miðvikudagur, apríl 28, 2004

Dagurinn í dag er góður dagur

Í dag er góður dagur, sólin skín og ég var búin snemma í vinnunni. Skvísan heiðraði nefninlega Akureyringa með nærveru sinni fyrripartinn í dag. Það var vaknað fyrir kl. 7 og kl. 7:20 stóð maður úti á flugvelli tilbúin til brottfarar. Ég man hreinlega ekki hvað er langt síðan ég vaknaði svona snemma. Enda er þetta afskaplega ókristilegur tími, sérstaklega fyrir svefnpurkur eins og mig. Maður skilaði sér svo til Borgarinnar aftur um kl. hálf fjögur og fannst nóg komið af vinnu þennan daginn. Sólin skín líka og síðan ég kom heim er ég búin að liggja fáklædd á svölunum hjá mér í von um að ná mér í einhvern lit. En... núna er sólin að fara og mér er ekki til setunnar boðið lengur. Búin að lofa sjálfri mér og stráknum mínum, sem er búin að gera mikið grín að mér og þeirri staðreynd að ég eigi kort í 2 líkamsræktarstöðvar sem ég nota afskaplega sjaldan, að fara í ræktina í dag. Ég er s.s. á braut til betra lífs með brúnku og ástundun líkamsræktar. Húrra fyrir mér!! ...er ekki líka batnandi fólki best að lifa?

mánudagur, apríl 26, 2004

Helgin, pólitíkin og Tenderfoot

Jæja þá er þessi 4 daga helgi búin og alvaran tekin við. 5 daga vinnuvika framundan og því um að gera að spíta í lófana. Við hjónaleysin lágum með hor í rúminu eiginlega alla helgina, sem var fínt upp að vissu marki. Orðin samt pínu leið í gær og farið að langa að komast út. Okkur tókst allavegana að losna við flensuna með þessari inniveru okkar og erum ofsa glöð með það.

Það er búið að vera svolítið fyndið að fylgjast með öllu uppþotinu í kringum sjálfstæðis-plebbana um helgina. Allt brjálað út af Birni Bjarnasyni og jafnréttismálinu og Davíð og fjölmiðlafrumvarpinu. Það er greynilega komin pínu óróleiki í þá sjálfstæðissveina, Dabbi Kóngur að nota síðustu dagana í hásætinu til að lumbra á óvininum mikla og Bjössi Bjarna er nú bara eins og hann sé ekki uppi á réttri öld með þessa röksemdarfærslu sína. Það sem er gersamlega ofvaxið mínum skilningi er hvernig í ósköpunum fólk getur kosið þetta yfir sig ár eftir ár eftir ár. Ég get með engu móti skilið það hvernig sem ég reyni. Gleðifréttir helgarinnar í pólitíkinni finnst mér vera Kolbrún Halldórsdóttir og frumvarpið um bann við umskurði kvenna. Það er sjaldan sem þingmenn eru eins fyrirhyggjusamir og núna og mér finnst þetta alveg ótrúlega þarft og verðugt málefni.

Ég verð víst að viðurkenna það að í veikindunum um helgina var maður ekki mjög kræsin á sjónvarpsefni. Við sátum t.d. stjörf yfir Gísla Marteini á laugardagskvöldið, sem maður viðurkennir nú ekki á sig á hverjum degi. Ég verð samt að segja hvað mér fannst hljómsveitin Tenderfoot sem var í þættinum ótrúlega skemmtileg og hvað það kom mér ekki á óvart að hún væri "á barmi heimsfrægðar", eins og Gísli Marteinn sagði, hvað svo sem er til í því. Ég væri alveg vís til að kaupa með þeim plötu eða fara á tónleika með þeim væri það einhvern tíman í boði.

