föstudagur, desember 30, 2005

4 Dagar

Já maður, bara 4 dagar þangað til við leggjum af stað til fjarlægra landa. Og ekkert nema skemmtilegheitin framundan þangað til. Fór út að borða með Röggu í gær, skelltum okkur á Sjávarkjallarann og fengum æðislegt að borða og drekka. Frábær þjónusta og æðislegur matur. Ef þið eruð ekki búin að prófa að fara þangað þá mæli ég með því að þið skellið ykkur fyrr en seinna. Fengum okkur svo einn drykk á 101 hótel eftir matinn. Allt mjög skemmtilegt og eligant. Chris Rock ætlaði að koma með okkur en var lasin og treysti sér ekki.

Svo er skemmtilegt kvöld framundan, VIP fólkið ætlar að koma hingað í smá teiti, sem verður án efa skemmtilegt. Gamlárskvöld á morgun og þá erum við hjónin að fara fyrst til Röggu í mat og svo er aldrei að vita hvort maður kíki á Chris og Odda eða kannski á strákana í Vesturbrún. Svo erum við að fara til Sólveigar og Hólmars á nýársdag í mat. Svo eru hreinlega ekki fleiri kvöld eftir og við hreinlega farin út. Svoleiðis er það...

Meira seinna
Laufey

mánudagur, desember 26, 2005

Myndaalbúm - Indriði bloggar

Jæja, ég er búinn að fá formlegt leyfi til að skrifa á síðuna þannig að ég geti nú látið ljós mitt skína á ferðalaginu.
Við erum semsagt búin að búa til albúm sem við ætlum að nota í ferðinni, ef þetta virkar. Skelltum inn nokkrum jólamyndum frá Króknum. Erum búin að hafa það voða gott, bæði í sveitinni og hérna á Sauðárkróki. Síðasta átveislan í bili framundan, svo fáum við nokkra daga í frí frá því. Maður er kominn með ágætis forða fyrir ferðina, þannig að ef við finnum ekkert ætilegt í Indlandi þá held ég að við lifum það alveg af!
Læt þetta duga svona í fyrsta skipti!

sunnudagur, desember 25, 2005

Nýtt, nýtt, nýtt...

Já í samræmi við nýtt umræðuefni hérna á síðunni og nýjan ritara þá er við hæfi að gera nýtt útlit. Vonandi fellur það í góðan jarðveg hjá lesendum. Dagurinn er annars búin að vera góður svona í faðmi fjölskyldunnar, búið að eta og drekka mikið og fleira í þeim dúr.

...Takk til allra fyrir okkur, pakka og kort...

...Gleðileg jól allir saman...

Laufey - í jólaskapi

fimmtudagur, desember 22, 2005

Frjáls eins og fuglinn..


...flogið næstum ég gæti, mér er ekkert til ama...

Prófin loksins búin og ég búin að fá stæ-bömmers einkunina mína. Tölum ekki meira um það. Örfáir dagar í að jólin komi, aðeins fleiri í áramótin og pínu fleiri í að ég leggi af stað í reisuna miklu ásamt mínum heittelskaða. Mikið hlakka ég svaka mikið til. Eins og ég segi þá er lífið bjart og fallegt framundan og ég ætla ekki að láta neitt koma mér úr jafnvægi. Ekki einu sinni auka-götin 7 sem ég er með á líkamanum núna. ...eða stæ bömmerinn.

Iðnó-jóladjammið var voða skemmtilegt sem varð aftur á móti til þess að ég djammaði voða takmarkað í gær á próflokadjamminu. Það stefnir samt í svo mikla skemmtun næstu daga að maður þarf að fara að dusta rykið af gömlu drykkju-trixunum. Hvernig var þetta nú aftur? Ekki drekka á fastandi maga, fá sér lýsi eða matarolíu áður en maðu fær sér fyrsta rauðvínsglasið og eitthvað fleira sniðugt. Já svo við tölum nú ekki um að fá sér mjólk að drekka þegar maður kemur heim og jafnvel smá að borða og kannski smá skammt af salti, svona upp á vökvatapið. Man svo ekki meira.

Á bara eftir að kaupa örfáar jólagjafir og pakka þeim inn, búin að skrifa fullt af jólakortum og senda megnið af þeim. Restin verður borin út með pökkum og þvíumlíku. Annars er allt að verða tilbúið bara fyrir hátíðina miklu. ...eða svona nánast tilbúið.

Einar vondar fréttir samt: annar gullfiskurinn minn dó um daginn. Greyið festist í dælunni og dó. Hinn er voða einmanna núna. Spurning hvort hann fái að fara sömu leið og hinn áður en við förum í ferðalagið.

Til hamingju til allra sem voru að klára prófin!!

sunnudagur, desember 18, 2005

No comment..

