sunnudagur, desember 24, 2006

Gleðileg jól


Þar sem pían gat ekki sent út nein jólakort sökum anna í skólanum (og anna við það að fagna því að skólinn væri á enda) þá skal hér reynt að bæta fyrir það. Því viljum við strákurinn koma þessu á framfæri:

Við hjónin óskum öllum sem okkur þekkja gleðilegara jól og farsældar á nýju ári.


Erum annars búin að hafa það mega fínt hérna í sveitinni. Búin að borða yfir okkur af smákökum og fleira góðgæti. Nú þegar styttist í að klukkan slái 6 þá er allt að verða tilbúið. Búið að fara í jólabaðið og gera sósuna. Pakkarnir flestir komnir undir tréð og allir orðnir voða spenntir.

Jólakveðja frá Sauðárkróki
Laufey og Indriði

þriðjudagur, desember 19, 2006

Niðurtalningin

Við erum að tala um 19 klukkutíma og þá brosir frelsið við manni. 19 and counting...
Mæ ó mæ hvað ég verð glöð. Hver er með mér í hvítvínsglas og glens annað kvöld??

Að vera eða ekki vera...


...meðlimur í Myspace-æðinu er eitthvað sem ég er búin að vera að velta svolítið fyrir mér. Búin að vera aðeins að skoða og svona og ákvað svo í gær (auðvitað þegar ég átti að vera í hvað mestri lærdómstörninni) að búa mér til svona síðu. Hún er alls ekki tilbúin. Ég er bara búin að setja smá inn á hana, á enga vini og engin comment þannig að núna verðið þið (sem eruð á myspace) að bæta mér sem vini ykkar. Allir að vera góðir við nýliðann. Síðan mín er myspace.com/laufeykristin.

Einhvern veginn tókst honum Sigurjóni að finna síðuna mína næstum á undan mér. Alger Jón Spæjó. Alveg eins og Bjöggi frændi fann blogg síðuna mína strax og ég var búin að búa hana til. Skrítnir þessir strákar...

mánudagur, desember 18, 2006

Ó Christmastree


Það eru 3 dagar eftir þar til prófunum líkur en ég er löngu komin í andlegt frí. Metnaðurinn er horfinn, hræðslan er engin og ég er rólyndið uppmálað. "Þetta fer eins og þetta fer" er mottóið sem er búið að einkenna síðustu daga og kemur vonandi til með að ríkja þangað til á miðvikudag. Eina sem ég virðist hafa metnað fyrir þessa dagana er að skrifa eins og vindurinn inn á þess blessaða síðu. Verst að þetta er farið að þynnast aðeins út og umfjöllunarefnin farin að dala í gæðum. Þið hafið vonandi þolinmæði með mér og hættið ekki að fylgjast með þessu rausi mínu.

Helstu fréttir af Grettisgötunni eru þær að fallegasta jólatré á öllu Íslandi skreytir nú heimilið. Fyrsta jólatréð mitt og stráksins. Þrátt fyrir að hafa verið saman allan þennan tíma og haldið saman heimili síðustu 7 árin þá höfum við aldrei lagt í það að fá okkur jólatré fyrr en núna. Og þetta er fallegasta jólatré sem ég hef séð. Það er örugglega minnst stíliseraða jólatré í heimi samt og alls ekkert í tísku, Arnar Gauti myndi örugglega ekki gefa því neina toppeinkunn og Vala Matt myndi örugglega kalla það "sérstakt". Það er ekki eitt einasta svarta skraut á því, serían er marglit og skrautið er samansafn af dóti sem ég viðaði að mér á Hagkaupsárunum. Það er bara svona einhvern veginn. En ómægod hvað það er fallegt. Ég gæti eitt heilu og hálfu kvöldunum bara í að stara á það. Set örugglega inn myndir af því á næstu dögum. Því jólin eru að koma...

