mánudagur, mars 29, 2004

Helgin

Jæja nú er helgin búin og kaldur mánudagurinn er aðeins of mikið fyrir mig þreyttu í dag.
Það var rosa fínt fyrir norðan, gert alveg ferlega lítið og borðað alveg ferlega mikið. Við kíktum á Kaffi Krók á laugardagskvöldið, blakliðið var að hittast og ég fékk að fara með. Öllum að óvörum lentu þeir í 3.sæti á mótinu, skrópuðu náttúrulega í verðlaunaafhendingunni þannig að þeim var afhentur bronspeningur á Kaffi Krók. Allir rosa stoltir með peninginn um hálsinn. Alveg merkilegt samt hvað maður þekkir orðið fáa þarna fyrir norðan, einu krakkarnir sem maður kannast við eru þeir sem voru í dansi hjá Svanfríði hérna í denn þegar ég var að vinna hjá henni. Þá voru þau kannski 11 og ég 18. ...sorglegt!! Og eina fólkið sem strákarnir þekktu voru Krækjurnar og 2 nýjir kennarar við Fjölbraut sem voru með þeim í Háskólanum. Mikið rosalega er maður orðin gamall!!
Gunni og Árni fengu svo far með okkur suður aftur í gær. Við stoppuðum aðeins í sveitinni heima hjá mér á leiðinni. Ég var að skoða síðuna hjá henni Guðrúnu systur minni hún er farin á tjá sig á netinu eins og svo margt annað gott fólk. Mamma var búin að baka heilu haugana af bolludagsbollum fyrir bróður minn sem átti afmæli á fimmtudaginn. Þetta var víst það eina sem drengurinn vildi í tilefni dagsins þannig að við nutum góðs af því. Ég var líka í Indlandi þegar bolludagurinn var og missti því af honum. Ég, Indriði, Gunni og Árni fórum svo öll á American style þegar við komum í bæinn og svo heim til Árna og spiluðum Catan til hálf 12 í gærkvöldi. Ég tapaði náttúrulega, enda hvorki mikill landnemi né sæfari. Árni rétt marði sigur en þurfti að berjast fyrir honum við Gunna og Indriða. Það verður re-match bráðum og þá ætla ég að SIGRA...

laugardagur, mars 27, 2004

Sveitin góða og afslappelsið

Jæja þá er maður búin að liggja í leti á Króknum í heilan dag. Það er alveg meiriháttar hvað þetta er alltaf afslappandi að fara svona út fyrir höfuðborgina, það er eins og tíminn sé helmingi lengri að líða en venjulega. Horfði á Bold maraþonið í hádeginu og er síðan búin að gera eiginlega mest lítið, rúntaði smá og kíkti einn hring í Skaffó. Stráka greyin í blakfélaginu töpuðu öllum leikjunum nema einum í íþróttahúsinu í dag og búningarnir vöktu mikla lukku. Þarf eiginlega að útvega mér mynd af þessum frábæru búningum til að þið skiljið hvað ég er að tala um. En svona til að þið fáið smá hugmynd um þetta þá eru þeir tvílitir, limegrænir og bónusbleikir og framan á búningnum er risastór gulur broskall. Er svo búin að vera að rembast við að koma hérna upp teljara og gestabók sem er búið að ganga svona upp og niður. Ef einhver þekkir einhver góð ráð þá eru þau vel þegin.
En jæja, lærið er komið í ofninn og það stefnir í svakalega máltíð hérna eins og vanalega.

Tónleikar, Krókurinn og Eddie

Jæja þá er maður kominn á Krókinn. Vorum hérna síðast um jólin held ég, þvílíkt langt síðan allavegana. Blakmót hjá stráknum á morgun og svona þannig að ég sé ekki mikið af honum. Fékk að sjá þessa margumtöluðu búninga í fyrsta skiptið í kvöld, alls ekki flottir. Ljómi San, Human highlight show og Regnmaðurinn, allt meðlimir í blakfélaginu H-fleyg, fengu far með okkur.
Fólk hefur eitthvað verið að gera grín að því að ég, sjálf gamla konan, sé að fara á Sugarbabes-tónleikana með öllum unglingunum. Ég held að það sanni bara best hvað ég er enn ung í anda ;o) ...eða þannig. Í tilefni af því ætla ég að lista upp topp 5 tónleikana sem mig langar til að fara á:
1. Madonna ...surprise!
2. Michael Jackson
3. Justin Timberlake og Christina Aguilera
4. 50 cent og Eminem
5. Pearl Jam
Liður no. 5 er til heiðurs Eddie, leynifélaginu sem ég er stofn-meðlimur í. Fyrir þá sem vilja komast inn í það félag, þá gilda strangar reglur um aðgang og aðeins örfáir sem eru gjaldgengir.
Annars er það helst í fréttum að ég tók mér frí í vinnunni í dag. Átti ennþá eftir 5 sumarfrísdaga síðan síðasta sumar og datt í hug að spandera einum í dag. Svaf út og hitti svo baby-klúbbinn, Eyrúnu og Eggert Aron, Völu og Júlíu og Röggu og Veigar Már, í hádeginu heima hjá Eyrúnu. Rosa gaman að hitta þær, Eyrún skvísa náttúrulega með hlaðið borð af veitingum og rosa mikið spjallað. Fannst ég samt eitthvað pínu úr takti við hinar því ég var ekki með krakka með mér. Kíktum í gærkvöldi á Röggu og Hörð og horfðum á Sex in the city, sem er að verða svona weekly-thing hjá okkur. Hörður forritari gaf mér nokkur góð tipps um hvernig ég get prófað mig áfram í þessu öllu saman. Mange takk fyrir það!

