þriðjudagur, nóvember 28, 2006

Á skíðum skemmti ég mér

- Það eru að koma próf
- Eftir það koma jólin
- Ég hef ekki tíma til að vera til
- Samt kem ég engu í verk
- Á eftir að skila helling af verkefnum
- Próf-geðvonskan er alveg farin að segja til sín
- Meika ekki heimskt fólk
- Meika ekki fólk sem er í fílu
- Meika ekki fólk sem reynir að gera mann afbrýðissaman
- Meika ekki neitt
- Er samt að fara á Bessastaði á föstudaginn
- Sem mér finnst ótrúlega spennandi
- Þarf að kaupa föt á fimmtudaginn til að fara í til Dorritar
- Ég hlakka til að vera búin í prófum
- Mér finnst ekki gaman að læra
- Mér finnst að fólk eigi að vera gott við hvort annað
- Hættum að vera leiðinleg
- Ég skal hætta líka

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Ég er mætt í skólann

Ætla að vera hérna fram undir hádegi og þá er stefnan sett á rúmið mitt í smá leggju. Allt of erfitt að vakna svona snemma og fara út í kuldann. Hélt í gær að það væri ekki möguleiki á því að ég gæti verið hérna í dag. Tók því ráðin í mínar hendur, lét ekki bjóða mér þetta ástand lengur, fór á læknavaktina og fékk doktorinn til að skrifa upp á sýklalyf fyrir mig. Það hefur svona svínvirkað á mig og mér leið strax betur í morgun. Ætla samt að taka því rólega næstu daga. Má ekki við því að þetta veikindatímabil verði miklu lengra. Bara 21 dagur í fyrsta prófið og tími til komin að spýta í lófana og fara að gera eitthvað.

Áður en ég varð lasin þá var ég búin að sjá það í hyllingum að hanga heima í heilan dag með sængina mína fyrir framan sjónvarpið og láta mata mig á slæmu sjónvarpsefni. Það er óhætt að segja að ég er búin að taka það út. Einn dagur heima yfir tv er kannski allt í lagi en fimm eru aðeins of margir. Var orðin svo leið og depressed í gær að ég andaðist næstum því. Það var eftir að ég horfði á Maid in Manhattan. Kannski þess vegna.

Núna þegar veikindamóðunni léttir þá er það ískaldur raunveruleikinn sem starir í augun á manni. Þrjú skilaverkefni í næstu viku og eitt sem gildir 25% af lokaeinkunn. Glósurnar mínar liggja um alla “skrifstofu” eins og hráviði, ekkert skipulag, engin reiða á neinu. Það er allt í lausu lofti og nú er komin tími til að setjast niður og ganga frá lausum endum. Dagurinn í dag verður helgaður skipulagi og vonandi eins og einu verkefni. Það er að segja eftir lúrinn minn um hádegið. Kvöldið er svo Top Model kvöld. Lokaþátturinn í þessum yndislega þætti. Vonandi vinna “mínar” gellur þetta og ekki pjásan hún Jade. Ég meika ekki Jade.

Svo er litli gullmolinn minn hún Guðrún að koma til mín um helgina. Alltaf hefur hún lag á því að koma þegar ég er að vinna þessi elska. Hlakka samt ýkt mikið til að sjá hana, það er svo langt síðan síðast.

sunnudagur, nóvember 19, 2006

Pirrrrringur

Ég er ennþá lasin
Ég er að verða brjáluð á þessu
Ég nenni ekki meira hori
Getur einhver læknað mig?
Vill einhver halda mér félagsskap á morgun?
Plís...