sunnudagur, desember 17, 2006

Termóstatið


Það er með ólíkindum hvað ég er mikil kuldaskræfa. Ef ég vissi ekki betur þá myndi ég halda að ég væri með bilað hitakerfi í líkamanum. Mér líður oftast vel í eigin skinni, klæði mig bara vel og er í inniskóm eða ullarsokkum og er ekkert kalt. Nema á blessuðu bókasafninu. Það er eins og það sé verið að spara kyndikostnaðinn eða passa það að maður sofi nú örugglega ekki yfir bókunum því hitastigið er alveg við frostmark. Mjög oft sit ég allan tímann í úlpunni, ég er oftast í lopapeysu, peysu og langermabol, og mjög oft í ullarsokkunum mínum. Það er MJÖG óeðlilega kalt þarna inni. Næstum allir sem ég þekkja eru sammála mér. Ég sá samt stelpu um daginn þarna að læra og hún var í hlýrabol ...ég endurtek: Í HLÝRABOL! Ég held að ég sé ekki ennþá búin að jafna mig á þeirri sjón.

Ég búin að komast að því núna í prófunum, eða ég er kannski frekar búin að fá staðfestingu á því, að ég er forfallinn blogg-fíkill. Ég get eytt heilu og hálfu dögunum að ráfa um hinar og þessar síður. Maður ferðast link frá link og les oft bloggin hjá fólki sem maður þekkir ekki neitt. Hefur kannski séð einhvern tímann á djamminu eða í skólanum en þekkir ekki neitt og veit kannski varla hvað heitir. Sumir eru voða skemmtilegir og þær síður heimsækir maður aftur og aftur, aðrar eru með ólíkindum leiðinlegar og steiktar. Versta er að maður skoðar þær síður alveg jafn oft og þessar skemmtilegu, maður dregast að viðbjóðnum eins og maður gónir þegar maður keyrir framhjá bílslysi.

laugardagur, desember 16, 2006

Pólitík


Pólitískar umræður eru farnar að fara ótrúlega í taugarnar á mér. Sem er frekar skrítið því ég hef alltaf haft frekar mikinn áhuga á pólitík og fundist mikilvægt að fylgjast vel með á þeim vettvangi. Ég hef þó aldrei verið skráð í neinn flokk og kýs að halda því þannig. Reyndi að horfa á þessar umdeildu umræður, um spilltar ráðningar innan borgarinnar, sem voru í Kastjósinu á netinu áðan. Þar voru þeir Björn Ingi og Dagur B. að ræða saman, krónprinsarnir tveir í borginni og þeir hefðu ekki getað verið óáhugaverðari. Ég gafst líka upp á að horfa áður en þetta var búið, þeir voru svo ó t r ú l e g a leiðinlegir báðir tveir. Tala hver ofaní annan, með óviðeigandi skítkast út í stjórnanda umræðunnar, kvartandi og kveinandi. Að metast um hvor stjórn borgarinnar, R eða B/D, hafi verið spilltari, bla bla bla... ZZZzzzzzzzzzz. Vá hvað þetta var leiðinlegt. Held að pólitískur áhugi minn hafi minnkað töluvert í kjölfar þessara umræðna. Tók reyndar eftir því að Björn Ingi hefur tapað töluvert af "taninu" síðan þessi mynd var tekin. Örugglega búin að losa sig við ímyndarráðgjafann og hættur að hugsa að hann verði að líta út eins og Ken til að fólk fíli hann.

Hverjir eru sammála mér?

föstudagur, desember 15, 2006

Hvað getur maður sagt?


Ég er yfirleitt síðasta manneskjan í heiminum til að viðurkenna mín ljósku-móment en þetta var einfaldlega of fyndið til að sleppa því. Er ennþá flissandi yfir þessu mörgum dögum seinna. Here goes:

Ég tel mig ekki vera lélega í landafræði. Hef ferðast og alltaf haft nokkuð góða hugmynd um heimsmyndina. Vitað hverjar helstu heimsálfurnar eru og hvaða lönd liggja saman og svona. Um daginn vorum við strákurinn að prufukeyra nýja Te og kaffi-kaffihúsið niðri í Austurstræti og fletta í gegnum ferðabækur í leiðinni. Við sátum þarna og létum okkur dreyma um fjarlæg lönd og var Suður-Ameríka áfangastaðurinn að þessu sinni. Lásum okkur til um Costa Rica, Belize, Honduras og síðast en ekki síst Nicaragua. Indriði kom með eitthvað gullið comment um það fallega land og hvað það væri nú gaman að fara þangað. Ég samsinnti honum í því og bætti því svo við að svo gæti maður náttúrulega líka skoðað fossana. "Hvaða fossa?" "Jú auðvitað Nicaragua-falls". Hann var týndur á svipinn í svona hálfa sekúndu og svo var eins og hann trúði ekki hvað var að gerast. "Þú meinar Niagra-falls, ...sem eru í Bandaríkjunum". Þá missti ég mig og dó úr hlátri. Og er ennþá að tryllast úr hlátri yfir þessu. Við rifjuðum þetta upp í gærkvöldi við hjónin og dóum aftur úr hlátri. Hvernig er hægt að láta svona út úr sér og vera MEST að meina það. Ég á mér náttúrulega ekki viðreisnar von. Hvernig er þetta hægt?

fimmtudagur, desember 14, 2006

Jakkafatahvað...


Ég hef oft spáð í því hvað það er örugglega leiðinlegt að vera bankagaur. Með áhersluna á gaur. Þeir eru ALLTAF í jakkafötum, í vinnunni, úti að borða, á djamminu, allsstaðar, ætli þeir sofi ekki í þeim líka. Það er næstum því óþarfi að taka fram að mér myndi leiðast mjög mikið að vera alltaf í sömu fötunum. Það er líka orðið þannig að það er ekki þverfótað fyrir þeim í miðbænum. Þeir eru allsstaðar. Þegar maður fær sér lunch einhversstaðar, þá eru jakkafatamenn þar, þar sem maður fær sér kaffi, þar eru jakkafatamenn, ef maður er bara á röltinu, þá labbar maður framhjá svona allavegana 5. Og þeir eru allir eins, allir frekar ungir, í stælí-skóm, með stælí-bindi. Versla örugglega allir annað hvort í GK eða hjá Sævari Karli. Þetta er orðið eins og einhverskonar einkennisbúningur bankastarfsmanna, allt frekar súrt og orðið frekar þreytt eitthvað. Má ég þá frekar biðja um eitthvað annað, kannski gallabuxur og pínu úfið hár.

miðvikudagur, desember 13, 2006

Happy go lucky

Ég er svo ánægð í dag því að...
...það eru allar höldurnar eru komnar á eldhúsinnréttinguna mína.
...ég er búin í einu prófi, sem þýðir 1/3 af prófum búin, jibbýkóla...
...og prófið gekk bara vel
...ég á bestu vinkonur í heimi sem nenna að keyra mig og ná í mig
...ég á líka fyndnustu vinkonur í heimi, get hlegið endalaust af þeim skvísunum
...ég hlakka svo fáránlega mikið til jólanna
...ég hlakka líka ótrúlega mikið til áramótanna
...er að fara að hanna matseðil handa okkur stráknum
...byrja ekki aftur í skólanum fyrr en 11.jan sem er lengra jólafrí en ég átti von á
...ætla að gera allskyns allskyns skemmtilegt í fríinu mínu
...ég get ekki beðið eftir að fagna próflokum
...ég get heldur ekki beðið eftir að taka spjall við Bubba og Auðunn yfir rauðvínsglasi milli jóla og nýárs
...get heldur ekki beðið eftir að hitta hana Stínu mína í Leifsstöð þann 20.
...get ekki beðið eftir að hitta uppáhalds-parið mitt, þau más og róbó í dinner á föstudaginn :)

Jólakúla til ykkar
Laufar

þriðjudagur, desember 12, 2006

Pirrrringurinn...

