þriðjudagur, september 28, 2004

Skólalífið og helgin framundan

Já ég sit hérna yfir heimadæmum í stærðfræði og hreinlega get ekki meira. Andhverfur, ákveður og undirákveður, hjáþættir, raðtölur og skalarstærðir þetta er allt farið að renna saman í höfðinu á mér. Er svona aðeins að byrja að fríka út yfir öllu sem er framundan, 4 próf og ein ritgerð sem gildir 60%, og allt þetta á næsta mánuði. Er að fara á fimmtudaginn á ráðstefnu hjá KB banka um húsnæðislán í heimildaöflun fyrir ritgerðina. Verð að fara að verða duglegri að læra.

Erum að fara norður næstu helgi, eða á laugardaginn e. dæmatímana. Það verður brenna í sumarbússtaðnum og einhver veisla ef ég þekki tengdafólkið mitt rétt. Hlakka rosa mikið til að fara og slaka aðeins á.

Í neytendahorninu í dag ætla ég að mæla með íslensku kvikmyndinni Dís. Við Ragga vinkona skelltum okkur um daginn og hlógum okkur máttlausar. Svona án gríns þá hefðum við getað verið að gera þessa mynd hún hitti á svo rosa marga punkta sem við erum búnar að vera að spjalla um. Hún missti reyndar aðeins flugið eftir hlé, frekar mikil tilvistarkreppa komin í hetjuna, en myndin var góð fyrir það.

fimmtudagur, september 23, 2004

Flensufréttir

Já það er orðið opinbert, ég er komin með flensuna. Ligg hérna heima núna með hálsbólgu, beinverki og hita uppi í rúmi, dúðuð í flíspeysu, með trefil og í dúnsokkunum mínum. Hef reyndar ekki orðið veik núna í svolítið langan tíma þannig að það hlaut að koma að þessu. Ætli ég hafi ekki náð mér í þetta í gerlapottinum í sal 1 í Háskólabíó, svona svipað og þegar maður verður veikur eftir að hafa verið í flugvél. Er ekki alveg að meika að hanga svona heima og hafa ekkert að gera, enda verð ég sjaldan eins geðvond og þega ég er lasin. Annars eru dúnsokkarnir alveg að bjarga mér núna, ég er held ég fótkaldasta manneskja á jörðinni. Jæja, ætla að fara og leggja mig og reyna að ná þessu úr mér. Verð nefninleg að mæta í tvöfaldan dæmatíma í stærðfræði á morgun, sama hvernig ástandið verður.

miðvikudagur, september 22, 2004

Sígaunaeðlið og neytendahornið


Það er alveg merkilegt hvað ég fæ alltaf þá tilfinningu á haustin að ég þurfi að drífa mig og flytja eitthvert annað. Núna t.d. er ég búin að vera óstöðvandi á netinu að skoða fasteignir á mbl.is. Búin að panta mörg söluyfirlit og er endalaust að rúnta um hin ýmsu hverfi bæjarins og skoða hús sem eru til sölu. Þetta er orðið svo slæmt að það jaðrar við þráhyggju. Og ég fæ nánast undantekningarlaust þessa rosa sterku tilfinningu á haustin. Kannski af því af því að á haustin hérna áður fyrr þá var maður oft að flytja sig um set, fara í skólann og svona. Ætli þetta séu ekki einhverjar restar af því.

Í neytendahorninu að þessu sinni langar mig að segja frá plötunni í spilaranum hjá mér. Ég dreif mig um daginn og fjárfesti í nýju plötunni hennar Bjarkar og hún er búin að vera rúllandi í bílnum hjá mér. Björk klikkar náttúrulega aldrei, þessi plata er ótrúlega flott og maður hreinlega trúir því ekki að þetta séu bara raddir sem eru notaðir á henni. En það virðist bara vera þannig að annað hvort fílarðu Björk í botn eða þolir hana alls ekki. Ég er í fyrri hópnum og hef alltaf fundist hún skemmtilegur tónlistarmaður, hún er nú líka fjarskyld frænka mín (við erum held ég þrímenningar) þannig að ég er kannski ekki alveg hlutlaus. Þið sem eruð í fyrri hópnum með mér ættuð endilega að drífa ykkur út í búð og fjárfesta í þessari plötu.

mánudagur, september 20, 2004

Lífið og tilveran

Jæja það gengur ekkert annað en að halda þessu áfram hérna, hlusta á þessar mótmælaraddir og fara að skrifa eitthvað hérna. Er farin að lengja svolítið eftir fundi með H-vaða skvísunum. Hvernig er þetta stelpur, er fundur í vikunni?