laugardagur, apríl 24, 2004

Auglýsingar

Ég er búin að ætla mér að tjá mig um auglýsingar hérna frekar lengi. En einhvern veginn hefur það alltaf gleymst hjá mér. Það er nefninlega alveg með ólíkindum hvað auglýsingar geta farið mikið í taugarnar á manni. Ein sú auglýsiing sem fer allra mest í taugarnar á mér þessa daganna er helv... Always auglýsingin með ljótu gellunni með ljóta hárið í bolnum með einni erminni. Hvað er eiginlega langt síðan það var í tísku að vera í bol með einni ermi? Maður bara spyr. Hver dansar líka svona og syngur þegar hún er á túr...engin sem ég þekki allavegana. Sem gott dæmi um andstæðu þessarar auglýsingar eru snilldar auglýsingarnar með henni Halldóru Geirharðs fyrir Íslandsbanka. Mér finnst þær alveg hrykalega skemmtilegar og fyndnar. Starfmaður mánaðarins auglýsingin er t.d. alger snilld, "maður verður nú að fara einhvern tímann í sumarfrí" Ef þessi herferð fær ekki einhver verðlaun þá verð ég mjög hissa. Í tilefni af því er þetta hérna.

föstudagur, apríl 23, 2004

Bara smá..

Er búin að vera rosa dugleg að þrífa heimilið mitt og líka taka til hérna á síðunni. Búin að bæta inn link á blakliðið hans Indriða. Ég hvet alla til að fara þarna inn og skoða búningana, þið munið þessa bleiku og limegrænu. ...þetta er ekki fögur sjón skal ég segja ykkur. Ég er s.s. búin að uppfæra hlekkina og vil sérstaklega benda á Cosmo-hlekkinn, sem ég setti nú inn bara fyrir hana Guðnýju Ebbu, ekki það að þetta sé SNILLDAR SÍÐA. Annars er nýjasta hugdettan mín sú að fá mér hund, hvernig líst ykkur á Chihuahua? Svona hund eins og Elle Woods átti í Legally Blond...Í þessum hugleiðingum mínum, s.s. leit minni á Google rakst ég á frábæra síðu. Þetta er síða þar sem þú getur bjargað hundi sem er munaðarlaus, ég mæli alveg með þessari.

P.s. ef ykkur finnst barnalands-bullið fyndið, þegar mömmurnar eru að skrifa eins og börnin séu að tala, þá finnst ykkur þetta hillaryus. Hundar að skrifa og biðja fólk um að ættleiða sig ...muhahahahaha.

Því það er komið sumar...

Voðalega hef ég verið ódugleg við að skrifa hérna inn að undanförnu. Það er búið að vera tryllt að gera í vinnunni hjá mér, þótt ferðirnar séu búnar þá er öll úrvinnslan mikið til eftir. Gleðifréttir vikunnar eru:
no.1 Ég er orðin nettengd heima hjá mér
no.2 Það er komið sumar...
no.3 Ég er loksins búin að ákveða hvað ég ætla að gera næsta haust
no.4 Vinnuvikan var bara 3 dagar
no.5 Byrjuðum á tiltekt í fjármálunum
Þetta eru allt svo góðar fréttir að ég næ næstum því að hætta að pirra mig á Sex and the city sem var í gær. Hvað er málið með þennan gamla, krumpaða rússa? Ég er alls ekki nógu ánægð með þetta. Carrie er hægt og hægt að hætta að verða uppáhaldspersónan mín og Charlotte er alltaf að vinna meira og meira á. Vá hvað atriðið með Elisabeth Taylor var t.d. fyndið í gær!! Það eru svo bara 2 þættir eftir og ég vil ekki vera farin að hætta að fíla þættina áður en þeir hætta.