* Að geta ekki einbeitt mér
* Að þurfa einn dag í viðbót fyrir prófið
* Fólk sem svarar ekki sms
* Fólk sem svarar ekki á msn en er samt ekki með stillt á busy

To do or die

Þá er maður mættur á blessað bókasafnið. Dagurinn fyrir fyrsta prófið og allt of lítið búið að komast í verk. Stefnan er því sett á að vera hérna eitthvað frameftir kvöldi og ná að lesa yfir efnið og jafnvel svara undirbúningsspurningum fyrir blessað prófið á morgun. Sumar eru spennandi, aðrar eru minna spennandi. Sem dæmi má nefna: Hver eru meginrökin gegn trúverðugleika skilningarvitana um tilveru ytri heims? Þið megið ákveða hvort ykkur finnst þetta spennandi eða ekki... ég veit hvað mér finnst.

Hvorki meira né minna en 12 dagar til jóla. Það sem ég er búin að gera jólatengt er eftirfarandi:
1. Segja fólki hvað mig langar að fá í jólagjöf
2. Kaupa aðventukrans
3. Kaupa ljós í gluggann

Það sem á hins vegar eftir að gera er:
1. Kaupa jólagjafir
2. Þrífa
3. Skreyta
4. Skrifa jólakort
5. Baka
6. Komast í jólaskap

Ok ég geri nú sennilega ekki mikið af 4. eða 5. en mig langar svo að fá jólatré eða allavegana skreyta eitthvað smá. Skreytti ekkert í fyrra og fannst það frekar depressing. Atriði 6. verður afgreitt á leiðinni norður. Atriði 1. og 2. get ég vonandi klárað áður en við förum norður.

Jæja. Ætli maður sé ekki hingað komin til að læra. Er búin að sitja hérna í hálftíma og ekki búin að lesa neitt. Enn hefur engin haft samband við mig vegna einbeitingarinnar, hún er enn týnd og tröllum gefin. Það er því spurning hvernig gengur með ætlunarverk dagsins.

Góðar stundir

mánudagur, desember 11, 2006

Tapað - fundið

Ég virðist hafa lagt frá mér einbeitinguna einhversstaðar og finn hana ekki aftur. Hún er afskaplega falleg, bláleit, mjög róleg og lætur lítið yfir sér. Þeir sem hafa orðið hennar varir eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við mig sem fyrst. Ég þarf nauðsynlega á henni að halda nú í prófalestrinum. Þetta er hálf pointless án hennar.

föstudagur, desember 08, 2006

Amor fati

Já eins og Nietzsche sagði þá á maður að elska örlög sín. En maður hefur líka möguleikann á því að stýra örlítið örlögunum og reyna að fá það fram sem manni huggnast. Í þeim anda verður hér með birtur útdráttur úr óskalista undirritaðar. Hlutirnir eru ekki settir fram í ákjósanleikaröð, mig gæti langað mest í það sem er neðst eða jafnvel um miðbik listans.

Bolur / peysa úr Nakta apanum
Converse skór
Diskinn með Lay Low
Ullarsokkar
Bolur úr Spaksmannsspjörum
Bók
Föt
Rauðvín
World peace

Ég ætla að taka fram, svona eftir að hafa flutt á árinu, að þá langar mig ekki í neitt heimilisdót. Öll eldföst mót, kertastjakar og svoleiðis er afþakkað. Á svo ótrúlega mikið af þessháttar hlutum að það væri eins og að bera í bakkafullan lækinn að gefa okkur hjónum svoleiðis.

Góðar stundir
Laufey með prófaóráð

fimmtudagur, desember 07, 2006

Jóla hvað...

Vá hvað þetta er fyndið!!

Það kemur manni ekkert í eins mikið jólaskap eins og syngjandi súpermódel. Konan er náttúrulega sjúklega hæfileikarík. Ég segi bara: Five naked meeeeeennnnn!!
I miss Janice... plís bring her back...

