Honey I´m home...
Maður er víst lentur á klakanum, fyrir nokkrum dögum síðan, og búin að vera í fullu djobbi við að hitta fólk og koma sér fyrir síðan þá. Flest allir kassarnir eru komnir úr geymslunni og við erum búin að hitta innsta hringinn i vinahópnum, búin að borða óheyrilegt magn af góðum mat og drekka fullt af góðum drykkjum með. Indriði er farin að vinna aftur en ég er mætt á bókhlöðuna í netsambandið og er að í óða önn að reyna að finna mér vinnu. Verð nú samt að segja að það er frekar skrítið að vera stödd hérna án þess að vera með svo mikið sem eina námsbók í farteskinu. Venjulega er maður svo klifjaður af glósum og bókum að maður meikar það varla upp stigana.
Ritstíll þessarar blessuðu síðu fer nú samt örugglega fljótlega að breytast. Verð sennilega að stytta pistlana og færa innihald þeirra yfir á aðeins hærra plan þar sem ég efast um að margir hafi áhuga á að vita hvað ég er að gera frá degi til dags í Reykjavík. Útlit síðunnar kemur svo sennilega líka til með að breytast, þetta er víst ekki lengur "Ferðasaga hjónanna" þar sem ferðalagið er búið. Lýsi ég því hér með eftir heppilegri fyrirsögn á síðuna, allar tillögur verða vel þegnar og verðlaun í boði fyrir þá bestu.