Gærdagurinn var annars afskaplega ljúfur. Indriði fór snemma í vinnuna og svefnpurkan ég svaf til hálf 11. Skellti mér þá með Chris Rock í ræktina og svo fórum við smá í pottinn á eftir. Ég held meira að segja að
ég hafi fengið smá lit. Veðrið var náttúrulega ÆÐISLEGT í gær, ekta veður fyrir sumardaginn fyrsta. Ég fór svo og sótti Dagnýju Björk, 3 ára skvísuna, og við fórum í bæjarferð. Gáfum öndunum niðri á Tjörn, fórum á kaffihús og spókuðum okkur í sólinni. Ég skilaði henni svo heim til sín svona um kl. fimm og fór og hitti Indriða minn og við fórum niður í bæ og fengum okkur ís í góða veðrinu. Það voru svo bara rosa mikil rólegheit hjá okkur í gærkvöldi, allir frekar þreyttir eftir alla útiveruna.

Í kvöld stendur svo til að fara í bíó á Kill Bill II. Maður verður held ég að sjá hana fyrst maður sá mynd 1. Ég er í fríi í dag og ætlaði að vera rosa dugleg og þrífa en er ekki byrjuð ennþá að taka almennilega til hendinni. Ég er samt búin að taka slatta til, en ekki búin að þrífa neitt. Búin að skoða svolítið mikið á netinu og held að ég sé búin að greina mig með sama sjúkdóm og Ragnhildur Berta, þ.e. Netsýki á háu stigi. Ef einhver veit um góð lyf eða lausnir við þessum hræðilega sjúkdómi vinsamlegast hafið samband.

mánudagur, apríl 19, 2004

Helgin, fréttirnar og vikan framundan

Helgin var fín hjá frúnni. Ég sendi strákinn minn einan norður í fermingarveislu, þurfti að vinna og svo var starfsmannapartý í vinnunni. Hann fór samt ekki frá mér fyrr en seint og um síðir á föstudaginn. Við fórum fyrst og skelltum okkur í göngutúr um 101, ég fæ ekki leið á því að labba um gamla bæinn það er allt svo krúttlegt þar. Svo þegar við vorum komin með leið á labbinu þá fórum við á Eldsmiðjuna að borða. Ég er rosalega hrifin af Eldsmiðjupítsum, þetta eru alveg með bestu pítsum sem ég smakka. Þetta er samt í fyrsta skiptið sem ég hef farið þarna og borðað á staðnum, hef áður bara tekið með mér heim. Ég held að ég haldi því bara áfram því aðra eins hörmungarþjónustu hef ég ALDREI á ævinni fengið. Ég var næstum því búin að labba út en var svo gáttuð á þessum dónaskap að ég varð bara stjörf og vissi hreinlega ekki hvað ég átti að segja eða gera ...sem gerist frekar sjaldan!! Ég fór svo seinna um kvöldið til Röggu og við spjölluðum eitthvað frameftir. Á laugardeginum fór ég í ræktina svo í vinnuna og afkastaði heilum helling og svo í staffapartýið um kvöldið. Lá í rúminu allan sunnudaginn og svaf og horfði á sjónvarpið. Er því endurnærð og í banastuði í dag.

Eitt sem ég er búin að vera að velta fyrir mér um helgina eru þessir blessuðu fréttatímar á báðum rásum. Mér finnst nánast við aðra hvora frétt þurfa að minna á að "við vörum við myndunum sem hér koma". Af hverju í ósköpunum er verið að sýna þenna viðbjóð á besta tíma áhorfstíma? Ég gerði þau mistök að vera að borða fyrir framan fréttirnar eitt kvöldið þegar svona viðvörun kom og ég missti algerlega matarlystina. Það var verið að sýna sundurtætt lík, blóðpolla og annan eins viðbjóð. Þess vegan spyr ég. Er fréttin áhugaverðari/betri ef sýndar eru svona myndir? Og er forsvaranlegt af fjölmiðlum að sýna þessar myndir þar sem mikil hætta er á að börn sjái þær á þessum tíma? Ef ég ætti krakka þá væri ég sko búin að mótmæla.