laugardagur, nóvember 18, 2006

Veikinda-kokteillinn

Ekki datt mér í hug þegar ég skrifaði síðustu færslu að í tónleika-kokteilinn minn góða um helgina myndi bætast hor, hiti, beinverkir og almenn vanlíðan. Var svona ofur-stinn og fersk að læra á bókhlöðunni til átta á fimmtudagskvöld en komst svo ekki á fætur á föstudagsmorgun. Er búin að vera í náttfötunum síðan þá, fyrir utan þessar 3 klst sem ég dressaði mig upp og setti á mig maskara til að fara og sjá Molana. Sem voru geggaðir. Björk er búin að vera idol hjá mér lengi lengi, örugglega síðan ég var svona 9-10 ára og frétti að hún væri fjarskyld frænka mín. Þá tókum við Stína þá ákvörðun að við ætluðum að halda upp á Sykurmolana, fyrst konan væri nú skyld okkur. Man samt að ég fílaði aldrei hann Einar, hélt því fram að bandið væri betra án hans. Það var svo fyrst í gær sem ég fattaði hann. Hann meikaði einhvern veginn sens, svona í fyrsta skipið. ...eða kannski var ég komin með óráð af hita þarna í þvögunni.

Veit einhvern um skothelt ráð til að losna við þessa flensu helst á svona 12-24 tímum. Hef ekki tíma í þetta vesen!

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Tvisvar sama dag

Já það er BARA af því ég á að vera að læra. Vildi bara benda á bloggið hennar Guðnýjar minnar. Hún er nú alveg fyndnust í heiminum og það verða allir að lesa 2 nýjustu færslurnar hjá henni. Á barmi taugaáfalls og horfandi dauðann í augun er hún samt fyndnust í heimi. Love U Guðný !

Dots ...með myndum


* Helgin hjá hjónunum á eftir að einkennast af tónleikum og meiri tónleikum
* Á föstudaginn ætlum við að dilla okkur við tónlist Sykurmolanna
* Á laugardaginn ætlum við að sitja á fremsta bekk í Fríkirkjunni og láta heillast af Sufjan Stevens
* Seven Svans platan hans er búin að vera á repeat í Ipodinum undanfarið
* Þegar við fórum norður um daginn þá var Best of Sugacubes á repeat í bílnum
* Ég ætla samt að vera rosalega dugleg að læra
* Og ég verð að klára að skrifa greinina mína fyrir Stúdentablaðið
* Það kemur út 1. Des, allir að muna að lesa það!
* Það eru 27 dagar í fyrsta prófið mitt
* Ég er farin að hlakka enn meira til jólanna
* Hlakka til að liggja og gera ekki neitt nema borða og lesa og hafa það huggulegt
* Er ekki að meika þennan rosalega kulda úti
* Fraus næstum því í hel á leiðinni í skólann í morgun
* Og fauk næstum því líka
* Ég held líka að líkaminn á mér vilji leggjast í hýði
* Kem mér ekki á fætur á morgnanna
* Ef ég mætti þá gæti ég eflaust sofið allan daginn
* Það er orðið svo ótrúlega dimmt og kalt þegar maður þarf að fara af stað
* Er búin að kaupa kort í ræktina
* Þorði ekki að fara fyrr út af sárunum eftir fæðingablettina
* Það rifnaði eitt upp um daginn og ég fékk ígerð í það
* Sem var ógeðslegt og ekki gott
* Ætla að vera dugleg að fara og hreyfa mig núna á kvöldin
* Það er svo gott fyrir mann
* Og svo verð ég að fara að sporna eitthvað við þessari fitnun
* Verð hnöttótt fyrir sumarið með þessu át-áframhaldi
* Það er nefninlega svo ótrúlega slæmir át-tímar framundan
* Próf = nammi
* Próflok = ofneysla áfengis
* Jólin = almennt ofát á öllu
* Mig langar til útlanda
* Mig langar til útlanda
* Mig langar til útlanda
* Svona til að leggja áherslu á það sem mig langar mest að gera af öllu
* Ég er búin að gera jóla-óska-lista fyrir husbandið
* Hann er komin á ísskápinn heima
* Hann samanstendur af 7 atriðum
* Sem ég ætla ekki að telja upp hér, en það er allt mjög flott
* Ég er að fara í partý á Bessastaði 1. Des
* Dorrit er búin að bjóða mér til sín í drykk
* Og ég er strax farin að spá í hvaða outfitti ég á að fara
* Hey come on þetta er Dorrit sem við erum að tala um!
* Er farin að þjást af angist á frekar háu stigi yfir öllu sem ég þarf að gera
* Verkefni, ritgerðir og endalaus skil sem bíða manns
* Og mig langar eiginlega frekar að vera heima að baka og skreyta
* Á ekki eftir að gera neitt jóló fyrir þessi jól frekar en áður
* Hlakka til að geta gert svoleiðis þegar ég er farin að vinna
* Verið góð við hvort annað krúttin mín
* Og verið dugleg að hlýja hvor öðru í kuldanum
* Bbrrrrrrrr
* Luv Laufið

