýtur nú samt að fara að koma bráðum, í versta falli eftir 13 daga. Þangað til er ég bara í því að leggja mig og horfa á tv. Skellti mér í smá leiðangur áðan, fór og hitti Bubbann á Kaffitár og svo husbandið í bakaríinu. Kíkti í 2 búðir og náði auðvitað að versla smá... enda ekki margt annað hægt að gera.

Svona í ljósi nýfenginnar áskrifar af Stöð2 þá verð ég nú að tjá mig um versta þáttinn sem ég hef hingað til horft á á þeirri ágætu rás. Vinningshafinn í hræðilegheitunum er án nokkurs efa hann Jói Fel og Ítalíu-ævintýri hans. Annan eins auglýsingaþátt hef ég aldrei á ævinni litið. Ég varð eiginlega svo hneyksluð að ég varð hálf reið. Ekki nóg með það að stöðin kosti í áskrift, það séu auglýsingar inni á milli í þættinum og að þátturinn sé sponsaður af ákveðnu fyrirtæki heldur er þátturinn hreinlega ein stór auglýsing á Ítalíu-vörunum frá Hagkaup. Það eina sem gaurinn gerir í þáttunum er að fylgja þessum vörum eftir, sjá hvar þær eru framleiddar og svo er náttúrulega endað á að elda upp úr þeim. Mér finnst þetta einfaldlega einum of gróft. Og ekki nóg með hvað þetta er allt sponsað og auglýst í botn heldur er gaurinn náttúrulega með því kjánalegra sem gerist. Með nýja, stolna tattooið sitt, í allt allt of litlu fötunum að þykjast vera kokkur þegar alþjóð veit að hann er bakari. Ég mæli með að fólk sleppi því að horfa á þennan þátt, hann er einfaldlega ekki þess virði.

sunnudagur, nóvember 04, 2007

Tomorrow, tomorrow...


...þetta er sko ekki ég á myndinni...

Já ef skvísan er stundvís þá lætur hún sjá sig á morgun. Sem ég er voða mikið að vona að hún geri, er pínu komin á síðustu orkudropana hérna með þessa risa bumbu framan á mér.

Annars bara fínt að frétta. Við hjónin skelltum okkur á Nordica í morgun og fengum okkur brunch, sem var algert æði. Varð mér samt smá til skammar í leiðinni... með lobbyið fullt af Eve online nördum þá skunduðum við hjónin beint framhjá öllum sem á okkar vegi voru, opnuðum dyrnar að veitingastaðnum og ruddumst inn. Föttuðum ekkert að það var kannski ástæða fyrir því að það var lokað, það var eiginlega ekki búið að opna, og á eftir okkur kom hrúga af fólki sem við höfðum labbað beint framhjá og biðu kurteislega eftir að verða hleypt inn. Pínu vandró ...eeeen engin náttúrulega þorað að gera athugasemd við frekjuna í svöngu ófrísku konunni sem var komin í hlaðborðshaminn. Sem er reyndar punktur, ég hefði ekki þorað það heldur.

Helgin er líka búin að vera mega róleg hjá okkur. Búin að liggja í hrúgu í sófanum fyrir framan sjónvarpið örugglega svona 80% af tímanum og hafa það huggulegt. Enda svo sem ekkert annað að gera þegar veðrið er eins og það er búið að vera og maður kemst ekki í nein föt lengur. Labbaði t.d. út í 11-11 áðan á náttbuxunum, alveg eðlilegasti hluturinn í heimi. Keypti líka heilan höldupoka af ís og nammi ...og uppskar miklar augnagotur hjá afgreiðslustúlkunni í kjölfarið. Langaði mest að segja henni að þetta væri sko ekki allt fyrir mig ...en sat á mér.

föstudagur, nóvember 02, 2007

3 dagar eftir

Til að stytta mér stundirnar svona á síðustu metrunum á þessari meðgöngu þá ætla ég að reyna að vera aðeins duglegri en ég hef verið hingað til að rita hérna nokkur orð. Og náttúrulega líka fyrir ykkur hin sem lesið í von um einhverjar fréttir af bumbunni.

En anyway... Það er s.s. ekki enn komið neitt barn. Vonandi verður þess nú ekki langt að bíða að daman láti sjá sig. Settur dagur á mánudaginn og ekki frá því að maður sé farin að bíða pínu. Geri mér nú grein fyrir því að það gætu hæglega verið rúmar 2 vikur í þetta. Held samt og vona að það sé ekki meira en svona vika. Það er nánast allt tilbúið, búið að pakka í töskuna, búið að kaupa bílstól og svona það helsta sem þarf og jafnvel eitthvað sem þarf ekki neitt. Vaggan klár og föt komin í skápinn osfrv... Það er kannski feill hjá manni að vera svona tilbúin, ef maður þyrfti að bíða í 2 vikur í viðbót.

Annars hafa síðustu dagar einkennst af rólegheitum hjá frúnni. Sofið frameftir, horft á sjónvarpið og nýtt nýfengin áskrift af Stöð2. Glæstar vonir t.d. komnar á dagskrá hjá manni á morgnanna. Kaffihúsin sótt og tíminn notaður til að hitta vinkonurnar og slúðra eins hægt er. Á bara eftir að skila 3 verkefnum í skólanum og er að vona að ég nái að klára allavegana 1 áður en barnið kemur. Er ennþá að reyna að mæta í tíma og finnst það voða fínt. Gott að hafa eitthvað fyrir stafni og einhverja dagskrá til að fara eftir. Tíminn líður hraðar við það held ég.

Fleiri fréttir síðar.