Vikan framundan er með styssta móti því eins og Ragga myndi segja "í dag er mánudagur en samt líka miðvikudagur" af því vinnuvikan er bara 3 dagar. ...ég ætla nefninlega að taka mér frí á föstudaginn. Það á nú ekki að gera neitt sérstakt nema tjútta með Ms. Time is money.is, (sjá gestabók) skvísan er að klára prófin á miðvikudaginn og ætlar að sletta úr klaufunum í tilefni af því og að sjálfsögðu ætla ég að vera með henni í því. Ætli við reynum svo ekki að gera e-ð við borðplötuna heima hjá okkur sem er búin að vera krossviður í svona mánuð.

föstudagur, apríl 16, 2004

Grillið, Hemmi Gunn, Carrie og co.

Mig langar að byrja á því að lýsa yfir sjálfboðaliðum sem vilja bjóða mér út að borða á Grillið um helgina. Það er kokkur að elda þarna núna yfir helgina sem vinnur á veitingastað í London sem er með 2 Michelin stjörnur. Fyrir þá sem vita ekki þá eru 2 rosa mikið, 3 er hámarkið og það er engin staður á Íslandi sem er með stjörnu. Þetta er því engin smá klassa kokkur sem er í boði þarna. Sem fyrr þá bendi ég áhugasama á að nota commentakerfið til að bjóða sig fram.

Ég verð enn og aftur að lýsa yfir þeirri skoðun sem ég hef á Hemma Gunn. Mér finnst hann er alveg ótrúlega fyndinn karl. Hann var í morgunsjónvarpinu í morgun og sonur hans líka, og ég held svei mér þá að ég hafi aldrei séð svona mikið hlegið í beinni útsendingu allt mitt líf. Þeir hlóu endalaust feðgarnir og að alveg ótrúlegum fimmaurabröndurum. Greyið Inga Lind og Heimir, þau hlógu bara og hlógu líka og gátu varla komið upp orði. Svona öllu jafna samt þá fer þessi sjálfstæðis skvísa alveg í mínar fínustu taugar. Þótt hún hafi skánað mikið frá fyrstu útsendingunum þá á hún ennþá mjög langt í land í að ná þeirri færni sem mér finnst gera fólk að góðum sjónvarpsmanni.

Sex in the city var að sjálfsögðu á dagskránni í gær og sat maður eins og límdur við skjáinn. Ég verð samt að segja að mér finnst þessi rússneski sem hún er að deita alls ekkert spes. Hann er allt of gamall og leiðinlegur til að manni geti fundist hann spennandi. Ég verð því að segja að ég hef nokkrar áhyggjur af þessu, ég held nefninlega að þættirnir endi með því að hún giftist og það stefnir mikið í það að það verði þessi rússi, þar sem það eru bara 3 þættir eftir. Ég vil að hún endi með Mr. Big, hann er alveg maðurinn fyrir hana sem hún er búin að vera alltaf hrifin af. Hvað segið þið með þetta stelpur?

Og svona rétt í lokinn verð ég að vekja athygli ykkar á teljaranum sem er komin í hvorki meira né minna en 656 þegar þetta er skrifað. Ég er ótrúlega stolt og með gleði í hjarta.

fimmtudagur, apríl 15, 2004

Átakið, árshátíðin og skvísuhittingur

Það er orðið langt síðan maður skrifaði eitthvað hérna síðast. Páskarnir voru rosa fínir, ég hékk með Sugarbabes, fór í fermingarveislu, fór á árshátíð og át á mig gat. ...enda er byrjað núna átak í ræktinni. Ég skellti mér niður í Laugar í hádeginu í gær, var búin að vera í rúman hálftíma á hlaupabrettinu að horfa á PoppTV þegar Four weddings and a funeral byrjaði á BíóRásinni. Ég var næstum því búin að slá þessu upp í kæruleysi og lengja matartímann minn úr klukkustund í 3 klukkustundir. Það er því algerlega á stefnuskránni næstu dagana/vikurnar að sjá þessa gömlu, góðu mynd. Alveg ótrúlegt hvað sjónvarp getur verið mótíverandi.