Þessi mynd gerir mig glaða



Einhvern veginn gerir hún það. Væri akkúrat núna til í að vera á flugvellinum í Tahiti, að fá mér local bjór þeirra Tahiti búa. Það væri heitt og rakt, ég væri í stuttbuxum og hlýrabol, örugglega sveitt. Þótt það sé ekkert sérstaklega eftirsóknarvert að vera sveittur þá væri mér allavegana heitt og það væri ekkert annað á dagskránni hjá mér en að drekka af bjórnum sem ég væri með í hendinni til að kæla mig niður. Engin próf, ekkert stress, engin jólapressa, engin krafa um að kaupa fallegar gjafir eða skrifa jólakort. Enginn snjór, enginn kuldi, ekkert stress, bara heitt og rakt og afslappað. Banjóleikararnir myndu nikka mig og halda áfram að syngja angurvært og spila eins og þeim einum væri lagið.

Er það alltaf þannig að manni finnst grasið grænna hinum megin?

miðvikudagur, desember 06, 2006

Ja hérna...

Það geta ekki allir sagt að þeir séu með áverka eftir að hafa farið á slysó en það get ég!

Skarta núna þessum tveimur fallegu, marglitu marblettum á vinstri hönd eftir stórkostlegar aðfarir blíðustu hjúkrunarkonu í heimi ...hóst hóst. Finnst þeir frekar mikið creepy og er alls ekki hrifin af þeim. Veit svei mér þá ekki hvort ég hætti mér á þessa blessuðu deild í nánustu framtíð. Og vona svo sannarlega að ég þurfi þess bara ekki.

Skellti mér annars í IKEA í gær með Guðnýju og Steinunni og keypti mér þessi fallegu ljós í gluggann hjá mér. Skikkaði svo strákinn til að hengja þau upp í gærkvöldi við lítinn fögnuð. Nú vantar mig bara smá greni til að setja í ljósin og þá verður þetta svo undur fallegt allt saman. Fékk mér líka hangikjöt á íslenskan máta í sænska magazininu, með grænum baunum, rauðkáli og uppstúf. (Eða reyndar fékk ég mér ekki rauðkál og uppstúf, finnst það bæði frekar vont) Og við hlógum mikið og töluðum hátt, eins og okkur einum er lagið. Það var mjög mjög gaman. Takk fyrir gærdaginn stúlkur.

þriðjudagur, desember 05, 2006

Hvað gerir maður til að létta sér lundina í prófunum?


Maður lætur sig dreyma um ferðir til útlanda, flottar vinnur og hugsar um markmiðið með öllu þessu streði.

Væri ekki gaman að vera í New York og kannski vinna í New York Stock Exchange á Wall St.? Ég tók mig allavegana vel út þarna fyrir utan. Er einhver til í að gefa mér ferð til Stóra Eplisins í próflokagjöf? ...einhver...plís... !

Próf, próf...

Já stressið er byrjað, svitinn farin að brjótast út og andateppan farin að segja til sín. Og þá langar manni líka til að gera allt, allt annað en að læra. Mig langar að setja upp seríur, fá mér aðventukrans, kaupa jólagjafir og hanga á kaffihúsum. Langar reyndar alltaf að hanga á kaffihúsum þannig að það er svo sem ekkert nýtt eða prófatengt.

Heilsan farin að skána þannig að einhver lukka er sennilega farin að beinast til mín. Vonandi skilar hún sér í prófunum líka.

Er búin að búa til óskalista sem ég er búin að hengja á ísskápinn fyrir eiginmanninn að stúdera. Birti kannski valda kafla úr honum hérna á síðunni við tækifæri. Ekki það að einhver komi til með að kaupa eitthvað af þessu nema helst þá hann. Alveg glatað hvað maður fær alltaf fáa pakka.

Get ekki beðið eftir að þessi törn klárist og það komi jól.

Hlakka svvooooo til!!

sunnudagur, desember 03, 2006

Ég er óheppnasta kona í heimi

Ef þið haldið að ég sé að tala um síðustu færslu og óheppnina mína þar þá hafið þið rangt fyrir ykkur. Óheppnin hélt nefninlega áfram, ótrúlegt en satt.