* 1 próf búið í 3 prófa-törninni minni
* próf á morgun og hinn daginn
* hlakka mega mikið til að vera búin
* er komin með ÓGEÐ af að læra
* get ekki beðið eftir að komast í jólafrí
* á eftir að gera MILLJÓN hluti áður en jólin geta komið
* ekkert af því felur í sér að baka eða þrífa
* get ekki lesið meira
* er komin með ógeð af skólabókunum mínum
* framundan er: Iðnó-jóla-djamm og próflokadjamm
* tveir sólarhringar eftir
* svo er ekki meiri skóli þangað til í ágúst

...allir að hugsa fallega til mín og senda mér góða strauma.

fimmtudagur, desember 15, 2005

Lifsgæðakapphlaupið

Þeir sem þekkja mig vita að það er fátt sem æsir mig meira upp en þetta blessaða lífsgæðakapphlaup. Það eru allir eitthvað svo svakalega fastir í einhverjum gildum sem mér finnst vera kolröng og ég skil ekki af hverju fólk er ekki að fatta hvað þetta er heimskulegt. Það eru allir að drífa sig svo mikið að fá "fullkomnu" vinnuna og kaupa "fullkomna" einbýlishúsið að fólk gleymir að lifa í deginum í dag. Allir eru að tapa sér í CV-inu og eignamyndun og starfsframanum. Fólk á mínum aldri er s.s. að drífa sig eins og það getur að verða miðaldra, sem mér finnst fáránlegt, það hefur alla ævina til að vera miðaldra. Af hverju ekki að vera ungur þegar maður er ungur? Fólk vinnur myrkranna á milli til að geta keypt sér nógu mikið af dóti og gleymir að hafa gaman. Nú finnst kannski einhverjum ég vera komin á hálan ís: Laufey mín ert þú ekki búin að vera að vinna tvær vinnur í sumar og vera líka í skóla og vinna? Sem er reyndar rétt en ég tel mína stöðu vera frábrugna flestum á tvennan hátt.

1. Ég er búin að vera að vinna með skólanum núna til að geta verið í fríi næstu 4 mánuðina.
2. Ég á ekki börn.

Því það er einmitt það sem mér finnst vera hræðilegast við allt þetta brjálæði í fólki. Allir svo sjúkir í nýja jeppan, flatskjáinn eða einbýlið, að fólk gleymir kannski að það á börn. Það er svo brjálað að gera að græða alla peningana til að geta keypt allt dótið og farið í fínu sumarfríin, að fólk missir af uppvexti barnanna sinna, af því það er alltaf í vinnunni. Svo kannski vaknar það upp einn góðan veðurdag, kannski orðið 50 ára og það þekkir hvorki makann sinn eða börnin. Allt í einu er lífið hálfnað og þú ert búin að missa af því og gleyma að kynnast fjölskyldunni þinni af því þú hélst að peningar væru málið.

Þess vegna finnst mér mikilvægast af öllu að njóta lífsins og hætta að hugsa alltaf um þessa blessuðu peninga endalaust. Auðvitað er nauðsynlegt að eiga einhverja peninga til að geta keypt sér svona það helsta en þeir eru sko alls ekki aðal-málið. Hættum að vera peningasjúk, förum að átta okkur á því að við lifum bara einu sinni og við fáum ekki að taka allt draslið með okkur þegar við drepumst.

miðvikudagur, desember 14, 2005

3 próf á 4 dögum


Það sem er s.s. næst á dagskránni hjá mér eru þessi blessuðu 3 próf á 4 dögum núna um og eftir helgina. Er búin að vera að læra myrkranna á milli fyrir utan strax eftir stærðfræðiprófið þegar ég dreif mig í Kringluna og aðeins á Laugarveginn og verslaði mér smá því ég átti svo rosalega bágt. Á samt frekar erfitt að einbeita mér á köflum, hugurinn á það til að fara aðeins á flakk og hugsa smá fram í tímann. Í dag eru nefninlega:

6 dagar þangað til ég er búin í prófum
10 dagar í jólin
17 dagar í áramótin
20 dagar í að við förum út

Það er s.s. allt að gerast og stundum frekar erfitt að halda fókus á því sem er að gerast akkúrat núna.

Fyrri myndin er s.s. af Jaipur, eða bleiku borginni, sem við ætlum að skoða þegar við förum til Indlands. Hina myndina fann ég á Google og fannst hún svo flott að hún varð að fara með.

mánudagur, desember 12, 2005

Stæ-bömmer

Já ég er fallin í stærðfræði.

Sko ein skoðun hérna: það sýnir ekki hæfileika manns í þessari fínu grein að þurfa að læra utanbókar, og rita skv. minni sannanir á prófi. Mér finnst sannanir vera rugl. Sérstaklega þegar þær gilda 1/3 af einkuninni.