Árshátíð H-fleygs fór ótrúlega vel fram, þótt mætingin hefði mátt vera betri hjá kvennþjóðinni (Kolla og Margrét þið megið t.d. taka þetta til ykkar). Það voru ótrúlega mörg skemmtiatriði og m.a. var frumflutt H-fleygs lagið, sem var tekið upp í stúdíói þennan sama dag. Það voru snillingarnir Sandmaðurinn og Alvitur sem áttu allan heiðurinn af því. Eftir árshátíðina var svo skellt sér niður á Kaffi Krók, þar sem var frekar fámennt en góðmennt.

Mig langar að nota tækifærið í þessum skrifum mínum til að stinga upp á skvísuhitting sambærilegum þeim sem var á Kaffibrennzlunni um daginn. Þar sem við Kolla ófríska, Eggið, Hugrún og Ausa hittumst og spjölluðum. Guðný Ebba er að sjálfsögðu velkomin með og allir aðrir sem vilja. Við erum náttúrulega allar svo frábærar að hver vill ekki koma og hitta okkur spyr ég bara?? Endilega látið í ykkur heyra í commentakerfinu.

Næsta helgi er ekki ennþá plönuð hjá mér, allar hugmyndir vel þegnar svona "by the way". Pressan er að ég fari með mínu ektamanni í fermingarveislu á Sauðárkrók, en ég svona hálfpartinn nenni því ekki. Var þar síðustu helgi og ekki búin að vera neitt rosa mikið heima hjá mér og einhvern veginn núna er litla íbúðarholan mín á Þinghólsbrautinni alveg rosalega aðlaðandi. Í kvöld er það að sjálfsögðu Sex in the city ég vil kvetja alla til að fylgjast vel með síðustu þáttunum í þessari frábæru seríu. Einnig er Bachelor á dagskrá í kvöld, það má heldur ekki missa af því. Áður en þessir góðu þættir byrja er planið að skella sér í Laugar og svo í Kringluna með henni Röggu minni.

föstudagur, apríl 09, 2004

Ég er komin heim í heiðardalinn...

Nú er ekki nóg með það að maður sé komin aftur til landsins heldur er ég komin alla leið á Sauðárkrók í páskafrí. Lenti rosa seint á miðvikudaginn, alveg gersamlega búin á því. Það er alveg merkilegt hvað ég er alltaf ótrúlega þreytt bæði andlega og líkamlega eftir þessar ferðir, gat ekki einu sinni haldið uppi samræðum við Indriða á leiðinni frá Keflavík. En... núna er þetta ferðatímabil búið hjá mér í bili, sennilega bara ein ferð eftir sem byrjað er að skipuleggja, Hong Kong og Bangkok aftur sennilega um miðjan Júlí. Í tilefni af því að þetta tímabil er búið þá ætla ég að lista hérna upp 5 skemmtilegustu borgirnar sem ég fór í:

1. Bangalore, Indlandi
- Rosalega falleg borg þrátt fyrir mikla fátækt, hrein, vingjarnlegt fólk og ótrúlega gott veður. Lentum á hörkudjammi eitt kvöldið, ruglandi í einhverjum forríkum Indverjum sem splæstu á okkur drykki allt kvöldið. Keypti gullrúmteppi og demantshring.

2. Hong Kong
- Eins og að koma í annan heim. Ótrúleg mannvirki, minnstu húsin voru kannski 15 hæðir. Troðið af fólki allsstaðar sem þú komst og manni leið eins og risa. Fann DKNY búð sem var með rosa útsölu og æðislega töskubúð sem ég tapaði mér í :o)

3. Bangkok
- Rosaleg fátækt og ótrúlega skítug borg. Enn eins og að koma í anna heim. Hægt að kaupa alls kyns feik Guggi töskur og svona. Ekki það að ég hafi keypt eitthvað, allt mitt er ekta!! ;o) Sáum svona áttræðan ameríkana með 18 ára gullfallega thailenska stelpu upp á arminn.