fimmtudagur, mars 25, 2004

Subarbabes, ellismellir og pólitík

Nú fer nú alldeilis að styttast í Sugarbabes tónleikana, bara 2 vikur þar til skvísurnar stíga á svið. Fékk smá taugaáfall um daginn, hélt að ég yrði úti þegar tónleikarnir væri, var nefninlega búin að bóka síðustu ferðina á þessu tímabili til Bretlands 5.-7. Apríl en sem betur fer eru tónleikarnir ekki fyrr en 8. Váááá hvað það verður gaman hjá okkur!!
Eitt sem hefur vakið furðu mína þessa síðuastu daga er allt þetta gamla lið sem er keyrandi á götum borgarinnar. Flest þetta fólk tók bílpróf þegar það var ekki til eitt einasta umferðarljós, engin hringtorg, kannski ekki einu sinni malbikaðar götur og hvað þá hámarkshraði yfir 50. Svo er það orðið svo gamalt að það sér ekki hálfa sjón og er með viðbragðsflýti á við skjaldböku sbr. gamli maðurinn sem keyrði inn í búðina þarna um daginn. Á ekkert að gera í þessu máli?
Ein skvísan spurði mig um daginn þegar ég tilkynnti henni að ég ætlaði að skella mér í blogg-væðinguna hvort þetta yrði pólitískt-blogg. Ég hugsa að ég geti ekki dulið mína innri sannfæringu í þessum skrifum mínum þannig að þetta verður að öllum líkindum frekar pólitískt á köflum. Ég ætla samt ekki að fara neitt frekar út í það núna, það vita það nú sennilega flestir sem þekkja mig í hvora áttina ég hallast.

miðvikudagur, mars 24, 2004

Blogg, celebbar og skólagjöld

Fyrsti "blogg dagurinn" fer ágætlega af stað. Ekkert brjálað að gera í vinnunni akkúrat núna þannig að maður getur leyft sér að vera pínu kærulaus.
Það er alveg merkilegt hvað það þarf lítið til að vera "celebrity" á þessu litla skeri okkar. Það sem sannar það hvað best er nýji framkvæmdastjóri Hard Rock. Hann var í blaðinu í gær og í blaðinu í fyrradag og svo var símaviðtal við hann í Ísland í bítið í morgun. Allt út af því að hann ætlar að lækka tónlistina sem spiluð er á þessum ágæta veitingastað. Þetta finnst mér alveg ótrúlega fljótfengin frægð fyrir lítið tilefni. Það verður jú að viðurkennast að hann er ágætlega myndarlegur þessi maður og það hefur því kannski hjálpað honum inn í blöðin en þetta símaviðtal í morgun fannst mér með því furðulegra sem ég hef orðið vitni að. Síðan hvenær varð það fréttnæmt að á einhverjum stað úti í bæ væri takka snúið sem stæði "volume" fyrir ofan. Ég stóð í þeirri meiningu að það gerðist æði oft.
Annars verð ég að nota hérna tækifærið og lýsa yfir ánægju minni með skólagjaldamálið. Þeir sem eru áhugamenn um þetta mál geta lesið sér meira til um það hjá henni Auði Háskólalistakonu.

þriðjudagur, mars 23, 2004

Tilraunir

Linkur hér og annar hér

Orðið þvílíkt flott

Jæja núna er ég búin að bæta inn linkum og svona, þetta orðið aðeins flottara en áðan. Rosalega verð ég góð í þessu :)

Fyrsti dagurinn

Jæja gott fólk hérna er fyrsta færslan