þriðjudagur, nóvember 14, 2006

The cool hunter

Image
Þegar maður á að vera að læra þá er, eins og alþjóð veit, mjög freistandi að gera eitthvað annað. Það sem ég fell helst fyrir er að skoða allskyns vefsíður. Í flestum tilfellum er þetta afskaplega mikil tímasóun og maður sér ekkert merkilegt. Endrum og eins sér maður þó eitthvað svalt sem vekur áhuga manns. Eitt slíkt sá ég í dag.

Á síðunni hjá Cool hunter sá ég umfjöllun um Svölu Björgvins og Einar kærastann hennar. Þau eru í hljómsveitinni Steed Lord, auk þess sem þau þeyta skífum undir merkjum Susie og Elvis. Þetta er ótrúlega flott síða sem fjallar BARA um eitthvað sem er flott, er alþjóðleg og ótrúlega margir skoða. Það má því segja að Svala og Einar séu nýjasta It-ið úti í heimi sem vekur óneitanlega upp heljarinnar býsn af þjóðerniskennd í litla íslendingshjartanu.

Svo er reykjaviklooks.blogspot.com líka frekar flott síða sem fjallar um götutísku í Reykjavík. Á síðunni eru linkar á aðrar síður sem eru að fjalla um klæðarburð fólks í öðrum borgum.

mánudagur, nóvember 13, 2006

Gleðin


Gleðin var sko mikil um helgina, og lærdómurinn þaðan af minni. Var að vinna á föstudagskvöldið með rúsínubollunum mínum á La Primavera. Eftir það var brunað á Bræðraborgarstíginn og þar biðu stuðboltarnir mínir spenntir eftir mér. Kvöldið var svo eitt stórt hláturskast, spjall og gleði. Við strunsuðum á milli baranna og höfðum gaman. Guðný er búin að setja inn myndir frá kvöldinu. Erum við Margrét ekki sætar?


Laugardagurinn átti að einkennast af lærdómi, sem hann gerði ekki. Við strákurinn fórum í bíltúr og í búðina og svo í kaffi til Röggu og Harðar. Ég fékk að knúsa uppáhalds-börnin mín aðeins, þau Dagnýju Björk og Veigar Már, þau eru svo ótrúlega sæt og góð. Merkilegasti atburður dagsins er sennilega sá að við fjárfestum í höldum á innréttinguna sem verða vonandi settar á næstu daga. Um kvöldið fórum við svo í Laugardalshöll í 35 ára afmæli Ístaks. Það var rosa stuð. Gaman að sjá fólkið sem strákurinn er búin að vera að vinna með og tala um síðustu árin. Eftir gleðina þá var stefnan tekin niður á Næsta-bar þar sem Auður og Andrés voru. Við sátum með þeim og kjöftuðum til svona 3.

Í gær tókst mér samt að læra smá. Alls ekki nógu mikið en samt smá. Hápunktur dagsins var að sjá Borat. Ég hélt að ég myndi annað hvort kafna eða gubba úr hlátri hún var svo fyndin. Sjúklegasta nektaratriði sem ég hef á ævinni séð ...og ég hélt í alvörunni að ég myndi gubba. Þeir sem vilja hita sig upp áður en þeir fara geta séð fullt af brotum með honum á YouTube. Það verða sko allir að fara og sjá Borat ...high five!

Ég vil líka benda fólki á pistilinn hans Hallgríms Helgasonar í Fréttablaðinu í dag. Ótrúlega fræðandi og góð upprifjun svona á kosningavetri.

föstudagur, nóvember 10, 2006

Helgin - dagskráin framundan

Já það er once again komin helgi, fyrr en nokkurn hefði grunað, og því er rétt að huga að dagskránni sem fyrir liggur. Stór hluti hennar er helgaður Bókasafninu og ekkert sérstaklega spennandi en inn á milli leynist samt eitthvað fjör.