4. Köben
- Alltaf gaman í Köben. Keypti ID ljósið mitt og fleiri góða muni.

5. Amsterdam
- Skelltum okkur í Rauðahverfið, sem var frekar súrealísk upplifun. Ótrúlega falleg borg með mjóum gömlum húsum og sýki út um allt. Borðaði á einum rosa flottum veitingastað og á öðrum veitingastað þar sem hlupu um mýs. Ragga hringdi í mig og tilkynnti að litli Veigar Már væri komin í heiminn. Mínus við þessa borg: var 3 daga ein og komin að því að hengja mig úr leiðindum.

London er svo önnur saga. Var ein allan tímann, verslaði reyndar slatta á Oxford street sem gerði þetta nú aðeins skárra. Annars nenni ég ekki að tala um það meira. Allt frekar leiðinlegt og ótrúlega erfitt. Brunabjallan fór af stað á hótelinu sem ég var á kl. hálf 12 seinna kvöldið og allir þurftu að fara út og standa þar í svona hálftíma meðan 3 brunarbílar komu og tékkuðu hvað var í gangi. Svo var ég allan tímann dröslandi helv.. tölvunni á bakinu fram og til baka, upp þrönga stiga, milli stafla af kössum og að vinna með frekar óheiðarlegu liði. Glatað...

Annars er það helst að frétta að á morgun er rosa dagskrá, árshátíð H-fleygs sem búið er að undirbúa núna í þónokkurn tíma. Það verður svo örugglega kíkt eitthvað út í kvöld og tekin smá upphitun. Ég ætlaði svo að reyna að hitta aðeins á Áróru og kíkja eitthvað út með henni á smá djamm. Svo er fermingarveisla á mánudaginn og ætli við förum ekki í sveitina á sunnudaginn. Svona í lokinn ætla ég að lýsa yfir ánægju minni með frábærar kvittanir í gestabókina, sem ég verð "by the way" að fara að uppfæra spurningarnar á.

GLEÐILEGA PÁSKA ALLIR !!

sunnudagur, apríl 04, 2004

London calling...

Jæja krúttin mín. Núna sit ég hérna í vinnunni að reyna að prenta út skýrslur og fleira skemmtilegt sem verður að koma með mér til London í fyrramálið. Þarf líka að pakka saman tölvulufsunni mínu því hún fer víst líka með. Er ekkert alveg að meika að vera að fara svona ein, en sem betur fer get ég verslað mér til huggunar á Oxford street á morgun :) Og svo eru þetta nú líka bara 2 nætur.

Vil þakka góðu fólki fyrir fínar kvittanir í Gestabókina, þar á meðal Eyda frænda sem er að læra í Köben. Skelli líka inn link á síðuna hjá stráknum hérna til hliðar. Auður var að kalla eftir frekari skýringum á stöðu minni í hinum pólitíska heimi (geimi). Ég verð því líkast til að upplýsa að við frænkurnar erum sömum megin við miðjuna en ég er hins vegar svo lánsöm að vera ekki flokksbundin. Ætli ég væri ekki í Kvennalistanum ef hann væri ennþá til. Stelpur hvernig væri nú að vekja hann aftur til lífsins? Ég ætla hins vegar að taka þig á orðinu Auður með þetta djamm sem þú varst að tala um. Næst verður það ekkert einn bjór á fimmtudagskveldi heldur margir bjórar um helgi.