Já þær sannanir sem ég gat lært komu ekki á prófinu og þess vegna er ég = dauðadæmd. Gaman verður nú að taka bæði stæ III og töl II í sumarprófi. Gvuð hvað ég á bágt, vilja einhverjir fleir vorkenna mér?

laugardagur, desember 10, 2005

Áfall dagsins...


Já það er spurning hvort titillinn hennar Unnar Birnu gæti flokkast sem áfall dagsins en það er nú ekki svo. Ég veit ekki hvort þið munið eftir því um daginn þegar ég sagði frá því að það hefði verið næstum því keyrt á bílinn minn. Fullur karl var að keyra í götunni minni og klessti á bílinn hjá manninum á efri hæðinni. Og viti menn. Í morgun heyrði ég frekar kunnuglegan dynk og ég þorði því ekki annað en að kíkja út og athuga hvað hafði gerst. Heyrðu þá hefði annar fullur karl, eða sá sami ég veit það ekki alveg, verið að keyra aftur í götunni minni og klesst á bílinn hans Indriða. Meira hvað þetta er allt að verða dramatískt. En allavegana þá stakk þessi af eins og hinn og lögreglan þurfti að fara um hverfið til að leita að honum. Held nú að hann hafi fundist á endanum samt. Eins gott að maður fái góða þjónustu hjá blessuðu tryggingafélaginu. Vorum fyrir helgina að borga allan tryggingapakkan okkar, kaskó á 2 bílum, líftryggingu og hústryggingu og var það samtals uþb 200.000. Þannig að núna reynir á hvort maður fái eitthvað fyrir peninginn.

Erum að fara í kveðju-partý til Margrétar og Róberts í kvöld, þrátt fyrir dapurt ástand á hjónunum. Ég að fara í stæ-próf á mánudaginn og er farin að fá hraðan hjartslátt út af því og Indriði er lasinn. Greyið strákurinn er búin að liggja í rúminu í allan dag með hor og hósta. Og á meðan er ég búin að sitja hérna frammi og læra stærðfræði með stelpunum. Ég hlakka svoooo mikið til að vera búin með þessa stærðfræði...

Svo eru bara 50 ár síðan Halldór Laxnes fékk Nóbelinn. Til hamingju með það allir. Ég væri alveg til í að fá Nóbelsverðlaun. Ætli ég þurfi ekki að læra helling meiri stærðfræði til að eiga möguleika á því. Kannski ég rannsaki kvennahagfræði og reyni að veiða Nóbelinn út á það. Það væri nú frekar flott.

Ég trúi þessu ekki...

Já hvað haldiði að sé nú. Hún Unnur Birna er bara orðin Miss World!! Ég er algerlega orðalaus yfir þessu og trúi þessu bara varla. Hefði örugglega ekki trúað þessu nema ég var að horfa á krýninguna í sjónvarpinu áðan. Er búin að vera hooked á að lesa dagbókina hennar inni á mbl.is en datt aldrei í hug að hún myndi vinna þetta. Finnst fólki hún vera Miss Wold?

föstudagur, desember 09, 2005

Taka tvö

Já ætla að gera heiðarlega tilraun til að setja hérna inn nokkrar línur. Tókst ekki svo vel síðast. Mikið hvað maður getur orðið pirraður þegar þetta dettur allt svona út. En allavegana...

Ég er búin með 1 próf af 5, sem er gott. Gekk bara ágætlega og vildi gjarnan að ég væri eins vel undirbúin undir hin prófin og ég var undir þetta. Það er s.s. búið að strika þjóðhagfræði II út af listanum og ég er komin einu skrefinu nær að fá titilinn virðulega.

Ferðaundirbúningurinn gengur vel, allt komið á skrið og allt að smella saman á síðustu stundu. Seldum bílinn í gær, (grát, grát) og fengum þennan líka mega kagga upp í sem ég verð að trylla um á í staðinn. Verð nú samt að segja að rauði skvísubíllinn minn var mun flottari en þessi gamli lancer sem ég er á núna. Við erum líka búin að láta bólusetja okkur gegn hinum ýmsu kvillum og búin að borga fyrir það fullt af peningum. Meira hvað þetta er dýrt allt saman. Við vorum samt búin að láta sprauta okkur fullt, búin að fara til Kúbu og allt það. Sprautunar-kostnaður er samtals komin núna upp í tæplega 30 þúsund og stefnir í að fara mun hærra. Sendum líka vegabréfin okkar til Noregs til að fá áritun inn í Indland og það kostaði hvorki meira né minna en 9.000 kr. Þetta verður því aðeins dýrara og meira vesen en við gerðum ráð fyrir í byrjun en... hvað með það. Maður verður bara á aðeins lélegri hótelum úti í staðinn. Er annars farin að hlakka svo BRJÁLAÐ mikið til að ég er að springa. Þetta verður alveg ótrúlegt ævintýri. Einn af fyrstu áfangastöðunum í ferðinni okkar verður Taj Mahal, finnst ykkur það ekki fallegt? Getið reynt að ímynda ykkur mig standandi þarna fyrir framan...