Föstudagur:
Pían stefnir á hár-umbætur seinnipartinn.
Vinna um kvöldið og svo ætla ég að hitta píurnar, vinkonur mínar. Guðný, Steinunn og Margrét Ágústa, ásamt öðru góðu fólki, koma til með að bíða spenntar eftir dömunni þegar vinnukveldinu líkur. Ætli stefnan verði ekki sett á K-barinn eða 11-una eða einhvern af öðrum börum bæjarins. Ég er ýkt spennt.

Laugardagur:
Læra læra læra
Dinner and dancing.
Afmæli hjá Ístak og því fer maður í sitt fínasta púss. Setur kannski á sig naglalakk og augnskugga, fer í hælaskó og drífur sig í Laugardalshöll þar sem krásirnar bíða og Milljónamæringarnir spila fyrir dansi fram á nótt.

Sunnudagur:
Læra læra læra

Annars gengur mér svo vel í skólanum þessa dagana að ég þarf kannski ekkert að læra neitt. Var að fá ritgerð til baka í Inngangi að heimspeki og fékk 9, fékk 10 fyrir verkefni í Eignastýringu um daginn og 8,3 í prófi í sama áfanga. Er svo ýkt klár og mikið náttúrutalent í skólaspekinni. Mín alveg að fara á kostum. Eða er þetta kannski bara spurning um að maður sé loksins komin á lagið með að koma frá sér texta og læra að fara eftir leiðbeiningum í verkefnavinnu. Það er spurning.

miðvikudagur, nóvember 08, 2006

Heimur versnandi fer


Já mér finnst þetta bara ótrúlegar fréttir og veit varla hvort ég á að hlæja eða gráta.

Það eru bara allir að skilja í Holly. Fyrst Reese og Ryan og svo núna Britney og Kevin. Ég er samt ótrúlega sátt við Brit að vera loksins búin að losa sig við lúðann. Hefði átt að vera löngu búin að gera það og sleppa því kannski að eignast þetta barn no. 2. Ef einhver er hvítt rusl þá eru það þau tvö. Hyskis hyski...

Eruð þið ekki miður ykkar?

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Neue fotos


Strákurinn var að setja inn nýjar myndir, bara nokkrar en rosa flottar. Allir endilega að skoða þær.


Annars er stefnan sett á að fara í Laugar annað kvöld og fjárfesta í eins og einu líkamsræktarkorti. Er ekki batnandi fólki best að lifa og allt það...? Hverjir eru í Laugum og ætla að koma með mér í ræktina?

Helgin og hommarnir


Já er það ekki venju samkvæmt skylda að fara hérna yfir það sem helst bar á góma yfir helgina?

Við skelltum okkur norður á föstudaginn þrátt fyrir vonda veðurspá. Við brunuðum á kagganum af stað og var fyrsta stoppið í sveitinni hjá m&p. Þau gömlu voru hress að vanda, vinnulúin og þreytt, en til í líflegar umræður. Við matarborðið var nefninlega rafvirki sem verður að teljast með fordómafyllri mönnum sem ég hef fyrir hitt. Hann byrjaði á hommum (og ekki einu sinni spyrja mig af hverju umræðurnar fóru út í þetta). Hann vildi meina það að samkynhneigðir væru kynlífssjúkir upp til hópa og notuðu hvert tækifæri sem gæfist til að troða sinni kynhneigð og sínu kynlífi framan í alla sem fyrir væru. Það er óþarft að taka það fram að í þessu var ég honum MJÖG ósammála. Hann kom með mörg gullkorn sem voru meðal annars sú að það ætti að "lækna þetta fólk" og það sem mér fannst best: "ég er ekkert á móti hommum, ég er bara á móti samkynhneigð og því sem hommarnir standa fyrir. Alveg eins og ég er á móti stríði en hef svo sem ekkert á móti hermönnun". Alveg eins og það er alþekkt og ótrúlega eðlilegt að hafa ekkert á móti ástföngnu fólki en hata samt ástina. Hann sagðist eiga fimm börn og vona ég svo sannarlega að fordómar hans og fáfræði erfist ekki til þeirra. Ég gerðist meira að segja svo kvikindisleg að segja við hann að ég vonaði að eitthvert af þessum börnum hans ætti eftir að koma út úr skápnum svo hann myndi neyðast til að verða víðsýnni. Meira fólkið...