Annars er helgin búin að vera afskaplega fín. Skrapp í WC á föstudagskvöldið með Christínu og er núna s.s. orðin stoltur eigandi af korti á þeim fína stað. Fór svo til Árna Þórodds eftir það, Indriði var þar að spila Catan við Árna, Inga og Audda. Þar var sötraður einn bjór eða svo og svo farið heim. Í gærkvöldi fóru þeir svo 3 strákarnir á eitthvað skemmtikvöld hjá Val, bauð því Svarthamrafrúin mér í mat til sín og smá rauðvínssötur. Þar var borðað alveg óhemju mikið og spjallað jafnvel meira. Í dag sváfum við hjónin út og höfuðm það huggulegt og nú er ég hérna og á meira að segja eftir að pakka niður. Meira vesenið. Ég vil halda áfram að minna fólk á að kvitta í gestabókina.

föstudagur, apríl 02, 2004

Gestabókin

Vil bara minna mína góðu lesendur á þessa líka fínu gestabók sem skilda er að kvitta í þegar litið er hér inn.

Aprílgubb, Hemmi Gunn og helgin

Það var nú alveg fyndið að fylgjast með þeim sem voru í gabb-gírnum í gær. Ísland í bítið ætlaði að gefa fríar sílikonaðgerðir, Bruce Springsten ætlaði að spila á Nasa og í Íslandi í dag var verið að lýsa eftir veðurþulum. Ég vorkenni nú mest þeim konum sem voru farnar að sjá stór brjóst á silfurfati og brunuðu á þessa læknastofu til að láta stækka á sér barminn. Mér finnst þetta samt alltaf jafn skrítið eitthvað, að í einn dag máttu ljúga eins mikið og þú vilt og fólki á bara að finnast það fyndið. Það er kannski bara af því að ég er heimsins lélegasti lygari, ég fer alltaf að hlæja, meira að segja þótt ég sé bara að skrökva pínulítið.

Það er alveg merkilegt hvað Hemmi Gunn er alltaf fyndinn, eða mér finnst það allavegana. Hann kom með þannan fína brandara í morgun: Oft fer bakarinn í köku þegar hann fær á snúðinn ...muhahahahahahah. Ég veit ekki hvort ég sé ein um að finnast þetta fyndið en ég er búin að hugsa um þenna brandara í allan morgun. 5 aura brandari af bestu gerð. Hann var s.s. í Ísland í bítið að tala um sjónvarpsauglýsinguna með Jóa Fel. Þessa þarna þar sem hann er ber í sturtunni, og honum fannst þetta bara afskaplega eðlilegt og Jói ætti nú líkast til að hafa rétt á því að koma fram nakinn ef hann vildi, með þennan fína kropp. Ég hef reyndar ekki horft mikið á þessa þætti, en það litla sem ég sá af síðustu seríu þá var hann endalaust að tala um hvað "stelpurnar eru alveg vitlausar í þetta" og sleikjandi á sér puttana. Ég er allavegana alveg viss um að ef Jói Fel væri stelpa þá væri sko búið að setja hann á svartan lista hjá Feministahreyfingunni.

Um helgina er svo sem ekki mikið planað. Við Christína ætlum að skella okkur í World Class e. vinnu í dag og svo kannski í 1 öl eftir það einhversstaðar. Svo getur nú vel verið að við Sólveig skellum okkur á Thorvalds þegar líður á kvöldið eins og svo oft áður á föstudögum. Svo á morgun er ég að fara með Röggu að máta brúðarkjóla, þau Hörður eru að fara að gifta sig 11. September. Ætli maður þurfi svo ekki að pakka niður á sunnudaginn fyrir Londonferðina og jafnvel leggjast yfir einhverjar tölur svo maður verði nú eitthvað undirbúin. Ég vil samt nota tækifærið og lýsa eftir einhverjum skemmtilegum sem verða í London mánudag og þriðjudag, Stína mín eina manneskjan sem ég þekki í London verður á Íslandi þessa daga þannig að ég hef engan að hitta. Skemmtilegt fólk vinsamlegast gefi sig fram í commentakerfið.