Í gærmorgun vaknaði nefninlega skvísan með voða verk í ökklunum. Útbrotin voru farin að minnka og ég leit ekki lengur út eins og blettatígur. Ég hringdi á Læknavaktina og þeir vildu endilega fá að sjá þetta. Ég fór þangað, var skoðuð og send á Slysó. Já krakkar mínir SLYSÓ. Mín fór þangað og beið og beið. Loksins þegar ég var næst í röðinni kemur hjúkkan fram og segjr að sé von á mörgum slösuðum úr bílslysi og að þeir geti ekki afgreitt neina sjúklinga af biðstofunni í EINHVERJA KLUKKUTÍMA. Þá vorum við hjónin búin að bíða í laaaaangan tíma.

Þegar maður þarf að bíða í langan tíma á biðstofu þá er náttúrulega ekki annað hægt en að hafa eitt elliært gamalmenni sem segir manni ævisöguna sína. Já já hún talaði við ALLA sem vildu hlusta og líka hina sem höfðu engan áhuga á því. Hún átti mann sem lamdi hana og við fengum að heyra söguna af meiðslunum hennar oft, oft. Skemmtilegt…

Loksins þegar öldurnar lægði, erillinn minnkaði og það koma loksins röðin að mér þá tók ekki betra við. Læknirinn sagði að ég væri með húðsýkingu á báðum fótunum og vildi fá að taka blóðprufu, gefa mér sýklalyf í æð og líka skrifa upp á sýklalyfi í pilluformi. Ég fór fram á aðra biðstofu og hver haldið þið að hafi beðið þar eftir mér. Jú jú gamla kellan. Hún sagði einhverri konu sem beið þarna með okkur aftur frá ofbeldismanninum sem hún bjó með, slys sem litli drengurinn hennar hefði lent í þegar hann var 9 ára (hann er núna 33 ára). …já ég veit ALLT um þessa konu núna. Flottasta comment dagsins hjá kerlunni var samt þegar hún fór að tala um að henni liði eins og hún væri stödd í ER þætti. Í kjölfarið á því fylgdu svo miklar vangaveltur um það að George Clooney væri farið að langa í börn, hann væri nefninlega komin á þennan aldur. Þá áttum við strákurinn mjög bágt með okkur og földum andlitin bak við gæða lesefnið.

Loksins kom svo hjúkkan eftir langa bið, og ég fékk VERSTU hjúkkuna á allri vaktinni. Hún var svo harðhent og mikill klunni að hún þurfti að stinga mig 3 sinnum til að fá æð og ég er svo aum í stungunum núna að ég er að deyja. Og að fá mega marbletti þar sem hún stakk í mig.

Hvernig er í alvörunni hægt að vera svona óheppin? Ég næ því ekki… Allir að passa sig að koma ekki nálægt mér ef þessi óheppni skyldi vera smitandi. Svona var allavegana dagurinn hjá mér. Dagurinn sem átti að fara í rosalega lærdómstörn fór í eitthvað allt, allt annað.

föstudagur, desember 01, 2006

Það á ekki af mér að ganga

Ekki nóg með það að mér hafi tekist að ná mér í þessa ofur-skemmtilegu pest sem var að ganga og takast að halda í félagsskap hennar svo dögum skipti heldur.... og varið ykkur núna !! Ég er að fá svona rosaleg ofnæmisviðbrögð við pensilíninu sem ég fékk til að losna við pestina. Já haldið þið ekki að maður sé heppinn.

...OG þetta eru svona afskaplega skemmtileg ofnæmisviðbrögð sem lýsa sér í rauðum, upphleyptum depplum í húðinni ÚT UM ALLAN LÍKAMANN. Mér líður eins og ég sé holdsveik og held svei mér þá að mér hafi aldrei fundist ég ljótari á ævinni.

...OG ég er að fara á Bessastaði í dag, lítandi út eins og ég sé að deyja úr einhverri hræðilegri faraldssótt. Ég held að Dorrit vilji ekkert tala við mig þegar ég er svona útlítandi. Er meira að segja að velta því fyrir mér hvort ég eigi yfir höfuð eitthvað að fara.

Sem betur fer er kennslan búin og ég þarf ekki að sýna mig mikið utandyra. Mig langar að leggjast í gólfið og grenja ég er svo pirruð út af þessu.