Var að fletta bækling, einum af mörgum sem kom inn um lúguna hjá mér um daginn, sem ber heitið Smáralind. Fannst mér pínu fyndið að lesa yfir Efnisyfirlitið. Umsjón og greinarskrif: Eva Dögg, ábyrgðarmaður: Eva Dögg, Stílistar: Eva Dögg og Helga og svo á bls. 44 er frábær grein sem heitir Góð tískuráð frá Evu Dögg. Þessi umtalaða Eva Dögg er fyrir þá sem ekki vita frú Tiska.is sem eins og sést á vefsíðunni er í miklu stuði og líka daman sem Feng-shui-aði alla íbúðina hjá sér í Innlit-útlit einhvern tímann. Greinilegt að hennar kröftum hefur verið beint eitthvað annað en á síðuna, kannski í Smáralindarbæklinginn... Það eina sem hún kann samt að gera er að velja módel í tískuþáttinn sinn því hún valdi hina gullfallegu frænku mína hana Söru Karen.

Það er samt alveg merkilegt hvað það skiptir miklu máli hvað maður er að læra hvað maður er duglegur við það. Eins og t.d. fyrir þjóðhagfræði prófið, mér finnst það mjög skemmtilegt og þess vegna gekk mér vel að læra fyrir það. Gat lesið endalaust og setið yfir þessu og spáð og spekúlerað. Núna er næsta próf Stærðfræði III og ég er hreinlega ekki búin að koma neinu í verk. Meira hvað þetta er brjálað leiðinlegt... Ég treysti því að þið hugsið fallega til mín og sendið mér góða strauma í lestrinum. Later.

miðvikudagur, desember 07, 2005

Urggg

Var búin að skrifa fullt en svo datt það allt út og ég datt þar með úr öllu stuði. Skrifa á morgun.

laugardagur, desember 03, 2005

Jólin, jólin...


Mér finnst ömurlegt að vera í prófum í Desember. Núna í ár verða önnur jólin í röð sem ég skreyti ekki neitt, baka ekkert, set ekki upp neina seríu eða geri neitt því ég hef ekki tíma fyrir neitt nema lesa fyrir próf (og eitt og eitt blogg). Og ég sem er mesta jólabarnið. Ég verð alltaf jafn svekkt þegar ég fletti með hraði í gegnum blöðin og sé auglýsingar um upplestur úr jólabókum, jólatónleika og allskyns svoleiðis. Í fullkomnum heimi þá myndi ég eyða Desember í að rölta Laugaveginn, kaupa eina og eina jólagjöf, fá mér kakó, fara á tónleika og upplestra og föndra jólaskraut. En því miður lifi ég ekki í fullkomnum heimi, allavegana ekki ennþá, og Desember fer í allt aðra hluti og mun leiðinlegri. Hvernig væri að flytja prófin fram í janúar? Þá hefði maður allavegana aðeins meiri tíma til að hafa það huggulegt fyrir jólin. Eða drífa prófin af fyrir 10. des? Mér finnst glatað að vera í prófum til 20. Des eða 21. Des eins og í fyrra. Það væri þó skömminni skárra að vera kannski búin nokkrum dögum fyrr. Kannski er bara málið að drífa af þennan skóla og hætta þessu prófa-veseni í Desember?

fimmtudagur, desember 01, 2005

Efst a baugi


Í þjóðhagfræðiglósunum mínum stendur nokkuð áhugavert sem mér datt í hug að deila með ykkur. Fyrir leikmennina þá eru hérna útskýringar:
G = ríkisútgjöld
T = skattar
Þessar glósur eru um fjármálastefnu ríkisins og tól ríkisstjórnarinnar og segja:

Þenja hagkerfið: auka G, minnka T
Bremsa hagkerfið: minnka G, auka T

Bara svona með tilliti til ástandsins í dag og fyrirhugaðra aðgerða ríkisstjórnarinnar.

Horfði á Top Model í gær og er afar sátt við úrslitin ólíkt síðast. Var búin að halda með Naimu síðan í byrjun, fannst hún vera lang flottust af þessum gellum, ekki alltaf grenjandi (sem reyndar breyttist aðeins í síðasta þættinum, pjúra strategía) og með hanakamb sem mér fannst ofur-töff. Er reyndar líka mjög hrifin af Kahlen, hún hefði alveg mátt vinna líka, svo lengi sem pjásan hún Keenyah datt út. Meira hvað hún varð leiðinleg og hrokafull svona í lokinn.