Það atriði sem ég er búin að velta hvað mest fyrir mér núna þessa dagana eru innflytjendur og mál þeirra. Þessi áhugi minn kviknaði þegar einn kennarinn minn talaði um þetta í tíma um daginn og svo var ég áðan að hlusta á einn skrítnasta mann sem ég hef nokkkurn tímann hlustað á í útvarpi. Skoðanir hans á innflytjendum voru svo róttækar að ég slökkti á einum parti á útvarpinu í hneykslun minni. Adolf Hitler hefði getað verið upprisinn úr sinni gröf og komin í Reykjavík síðdegis, svo skrítnar voru skoðanir þessa manns. Hann var t.d. að tala um það að það ætti sko ekki að leyfa múslimum að setja upp mosku á Íslandi. Það væri sko bara fáránlegt og að íslendingar hefðu sína trú og sú trú yrði bara að duga þessu fólki. Einnig hafði hann mjög áhugaverðar skoðanir á atvinnumálum innflytjenda, sem væru kannski ekki beint taldar samræmast nútímanum.

Kveikjan að þessum áhuga mínum var s.s. þegar kennarinn minn sagði að viðhorf margra íslendinga til búsetuflutninga væri það að við ættum að hafa frelsi til að flytja og fara hvert sem við vildum en útlendingar ættu að hafa frelsi til að fara aftur heim til sín. Rótina að þessum hugsanagangi sagði hann að mætti rekja til gamla bændasamfélagsins þegar stórbændurnir réðu öllu í íslensku samfélagi og vinnuhjúin voru í stöðu innflytjenda dagsins í dag. Stórbændurnir máttu gera það sem þeir vildu en vinnuhjúin voru bundin af vistarbandinu og lögum og reglum um giftingar og barneignir. Mér fannst þetta mjög athyglisvert og er bara ekki frá því að þetta gæti verið satt.


Svona af þessu daglega þá er búið að vera brjálað að gera hjá okkur skötuhjúunum. Um síðustu helgi var tengdó hérna að hjálpa okkur að byggja pall fyrir framan húsið og ég þurfti að mæta í skólann á laugardaginn. Við fórum svo öll saman á Hárið á laugardaginn, það var alveg ágætt, flottara en ég var búin að gera ráð fyrir. Ég er svo búin að vera eitthvað að rembast við að læra, gengur svona upp og ofan. Flestir kúrsarnir sem ég er í eru mjög skemmtilegir og auðskiljanlegir, allir fyrir utan stærðfræðina. Hún er frekar mikið erfið. Brúðkaupið hjá Herði og Röggu var æðislegt, athöfnin alveg ótrúlega falleg og veislan mjög flott.
Elsku Ragga og Hörður, Innilega til hamingju með daginn
En jæja, þetta er orðið svo langt hjá mér að ég efast um að nokkur maður nenni að lesa þetta allt.

sunnudagur, september 05, 2004

Bloggstífla

Ég þjáist af bloggstíflu á háu stigi. Eina sem ég get mögulega skrifað um er mitt daglega líf ...en það er ekkert skemmtilegt. Ég gæti líka skrifað um allt sem fer í taugarnar á mér, sem er annsi margt þessa dagana, en það er heldur ekkert skemmtilegt. Ég ætla því að bíða með að tjá mig hérna þangað til ég hef fundið mér eitthvað áhugavert til að skrifa um. Stóla á að áframhaldandi nám skili mér einhverju góðu efni.

Svona stutt samt af þessu daglega þá er ég byrjuð í skólanum, allt komið strax á fullt þar. Fór norður í réttirnar um helgina, dró nokkrar kindur og skellti mér á réttarball. Hitti Stínu vinkonu sem var í mega stuði eins og venjulega. Er að fara í brúðkaup næstu helgi og að fara að smíða pall þarnæstu helgi.

Ef einhver veit um góðan flísalagningarmann þá má hann skilja eftir nafn og símanúmer í commentakerfinu.

Ef einhvern langar í kettling þá er einn í sveitinni heima hjá mér sem þarf að fá heimili. Hann er snjóhvítur nema með smá v-laga gráan blett á hausnum. Alger pempía, labbar ekki í bleitu og svona, alveg tilvalin inniköttur, og hann vantar eitthvað gott heimili.