Svo í bálviðrinu á sunnudaginn blossaði upp annað fordómabál og allt varð vitlaust í málefnum innflytjenda. Þessi blessaða ríkisstjórn er náttúrulega með skítinn upp á bak í þessum málaflokki. Það þýðir ekkert að búa svo um í hagkerfinu að hérna sé endalausa vinnu að fá þannig að það flykkjist hingað fólk og svo sé EKKERT gert til að taka vel á móti því. Það þarf að veita fé til þess að taka vel á móti fólki sem vill flytja hingað og setjast hér svo það aðlagist íslenskum veruleika og lífinu hér.

Ég hitti einn gamlan góðan vin minn um helgina sem ég hef hitt á fáránlegustu stöðum. Einu sinni t.d. á flugvellinum í Frankfurt og þá var ég ekki búin að hitta hann í mörg ár. Í þetta skiptið var hann á nýja Mælifelli á Sauðárkróki en maður varð náttúrulega að kíkja á nýja fína staðinn. Hann Egill er algert æði, sjúklega fyndinn og það var æðislegt að hitta hann aftur. Ég var líka með harðsperrur í andlitinu á sunnudaginn ég hló svo mikið.

föstudagur, nóvember 03, 2006

Mr. Laufar Hópverkur

--==Punktablogg // Long version==--
- Er búin að vera að vinna hópverkefni í vikunni og erum að skila því í dag. Það er búið að ganga ótrúlega vel þrátt fyrir mjög hátt pirringsstig strax í byrjun hjá yours-truly.

- Það er svona over-all búið að vera frekar stutt í pirringinn alla vikuna. Greyið husbandið er búið að fá að finna fyrir því. Allt og allir búinir að fara í taugarnar á mér og ég búin að vera frekar bitur og döpur eitthvað. Kannski pre-hópverkefnis-kvíði ...já ég verð að klíka sökinni á eitthvað er það ekki...

- Erum að fara norður um helgina. Hlakka bara temmilega mikið til. Þarf reyndar að læra HELLINGS og lesa fullt þannig að þetta verður ekki bara endalaust kaffiboð og grín. Svo stefnir í brjálað veður á sunnudaginn þannig að það er spurning hvort við komumst heim á tilsettum tíma.

- Mig langar til útlanda. Mig langar að heimsækja Stínu vinkonu mína til Brussel eða fara í rómó helgarferð til Köben.

- Ég kemst stundum ekki yfir það hvað ég get verið endalaust mikill lúði. Er ennþá að tala í mig kjark til að setja inn ofur-lúða-söguna og segja frá hvað kom fyrir mig á Prikinu um daginn. Það gerist ekki mikið lúðalegra en það, þið eigið eftir að deyja úr skömm. Dúddamía...

- Ég er búin að vera að skoða post-graduate nám á fullu. Er búin að vera að panta bæklinga eins og óð kona á netinu og er alltaf að skipta um skoðun hvað mig langar að læra.

- Ætla að vera rosa rosa rosa dugleg að læra alveg fram að prófum. Í dag eru 40 dagar í fyrsta prófið mitt og maður getur gert helling á 40 dögum. Er það ekki örugglega? Ég þarf allavegana alvarlega að hrækja í lófana ef ég á að ná að klára þetta allt með stæl um jólin.

- Fengum fyrstu hringinguna okkar varðandi prófkjörs-maníuna í gær. Greynilegt að bláa höndin er hvergi með okkur strákinn á lista hjá sér. Þetta símtal var reyndar ekki til neins. Erum búin að færa lögheimilið okkar úr Kópavogi og getum þess vegna ekki kosið Guðmund Steingríms fyrir hann Reyni okkar.

- Það er komin vetur og það eru örfáir dagar í jólin, kannski svona 52.

- Er búin að vera svo busy þessa síðust daga að dagbókin mín er orðin ómissandi partur af lífinu. Ef ég hefði hana ekki þá væri ég búin að beila á svona helmingnum af dótinu sem ég er búin að lofa mér í. Ég er búin að vera með stanslausa dagskrá frá morgni til kvölds með nánast engum hléum og búin að takast að standa við nánast allt. Ég er reyndar búin að vera að reyna að komast í kaffi með Guðnýju Gellu alla vikuna og það hefur ekki ennþá tekist hjá okkur. Ég fæ að bóka tíma hjá þér á mánudagskvöld er það ekki ljúfan?

- Góða helgi people og verið góð við hvort annað

- Luv to you all

fimmtudagur, nóvember 02, 2006

Framtíð Íslands

Ég ætla að koma með svar við spurningum Bubbans hérna í pistlaformin, enda er kommentakerfið allt of smátt í sniðum fyrir svona herlegheit. Þannig að ...here goes:

Framtíðarlandið:
Var ÆÐISLEGT, píndi strákinn með mér á ráðstefnuna sem var eins og vitrun fyrir hrifnæma manneskju eins og mig. Fyrirlestrarnir voru ótrúlega spennandi og fróðlegir og veltu upp endalausum möguleikum um ráð til að gera Ísland að betra landi. Það eru bara óteljandi möguleikar fyrir Ísland sem heild, aðrir en virkjanir og álver. Andri Snær Magnason reið á vaðið og var með fyrstu töluna undir heitinu Stóriðjulandið sem fjallaði um hvað er raunverulega á teikniborðinu í virkjunarmálum landsins, sem var allt hræðilegt. Í kjölfarið á því kom verkfræðingur og talaði um frumkvöðla og nýsköpun. Margrét Vilhjálms og Sólveig Arnarsdóttir stigu svo á stokk og fjölluðu um gildi lista og menningar og eftir þeim talaði Sigríður Þorgeirsdóttir um Menntalandið Ísland. Fyrirlesturinn hennar var stórkostlegur (enda er hún heimspekingur). Hún hélt ótrúlega inspirerandi ræðu um menntun og gildi háskóla og af öllum fyrirlestrunum finnst mér hennar standa upp úr, enda uppskar hún mikið lófaklapp og fagnaðaróp. Ég er búin að skrá mig í samtökin en er ekki búin að ákveða á hvaða sviði ég væri til í að starfa, ég er alls ekki til í að skrá mig í neinn stjórnmálaflokk en þetta er ég sko til í að skrá mig í. Ég vilj kvetja alla til að skoða síðuna þeirra www.framtidarlandid.is og kynna sér hvað þau hafa fram að færa.

Heimspekin:
Finnst mér frábær. Það er svo ótrúlega breiður hópur sem er með mér í tímum, allskyns fólk, ungt og gamalt og með mismunandi lífsskoðanir. Ég er svo sjúk í margbreytileika, finnst gaman að þekkja fólk sem er öðruvísi en aðrir, fólk sem þorir að ögra ríkjandi skoðunum. Mér finnst líka eitthvað svo frábært að lesa um alla þessa karla og konur sem voru fyrir óralöngu síðan að velta fyrir sér sömu spurningum og við erum að spyrja okkur í dag. Mér finnst líka að það ætti að vera skylda fyrir alla að taka einhverja áfanga í heimspeki. Það er svo mikið verið að fjalla um gildi, lífsskoðanir og lífssýn, einkenni góðs lífs og þar fram eftir götunum. Fólk þarf stundum að staldra við og spyrja sig að því hvað það er sem skiptir máli í lífinu, hvað einkennir gott líf. Mér finnst líka eitthvað afskaplega heillandi að læra "hin fyrstu fræði" í bland við það sem gæti verið kallað "nýjustu vísindin". Þannig að í stuttu máli er ég að fíla heimspekina í botn. Mér finnst kennararnir frábærir. Gunnar og Róbert eru með bestu kennurum sem ég hef haft og mér finnst námið skemmtilegt.

Bubbi ég sakna þín rosa mikið!